Leita
Hreinsa Um leit

Heilbrigðisráðuneyti

864/2020

Reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. - Brottfallin

1. gr.

Ákvörðun og markmið.

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að feng­inni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við ríkisstjórnina, að setja á tímabundna takmörkun á sam­komum eftir því sem hér greinir.

Markmið takmörkunarinnar er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins.

 

2. gr.

Gildissvið.

Takmörkun á samkomum tekur gildi 7. september 2020 kl. 00.00 og gildir til 27. september 2020 kl. 23.59.

Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar.

Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

Reglugerðin tekur hvorki til alþjóðaflugvalla og -hafna né til farþegaferja innanlands eða loft­fara og skipa í millilandaferðum.

Ákvæði 3. og 4. gr. reglugerðar þessarar taka ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Reglugerð þessi tekur ekki til skólastarfs sem fjallað er um í sérstakri auglýsingu um takmörkun skóla­starfs.

 

3. gr.

Fjöldatakmörkun.

Í takmörkun á samkomum felst að fjöldasamkomur eru óheimilar á gildistíma þessarar reglu­gerðar. Með fjöldasamkomum er átt við þegar fleiri en 200 einstaklingar koma saman, hvort sem er í opin­berum rýmum eða einkarýmum. Er þá meðal annars vísað til:

  1. Ráðstefna, málþinga, útifunda o.þ.h.
  2. Kennslu, fyrirlestra og prófahalds.
  3. Skemmtana, svo sem tónleika, menningarviðburða, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.
  4. Kirkjuathafna hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga og ferminga, og annarra trúar­samkoma.
  5. Annarra sambærilegra viðburða með fleiri en 200 einstaklingum.

Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 200 einstaklingar inni í sama rými.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er matvöruverslunum sem eru yfir 1.000 m² að stærð heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavin inn fyrir hverja 10 m² umfram 1.000 m², þó að hámarki 300 viðskipta­vinum í allt.

 

4. gr.

Almenn nálægðartakmörkun.

Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi, meðal annars þeirri sem talin er upp í 3. gr., skal tryggja að hægt sé að hafa a.m.k. 1 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.

Í starfsemi sem eðlis síns vegna krefst meiri nálægðar en kveðið er á um í 1. mgr., svo sem í heilbrigðisþjónustu, á hárgreiðslustofum, nuddstofum og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur, skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn þar sem 1 metra fjar­lægð milli einstaklinga verður ekki við komið. Andlitsgrímur sem notaðar eru utan heilbrigðis­þjónustu skulu uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðla­samtak­anna (CEN). Sóttvarnalæknir getur sett nánari leiðbeiningar um kröfur til andlitsgríma samkvæmt ákvæði þessu.

 

5. gr.

Nálægðartakmörkun í íþróttum, sviðslistum o.fl.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. um 1 metra nálægðartakmörkun eru snertingar heimilar milli íþrótta­fólks á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í bún­ings­­klefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga.

Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu ávallt gæta að nálægðar­takmörk­unum skv. 1. mgr. 4. gr.

Keppnisáhöld skulu sótthreinsuð milli notenda eins og kostur er með hliðsjón af eðli íþróttar­innar.

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands setur sérsamböndum reglur, svo sem um áhorfendur, einstak­lingsbundnar sóttvarnir og sótthreinsun búnaðar, um framkvæmd æfinga og keppna í sínum grein­um í samvinnu við sóttvarnalækni.

Í íþróttum sem ekki tilheyra Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands skal setja leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbeiningum og sambærilegar íþróttir innan sambandsins.

Með sama hætti og í íþróttum eru snertingar og nálægð undir 1 metra heimil í sviðslistum, tónlist, við kvikmyndatöku og sambærilegri starfsemi. Þar sem sérstök smithætta er fyrir hendi, svo sem á kóræfingum, skal þó eftir fremsta megni gætt að ákvæði 1. mgr. 4. gr. og eftir atvikum meiri fjarlægð ef það er unnt.

Um fjölda áhorfenda fer skv. 3. og 4. gr. reglugerðarinnar.

 

6. gr.

Takmarkanir á starfsemi vegna sérstakrar smithættu.

Veitingastaðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar og spilasalir skulu ekki hafa opið lengur en til kl. 23.00 alla daga vikunnar. Ekki er heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum, svo sem tónleikum, dansleikjum, brennum eða öðrum viðburðum sem ætla má að dragi að sér hóp fólks eftir kl. 23.00.

Í starfsemi þar sem notaður er sameiginlegur búnaður, svo sem í íþróttastarfi, starfsemi líkams­ræktarstöðva, spilasala og spilakassa, skal búnaður sótthreinsaður milli notenda.

Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. um fjöldatakmörkun má gestafjöldi á sund- og baðstöðum sem og líkams­ræktarstöðvum aldrei vera meiri en þrír fjórðu af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Sé hámarksfjöldi gesta ekki skráður í starfsleyfi skal miða gestafjölda við þrjá fjórðu þess fjölda sem fataskiptirými gerir ráð fyrir. Börn fædd árið 2005 og síðar eru ekki talin með í gesta­fjölda. Sóttvarnalæknir gefur út nánari leiðbeiningar um sund- og baðstaði vegna COVID-19 og fyrir líkamsræktarstöðvar. Ákvæði þetta tekur einnig til baðstaða í náttúrunni eftir því sem við á.

 

7. gr.

Hjúkrunarheimili og aðrar heilbrigðisstofnanir.

Heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimili og aðrar sambærilegar stofnanir skulu setja sér reglur um starfsemi sína, svo sem varðandi heimsóknir utanaðkomandi að heimilunum og stofnunum.

 

8. gr.

Þrif og sótthreinsun almenningsrýma.

Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti. Auk þess skal minna almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir, svo sem munnlega, með merkingum eða skiltum.

Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, meðal annars við afgreiðslukassa og innkaupakerrur í verslunum.

 

9. gr.

Undanþágur.

Ráðherra getur veitt undanþágu frá takmörkun á samkomum vegna samfélagslega ómissandi inn­viða sem mega ekki stöðvast, svo sem á sviði raforku, fjarskipta, samgangna, sorphirðu, heil­brigðis­starfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga eða slökkviliða. Hið sama á við vegna kerfislega og efna­hags­lega mikilvægrar starfsemi, svo sem til að tryggja fæðuöryggi, dreifingu nauðsynjavara eða efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi. Enn fremur getur ráðherra veitt undanþágu vegna starfa Alþingis, dómstóla og stjórnsýslu.

Við veitingu undanþága skal leitast við að grípa til annarra aðgerða þannig að gætt sé að smit­vörnum eins og kostur er.

 

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, tekur gildi eftir því sem mælt er fyrir um í 2. gr. Frá sama tíma fellur úr gildi auglýsing nr. 825/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, með síðari breytingu.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 3. september 2020.

 

F. h. r.

Ásta Valdimarsdóttir.

Ásthildur Knútsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica