Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Breytingareglugerð

355/2020

Reglugerð um (11.) breytingu á reglugerð nr. 233/2001, um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

1. gr.

Við reglugerðina bætist ný grein á eftir 9. gr. sem verður 9. gr. a og orðast svo:

Að fenginni umsókn veitir Lyfjastofnun undanþágu frá ákvæðum þessarar reglugerðar og ákvæðum laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna, til innflutnings, meðferðar og vörslu fræja tegundarinnar Cannabis sativa í þeim tilgangi einum að rækta iðnaðarhamp. Undanþágan skal bundin eftirfarandi skilyrðum og takmörkunum:

  1. Að magn tetrahydrocannabinol (THC) í fræinu sé að hámarki 0,20%, sem og í þeim afurðum sem fræið kann að gefa af sér.
  2. Að um sé að ræða yrki tegundarinnar Cannabis sativa sem tilgreint er í sameiginlegri EES-skrá yfir yrki nytjaplantna í landbúnaði sem birt er samkvæmt tilskipun 2002/53/EB, sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 301/1995, um eftirlit með sáðvöru.
  3. Að viðkomandi fræjum fylgi gögn sem sýni fram á að um sé að ræða yrki sem sé tilgreint í sameiginlegri EES-skrá og uppfylli skilyrði tilskipunar ráðsins 2002/57/EB, um markaðssetningu olíu- og trefjaplöntufræs, sem innleidd er í íslenskan rétt með reglugerð nr. 301/1995, um eftirlit með sáðvöru.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.

Heilbrigðisráðuneytinu, 17. apríl 2020.

Svandís Svavarsdóttir.

Ásta Valdimarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.