Heilbrigðisráðuneyti

800/2020

Reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID‑19. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um alla þá einstaklinga sem sóttvarnalæknir skyldar í sóttkví eða ein­angrun á grundvelli sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, hvort sem það er gert með almennri ákvörðun eða ákvörðun sem beint er sérstaklega að viðkomandi. Reglugerð þessi gildir jafnframt um sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19.

Krafa um sóttkví skv. 3. gr. og sýnatöku við landamæri skv. 4. gr. gildir ekki um þá sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest með PCR-prófi að hafi áður fengið COVID-19 sýkingu og lokið hafa einangrun eða COVID-19 sýking hefur verið staðfest með mótefnamælingu.

Með reglugerð þessari er kveðið á um afkvíun landsins alls eins og nánar er útfært í reglu­gerð­inni skv. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis til heilbrigðis­ráðherra.

 

2. gr.

Markmið.

Sóttkví og einangrun eru opinberar sóttvarnaráðstafanir sem beitt er til að draga úr útbreiðslu farsótta, hvort sem er til eða frá Íslandi, innanlands eða til að varna útbreiðslu smits frá einstak­ling­um. Sóttkví er beitt þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki með einkenni. Hugtakið sóttkví nær hvorutveggja til heimasóttkvíar og vinnusóttkvíar. Einangrun er beitt þegar einstaklingur er með smitandi sjúkdóm.

 

3. gr.

Skylda til að fara í sóttkví.

Öllum þeim, sem koma til Íslands og dvalið hafa í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum í löndum sem skilgreind eru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði, er skylt að fara í sóttkví í 14 daga frá komu til landsins. Sóttvarnalæknir skal reglulega endurmeta hvaða lönd og svæði teljist áhættu­svæði, svo sem með hliðsjón af skilgreiningu alþjóðastofnana. Börnum fæddum árið 2005 eða síðar er ekki skylt að sæta sóttkví samkvæmt þessari málsgrein. Tengifarþegum sem fara ekki út fyrir viðkomandi landamærastöð er ekki skylt að fara í sóttkví samkvæmt þessari málsgrein og þurfa þar með ekki sýnatöku samkvæmt reglugerð þessari.

Til að tryggja rétta framkvæmd sóttkvíar getur sóttvarnalæknir gert kröfu til flytjenda að far­þegar sem koma til landsins fylli út þar til gert eyðublað eða veiti upplýsingar meðal annars um dvalar­stað hér á landi og afhendi þar til bærum yfirvöldum á landamærum.

Allir þeir sem hafa umgengist einstaklinga með COVID-19 skulu fara í sóttkví í 14 daga frá því að þeir umgengust síðast smitaðan einstakling. Sóttvarnalæknir, eða þeir sem hann hefur falið að sinna því verkefni, getur gefið fyrirmæli um að einstaklingur fari í sóttkví ef möguleiki er á því að viðkomandi hafi smitast af COVID-19 og er einstaklingi skylt að hlýða þeim fyrirmælum.

Þeir sem skylt er að fara í sóttkví samkvæmt þessu ákvæði skulu fara í heimasóttkví, sbr. 5. og 6. gr. Um vinnusóttkví gildir 7. gr.

Neiti einstaklingur að fara í sóttkví eða sýnatöku samkvæmt reglugerð þessari er sóttvarnalækni heimilt að leita aðstoðar lögregluyfirvalda vegna aðgerða til að varna smiti, s.s. sýnatöku, ein­angrun eða sóttkví í samræmi við 14. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997. Í þeim tilgangi er lögreglu enn fremur heimilt að kanna hvort einstaklingur er á þeim stað sem hann sætir sóttkví. Áður en gripið er til þvingunaraðgerða skal ætíð reynt að leysa mál með öðrum hætti.

 

4. gr.

Valkvæð sýnataka við landamæri Íslands.

Þeir sem skylt er að fara í 14 daga sóttkví skv. 1. mgr. 3. gr. geta þess í stað valið að fara í sýna­töku í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða á öðrum landamærastöðvum sem sóttvarnalæknir ákveður til grein­ingar á SARS-CoV-2 veirunni og síðan í sóttkví þangað til niðurstöður liggja fyrir úr seinni sýnatöku sem í boði verður og framkvæma á 5 dögum eftir komu til landsins. Börn fædd árið 2005 eða síðar þurfa hvorki að fara í sýnatöku né sóttkví samkvæmt ákvæði þessu. Framkvæmd sýna­töku við landamæri Íslands fer að öðru leyti samkvæmt leiðbeiningum sem sóttvarnalæknir gefur út. Ef sýni úr seinni sýnatöku reynist neikvætt er einstaklingi ekki lengur skylt að sæta sóttkví. Um jákvæð sýni fer eftir 9. gr.

Fyrir komuna til Íslands er einstaklingum skylt að forskrá sig með því að fylla út rafrænt eyðu­blað þar sem meðal annars koma fram samskiptaupplýsingar, upplýsingar um hvar viðkomandi hefur dvalið, hvar hann hyggst dvelja í sóttkví á Íslandi og upplýs­ingar um heilsufar. Þeim sem flytja farþega til Íslands er skylt að vekja athygli viðkomandi á skyldu til forskráningar með hæfilegum fyrirvara.

Gjald fyrir fyrri sýnatöku samkvæmt ákvæði þessu nemur 11.000 kr., sbr. 1. tölul. 1. mgr. og 5. mgr. 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Gjaldið myndar ekki afsláttarstofn skv. 4. gr. reglu­gerðar um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, sbr. jafnframt 29. gr. laga nr. 112/2008. Sé gjald samkvæmt þessari málsgrein greitt við forskráningu, degi fyrir komu til landsins eða fyrr skal það nema 9.000 kr. Seinni sýnataka á meðan sóttkví fer fram sam­kvæmt þessu ákvæði er skipulögð af sóttvarnalækni og er hún einstaklingi að kostnaðarlausu.

Ákvæði þetta og gjaldtaka samkvæmt því tekur ekki til þeirra sem vegna veikinda leita á heilsu­gæslu og fá sýnatöku vegna SARS-CoV-2, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 817/2012, um sótt­varna­ráðstafanir, enda séu einkenni viðkomandi í samræmi við fagleg fyrirmæli landlæknis.

Gjald samkvæmt ákvæði þessu er innheimt af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem skal sjá um að það renni til þeirra stofnana sem að verkefninu koma í samræmi við hlutfallslegan kostnað þeirra.

Lífsýni sem tekin eru samkvæmt þessu ákvæði skulu einungis rannsökuð m.t.t. SARS-CoV-2 veir­unnar. Lífsýnum skal eytt að lokinni greiningu.

Einstaklingur sem farið hefur í sýnatöku samkvæmt ákvæði þessu oftar en tvisvar sinnum á 30 daga tímabili getur sótt um endurgreiðslu til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir þá fjárhæð sem hann hefur greitt umfram 22.000 kr. vegna sýnatöku fyrir sig sjálfan.

Þeir sem koma á landamærastöð utan þess tíma sólarhrings sem unnt er að taka sýni og ekki eru í áætlunarferð geta óskað eftir sýnatöku með útkalli. Þeim sem sinnir slíku útkalli er heimilt að taka gjald umfram það sem segir í 4. mgr. sem nemur 60.000 kr. fyrir útkallið.

Tengifarþegar sem fara ekki út fyrir viðkomandi landamærastöð þurfa ekki að fara í sýnatöku samkvæmt þessu ákvæði. Tengifarþegum sem fara út fyrir landamærastöð en dvelja innan við 48 tíma á Íslandi er heimilt að fara í sóttkví í stað sýnatöku samkvæmt ákvæði þessu.

 

5. gr.

Skyldur einstaklinga sem eru í heimasóttkví.

Þeim sem gert hefur verið að sæta sóttkví samkvæmt reglugerð þessari er skylt að halda sig heima við eða á þeim stað þar sem þeir eru í sóttkví og hafa bein samskipti við sem fæsta einstak­linga, sbr. leiðbeiningar sóttvarnalæknis.

Í sóttkví felst eftirfarandi:

  1. Einstaklingur má ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Einstaklingur má þó fara í gönguferðir en þarf að halda sig í a.m.k. 2 metra fjarlægð frá öðrum vegfarendum.
  2. Einstaklingur má ekki taka á móti gestum á heimili sínu eða á þeim stað þar sem hann er í sóttkví meðan sóttkví stendur yfir.
  3. Einstaklingur má ekki nota almenningssamgöngur en honum er heimilt að nota leigubíl.
  4. Einstaklingur má ekki fara til vinnu eða skóla þar sem aðrir eru.
  5. Einstaklingur má hvorki fara á mannamót né staði þar sem margir koma saman, þ.m.t. í verslanir eða lyfjabúðir.
  6. Einstaklingur má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, hótela og öðrum sam­bæri­legum rýmum, svo sem stigagöngum, þvottahúsum eða sameiginlegum görðum/útivist­ar­svæðum, nema á leið inn og út.

 

6. gr.

Nánar um framkvæmd heimasóttkvíar.

Einstaklingar á sama heimili, sem voru útsettir fyrir smiti á sama tíma, geta verið í sóttkví saman á sama stað.

Sé hluti heimilismanna í sóttkví geta aðrir heimilismenn sinnt sínum daglegu störfum og börn farið í skóla hafi þau þroska og getu til að halda fjarlægð við þann sem er í sóttkví og sinna eigin hrein­læti. Gestir mega aftur á móti ekki koma á heimilið.

Vilji eða geti einstaklingar sem ekki hafa verið útsettir fyrir smiti ekki farið af heimilinu ættu þeir að takmarka snertingu við þann sem er í sóttkví eins og hægt er.

Ef sá sem er í sóttkví veikist verða aðrir heimilismenn að fara í sóttkví.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út nánari leiðbeiningar fyrir almenning um sóttkví, sbr. fylgiskjal 1. Einnig getur hann mælt sérstaklega fyrir um hvernig sóttkví skuli háttað í einstaka tilfellum, telji hann tilefni til.

 

7. gr.

Vinnusóttkví.

Sóttvarnalæknir getur heimilað einstaklingum, einum eða fleiri saman, sem skylt er að fara í sóttkví og eru komnir hingað til lands til starfa eða til að sinna sérstökum verkefnum að fara í vinnusóttkví í stað heimasóttkvíar. Með vinnusóttkví er átt við að viðkomandi geti farið til og frá vinnustað á meðan sóttkví stendur.

Skilyrði fyrir vinnusóttkví eru að:

  1. Viðkomandi umgangist ekki aðra en heimilisfólk eða þá sem eru með þeim í vinnusóttkví.
  2. Viðkomandi dveljist einungis á gististað og vinnustað meðan á sóttkví stendur.
  3. Viðkomandi fylgi öðrum ákvæðum 5. og 6. gr. eftir því sem við á sem og leiðbeiningum um sóttvarnaráðstafanir sem gefnar eru út af sóttvarnalækni vegna vinnusóttkvíar.
  4. Sótt sé um heimild fyrir vinnusóttkví til sóttvarnalæknis.

Heimild frá sóttvarnalækni samkvæmt þessu ákvæði veitir ekki undanþágu frá reglum heil­brigðis­ráðherra um takmarkanir á samkomum eða reglugerð dómsmálaráðherra um för yfir landa­mæri.

 

8. gr.

Undanþágur.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá heimasóttkví að öllu leyti eða hluta vegna mjög sér­stakra aðstæðna enda sé tryggt að það komi ekki niður á smitvörnum.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá einstaka skilyrðum vinnusóttkvíar og aðlagað skilyrði að viðkomandi starfsemi ef tryggt er að það komi ekki niður á smitvörnum.

Sóttvarnalæknir getur veitt undanþágu frá sóttkví skv. 3. gr. vegna samfélagslega ómiss­andi innviða sem mega ekki stöðvast, svo sem á sviði raforku, fjarskipta, samgangna, sorphirðu, heil­brigðis­starfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga eða slökkviliða. Hið sama á við vegna kerfislega og efnahagslega mikilvægrar starfsemi, svo sem til að tryggja fæðuöryggi, dreifingu nauðsynjavara eða efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi.

Einstaklingi sem getur staðfest með gildu vottorði að hann hafi sýkst af SARS-CoV-2 veirunni er ekki skylt að fara í sýnatöku á landamærum samkvæmt þessari reglugerð. Sama gildir um einstak­ling sem getur sýnt fram á gilt vottorð um neikvætt PCR-próf. Um þann tíma sem liðinn er frá því að PCR-próf var tekið fer eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis. Um efni og form vottorða fer að öðru leyti eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis, m.a. um gildi vottorða og tungumál. Vottorð sem uppfylla ekki leiðbeiningar sóttvarnalæknis eru ekki gild vottorð samkvæmt þessu ákvæði. Sóttvarnalækni er heimilt að framkvæma mótefnamælingu eða sýnatöku til staðfestingar á vottorði ef vafi leikur á um trúverðug­leika vottorðs. Á meðan beðið er eftir niðurstöðu slíkrar greiningar skal einstaklingur sæta sóttkví.

Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá sóttkví skv. 1. mgr. 3. gr. til einstaklinga sem fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis um vinnuferðir erlendis. Slíka undanþágu er einungis heimilt að veita starfsfólki í heilbrigðisþjónustu, starfsfólki sem sinnir flutningum á vöru og þjónustu og starfsfólki lögreglu vegna nauðsynlegra ferða starfs síns vegna.

 

9. gr.

Sérstakar reglur um einangrun.

Einstaklingur sem er með staðfesta sýkingu af COVID-19 eða ætla má að hann kunni að vera smitaður en þarf ekki á sjúkrahúsdvöl að halda, skal vera í einangrun í heimahúsi eða á stað sem almannavarnir og heilsugæsla á hverjum stað tilgreina. Í þeim tilvikum sem jákvætt PCR-próf gæti verið vegna eldra smits getur einstaklingur gengist undir mótefnamælingu á blóðsýni. Ef mótefni greinist þarf viðkomandi ekki að sæta einangrun.

Einstaklingur í einangrun á að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta, sbr. meðfylgjandi leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Ákvæði 5. og 6. gr. eiga einnig við um þá sem sæta ein­angrun nema strangari reglur eigi við. Þannig má einstaklingur í einangrun t.a.m. hvorki fara í göngu­ferðir né nota leigubíla.

Að jafnaði skal einstaklingur sem er smitaður vera einsamall í einangrun. Aðrir heimilismenn geta þó verið í sóttkví á sama stað ef þeir vilja ekki eða geta ekki farið af heimilinu en þeir eiga að takmarka snertingu við þann sem er í einangrun eins og raunhæft er og helst að halda sig í a.m.k. 1 m fjarlægð frá hinum smitaða. Ef fleiri veikjast á heimilinu lengir það tíma sem aðrir heimilismenn þurfa að vera í sóttkví og mögulega einangrun.

Sóttvarnalæknir hefur gefið út nánari leiðbeiningar fyrir almenning um einangrun, sbr. fylgi­skjal 2. Einnig getur hann mælt sérstaklega fyrir um hvernig einangrun skuli háttað í einstaka til­fellum, telji hann tilefni til.

Læknir má aflétta einangrun vegna COVID-19 þegar 14 dagar eru liðnir frá greiningu og sjúk­lingur hefur verið einkennalaus í a.m.k. sjö daga.

 

10. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi skv. 19. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eða 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er á grundvelli 12., 13. og 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, með síðari breytingum, og 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, tekur gildi kl. 00.00 þann 19. ágúst 2020. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 759/2020, um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19.

Reglugerð þessi fellur úr gildi þann 15. september 2020.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Þeir einstaklingar sem koma til landsins fyrir kl. 00.00 þann 19. ágúst 2020 eða koma með áætlunarferð sem áætlað er að komi til landsins þann 18. ágúst og hafa farið í sýnatöku í samræmi við reglugerð nr. 759/2020, um sóttkví, einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19 skulu viðhafa heimkomusmitgát samkvæmt þeirri reglugerð og leiðbeiningum sóttvarna­læknis þangað til niðurstöður liggja fyrir úr seinni sýnatöku sem í boði verður og framkvæma á 5 dögum eftir komu til landsins. Neikvæð niðurstaða úr seinni sýnatöku leiðir til þess að einstaklingur þarf ekki lengur að viðhafa heimkomusmitgát. Um jákvæð sýni fer eftir 9. gr. þessarar reglugerðar. Seinni sýnataka er skipulögð af sóttvarnalækni og er hún einstaklingi að kostnaðarlausu.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 18. ágúst 2020.

 

F. h. r.

Ásta Valdimarsdóttir.

Ásthildur Knútsdóttir.

 

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica