Fara beint í efnið

Prentað þann 28. apríl 2024

Breytingareglugerð

34/2024

Reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 760/2021, um styrki vegna hjálpartækja.

1. gr.

3. gr. reglugerðarinnar skal orðast svo:

Sjúkratryggingar Íslands greiða styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við almennar athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis. Í ákveðnum tilvikum eru veittir styrkir vegna hjálpartækja til þjálfunar og meðferðar sem stuðla að því að viðhalda eða auka færni og virkni einstaklingsins. Tegund hjálpartækis innan hvers flokks, fer eftir færni og virkni viðkomandi og hvort hjálpartækið efli sjálfsbjargargetu við athafnir daglegs lífs eða teljist mikilvægur þáttur í að fyrirbyggja veikindi/skerðingu á færni. Þegar um er að ræða fötluð börn skal jafnframt horft til þess hvort hjálpartæki sé nauðsynlegt til leiks og tómstunda þeirra. Tæki ætluð til líkamsæfinga eða íþrótta flokkast ekki undir hjálpartæki skv. þessari reglugerð. Þá er ekki veittur styrkur til að kaupa almenn tæki, svo sem heimilistæki, nema þegar um er að ræða aukabúnað eða séraðlögun. Enn fremur er ekki veittur styrkur til að kaupa (auka) hjálpartæki til að hafa á heimili aðstandenda ef viðkomandi býr annars staðar eða á heimavist skóla.

Þau sem búa í sértækum búsetuúrræðum fyrir fólk með fötlun og þarfnast mikils stuðnings eiga rétt til einstaklingsbundinna hjálpartækja. Styrkir eru ekki veittir vegna veggfastra tækja og búnaðar í umræddum búsetuúrræðum, s.s. handrið og lyftur. Heimilt er að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til mikið fatlaðra barna og unglinga sem vegna skólagöngu (leikskóla og grunnskóla) eða dvalar á þjálfunar- og dagvistunarstofnunum yrðu ella að vera án hjálpartækja sinna daglangt. Skal þá annað hjálpartækið vera til nota á heimili og hitt í skóla eða á stofnun. Hér er að jafnaði um að ræða sérhannaða stóla, standgrindur og göngugrindur.

Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að veita styrki vegna tveggja hjálpartækja af sömu gerð til barna sem eiga fasta búsetu á tveimur stöðum, heimildin nær til hjálpartækja við salernisferðir, baðhjálpartækja, lyftara, sjúkrarúma, dýna, stuðningsbúnaðar auk sérstakra stóla og vinnustóla fyrir börn.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verður á fylgiskjalinu "Hjálpartæki Sjúkratrygginga Íslands" með reglugerðinni:

  1. c-liður kafla "0424 Búnaður (tæki og efni) til mælinga (efnamælinga)" skal orðast svo:
    Þeir sem eru með sykursýki II og nota insúlín eða insúlín og lyf í töfluformi sem geta valdið blóðsykurfalli eða eru með meðgöngusykursýki geta fengið að hámarki 1.100 blóðstrimla á tólf mánaða tímabili (22 pakkningar). Þeir sem eru með skerta viðvörun við blóðsykurlækkun, alvarleg blóðsykursföll eða óviðunandi blóðsykurstjórnun geta fengið nema sem skannar/síritar blóðsykur og þá gildir reglan, sbr. b-lið hér að ofan.
  2. Á eftir flokknum "06 30 18 Gervibrjóst 100%, sbr. framangreint" bætist nýr flokkur:
    06 30 21 Gerviaugu eða augnskeljar 100%.
  3. Á eftir flokknum "06 30 39 Gervihlutar til að dekka sjáanleg lýti á húð 100%" bætist nýr flokkur:
    06 30 96 Gerviaugu eða augnskeljar aðlagaðar og/eða fægðar.
  4. Kaflinn "12 18 Hjól" skal orðast svo: Sjúkratryggingar Íslands greiða einungis fyrir þríhjól. Þríhjól eru greidd fyrir einstaklinga sem eru með það mikla færniskerðingu að þeir geta ekki notað tvíhjól. Að jafnaði er ekki greitt fyrir þríhjól fyrir börn yngri en tveggja ára. Stýrisstangir á hjól eru ekki samþykktar eftir 12 ára aldur. Þríhjól og parahjól 12 15 18 eru einungis samþykkt fyrir einstaklinga yngri en 18 ára.
    Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að heimilt sé að samþykkja þríhjól:

    1. Fullreynt er að einstaklingur geti ekki nýtt sér hjól sem er í boði á almennum markaði.
    2. Hjá fullorðnum er gerð krafa um að umsækjandi geti hjólað sjálfur, hafi getu til að skynja umhverfi sitt, geti gætt að sér og skynjað hættur, greint fólk og hluti í umhverfi, hafi fjarlægðarskyn, ratvísi og þurfi ekki stýrisstöng.

      12 18 06 Þríhjól með fótstigi 100%
      12 18 09 Þríhjól, handknúin 100%
      12 18 12 Þríhjól, sparkhjól 100%
      12 18 15 Þríhjól, parahjól 100%
      12 18 21 Fylgihlutir á hjól 100% (sérstakir hnakkar, fótabönd, fótstig o.fl.)
      12 18 90 Viðgerðir á þríhjólum 100%
      12 18 91 Breytingar á þríhjólum 100%

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi 22. janúar 2024.

Heilbrigðisráðuneytinu, 18. janúar 2024.

Willum Þór Þórsson.

Guðlaug Einarsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.