Fara beint í efnið

Prentað þann 1. maí 2024

Stofnreglugerð

3/2024

Reglugerð um undanþágur frá biðtíma eftir sjúkratryggingu.

1. gr.

Sjúkratryggingastofnuninni er heimilt að gera undanþágur frá skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, um tímabil búsetu áður en einstaklingur verður sjúkratryggður, í eftirfarandi tilvikum:

  1. Þegar um er að ræða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum.
  2. Þegar um er að ræða námsmann sem flutt hefur lögheimili sitt frá Íslandi á námstíma vegna náms erlendis og flytur aftur til Íslands innan sex mánaða frá námslokum.
  3. Þegar um er að ræða nýrnasjúkling sem þarfnast reglulega meðferðar í nýrnavél eða sjúkling sem þarfnast súrefnis. Undanþágan tekur einungis til nefndrar meðferðar.
  4. Þegar um er að ræða einstakling sem haldinn er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands til varanlegrar búsetu, enda hafi hann áður verið búsettur hér á landi í a.m.k. 20 ár og eigi hér nána ættingja. Sama á við um barn undir 20 ára aldri sem haldið er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands með foreldrum eða foreldri sem uppfyllir framangreint skilyrði um búsetu.
  5. Þegar um er að ræða einstakling sem hefur yfirgefið búseturíki vegna vopnaðra átaka eða aðstæðna af sambærilegum alvarleika, svo sem náttúruhamfara, getur sjúkratryggingastofnun gert undanþágu vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu.

2. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 5. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, öðlast þegar gildi. Undanþágur reglugerðarinnar gilda einnig um þá einstaklinga sem þegar hafa búsetu hér á landi og bíða eftir því að öðlast rétt til sjúkratryggingar.

Heilbrigðisráðuneytinu, 9. janúar 2024.

Willum Þór Þórsson.

Sigurður Kári Árnason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.