Fara beint í efnið

Prentað þann 23. apríl 2024

Stofnreglugerð

1105/2022

Reglugerð um greiðslu dvalarkostnaðar vegna sjúkrahússinnlagnar barns.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um forráðamenn barna yngri en 18 ára sem þurfa að dvelja tímabundið fjarri heimili sínu vegna sjúkrahússinnlagnar barns.

Sjúkratryggingar taka þátt í óhjákvæmilegum dvalarkostnaði annars foreldris/forráðamanns, vegna dvalar á hóteli, gistihúsi, í orlofsbústað eða íbúð félagasamtaka, vegna sjúkrahúsinnlagnar barns, enda sé a.m.k. 20 km vegalengd milli heimilis og sjúkrahúss. Reglugerðin tekur þó ekki til dvalar á sjúkrahóteli eða á gististöðum sem starfa skv. samningi við Sjúkratryggingar.

Ef um er að ræða erfiða meðferð við lífshættulegum sjúkdómi er Sjúkratryggingum heimilt að taka þátt í dvalarkostnaði beggja foreldra barns.

2. gr. Skilyrði fyrir endurgreiðslu dvalarkostnaðar.

Við umsókn um endurgreiðslu skal framvísa kvittun fyrir dvalarkostnaði. Ef um er að ræða erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms þar sem báðir foreldra óska endurgreiðslu skal jafnframt framvísa læknisvottorði.

Ekki er heimilt að taka þátt í dvalarkostnaði foreldris/nánasta aðstandanda og daglegum bílferðum, skv. 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1140/2019, vegna sama tímabíls.

3. gr. Fjárhæð endurgreiðslu.

Sjúkratryggingar endurgreiða 80% af dvalarkostnaði. Þó er ekki endurgreitt hærra gjald en sem nemur 50% af því gjaldi sem Sjúkratryggingar greiða fyrir gistiþjónustu skv. rammasamningi um gistiþjónustu eða 75% ef um báða foreldra er að ræða, sbr. 3. mgr. 1. gr.

4. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 31. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur Tryggingaráðs nr. 457/2000 um greiðslu dvalarkostnaðar vegna sjúkrahúsinnlagnar barns.

Heilbrigðisráðuneytinu, 16. september 2022.

Willum Þór Þórsson.

Guðlaug Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.