Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 16. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 16. júlí 2022

831/2022

Reglugerð um stjórn Landspítala.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um hlutverk og ábyrgð stjórnar Landspítala.

2. gr. Skipan stjórnar Landspítala.

Ráðherra skipar fimm manna stjórn Landspítala og tvo til vara til tveggja ára í senn. Skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður.

Ráðherra skal jafnframt skipa tvo áheyrnarfulltrúa í stjórn úr hópi starfsmanna Landspítala, að fenginni tilnefningu fagráðs Landspítala, með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar.

Stjórnarmenn mega samhliða því hlutverki að sitja í stjórn hvorki sitja í framkvæmdastjórn spítalans né gegna starfi forstöðumanns á stofnuninni.

Tryggja skal að kynjahlutföll stjórnarmanna og áheyrnarfulltrúa samræmist lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.

Ráðherra setur stjórninni erindisbréf og ákveður þóknun til stjórnarmanna sem skal greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.

3. gr. Hæfni og skyldur stjórnarmanna.

Í stjórn skulu sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar.

Stjórnarmenn skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað. Missi stjórnarmenn hæfi skulu þeir upplýsa ráðherra um það.

Um sérstakt hæfi stjórnarmanna til meðferðar einstakra mála fer samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Stjórnarmenn skulu gæta að hæfi sínu og upplýsa stjórnina séu þeir í vafa um hæfi sitt. Sérhver stjórnarmaður eða forstjóri Landspítala getur vakið athygli á vanhæfi stjórnarmanns. Verði ágreiningur um hæfi stjórnarmanns til meðferðar máls sker stjórnin úr með atkvæðagreiðslu en viðkomandi stjórnarmaður skal þá ekki greiða atkvæði.

Stjórnarmenn er bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar innri málefni Landspítala og telst til viðkvæmra upplýsinga. Sama gildir um upplýsingar varðandi einstaka sjúklinga og starfsmenn spítalans sem leynt eiga að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Stjórnarmenn eru bundnir þagnarskyldu þó látið sé af stjórnunarstörfum.

4. gr. Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda, stýrir þeim og sér til þess að fundargerð sé haldin. Forstjóri og áheyrnarfulltrúar sitja stjórnarfundi nema stjórn ákveði annað í einstökum tilvikum og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Stjórn getur jafnframt boðað aðra þá sem hún telur hafa þýðingu fyrir efni funda á fundi stjórnarinnar.

Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þörf krefur og eigi sjaldnar en tíu sinnum á ári. Stjórn skal kveða nánar á um tíðni stjórnarfunda og boðun þeirra í starfsreglum.

Fundir stjórnar eru ályktunarbærir ef að lágmarki þrír stjórnarmanna sækja fund eða taka þátt í fundinum í gegnum síma eða annan fjarfundabúnað. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið sé þess kostur. Einfaldur meirihluti atkvæða þeirra fimm stjórnarmanna sem hafa atkvæðisrétt ræður úrslitum á stjórnarfundum en atkvæði formanns skal ráða úrslitum ef atkvæði eru jöfn.

5. gr. Verkefni stjórnar Landspítala.

Stjórn Landspítala skal, í samráði við forstjóra, marka stofnuninni langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum.

Stjórn Landspítala skal yfirfara árlega starfsáætlun og ársáætlun skv. 32. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, leggja sjálfstætt mat á þær og þau markmið og mælikvarða sem þar eru sett fram og gera ráðherra grein fyrir mati sínu innan tveggja vikna frá því að ársáætlun hefur verið lögð fyrir ráðherra til samþykktar.

Forstjóri skal bera ráðstafanir, sem miðað við daglegan rekstur eru mikils háttar eða óvenjulegar í starfsemi stofnunarinnar, undir stjórn til samþykktar. Forstjóri ber eftir sem áður ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt sbr. 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Til óvenjulegra ráðstafana myndu til dæmis teljast ákvarðanir um að stöðva framkvæmd tiltekinna aðgerða, lokanir deilda, tímabundnar breytingar á veitingu á þjónustu vegna óvenjulegra aðstæðna eða ráðstafanir á fjármagni og samningar sem þurfa samþykki ráðherra.

Stjórn Landspítala skal vera forstjóra til aðstoðar við ákvarðanir um önnur veigamikil atriði er varða rekstur stofnunarinnar og starfsemi hennar. Á það við bæði um atriði fjárhagslegs eðlis sem og faglegs, svo sem hvað varðar þróun og nýsköpun, meðal annars með tilliti til tækniþróunar og þróunar í sjúkdómsbyrði þjóðarinnar.

Stjórn Landspítala skal veita ráðherra tillögur að skipun forstjóra Landspítala í samræmi við skipunarferli sem ráðherra ákveður lögum samkvæmt.

Stjórn ber ábyrgð gagnvart ráðherra á þeim ákvörðunum sem hún samþykkir. Formaður stjórnar Landspítala skal reglulega gera ráðherra grein fyrir starfsemi stjórnar og stöðu og árangri stofnunarinnar. Þá skal formaður gera ráðherra grein fyrir annars vegar meiri háttar eða óvenjulegum ráðstöfunum sem stjórn hefur samþykkt og hins vegar veigamiklum frávikum í rekstri, hvort heldur er rekstrarlegum frávikum eða faglegum.

Stjórn Landspítala skal setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um starfssvið og starfsemi stjórnarinnar.

6. gr. Samráð við fag- og notendaráð heilbrigðisþjónustu.

Stjórn Landspítala og forstjóra ber að leita álits fagráðs Landspítala um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag stofnunarinnar, sbr. 12. gr. reglugerðar um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa, nr. 1111/2020.

Stjórn Landspítala og forstjóra ber að leita álits notendaráðs heilbrigðisþjónustu varðandi atriði sem varða sérstaka hagsmuni sjúklinga, svo sem viðmiklar breytingar á skipulagi eða þjónustu Landspítala, þróun og framkvæmd þjónustukannana á stofnuninni sem og stærri umbótaverkefni sem hafa veruleg áhrif til breytinga á þjónustu við sjúklinga.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 6. mgr. 8. gr. a og 38. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.