Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

323/2007

Reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í lífeindafræði. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til þess að kalla sig sérfræðing í lífeindafræði og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn, er til þess hefur fengið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

2. gr.

Umsóknir um sérfræðileyfi ásamt gögnum sem staðfesta menntun og starfsreynslu, skal senda til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

3. gr.

Ráðuneytið skal áður en leyfi er veitt leita umsagnar landlæknis, Félags lífeindafræðinga og háskóla eða háskóladeildar sem menntar lífeindafræðinga.

4. gr.

Sérfræðileyfi má veita lífeindafræðingi í sérgreinum og á sérsviðum lífeindafræðinga. Skilyrt er að nám umsækjanda hafi að stærstum hluta verið innan þeirrar sérgreinar eða þess sérsviðs sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.

5. gr.

Til þess að lífeindafræðingur geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi í lífeindafræði, skal hann fullnægja eftirtöldum kröfum:

  1. Hann skal hafa starfsleyfi sem lífeindafræðingur hér á landi skv. 1. gr. laga um lífeindafræðinga nr. 99/1980.
  2. Hann skal hafa lokið meistaraprófi (MS gráðu) eða æðri gráðu frá viðurkenndum háskóla eða ígildi þeirrar menntunar.
  3. Hann skal hafa unnið sem lífeindafræðingur að loknu prófi skv. 2. tölul., sem jafngildir minnst tveimur árum í fullu starfi við þá sérgrein eða á því sérsviði sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.

6. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt 2. gr. laga um lífeindafræðinga nr. 99/1980 öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ráðherra er heimilt, þrátt fyrir að skilyrði 5. greinar séu ekki uppfyllt, að veita lífeindafræðingi sérfræðileyfi að uppfylltum eftirfarandi kröfum:

Hann skal hafa starfsleyfi sem lífeindafræðingur hér á landi skv. 1. gr. laga um lífeindafræðinga nr. 99/1980.

Hann skal hafa stundað nám í þeirri sérgrein sem reglugerðin nær til við þá skóla og á heilbrigðisstofnunum sem viðurkennd eru til slíks náms af viðkomandi yfirvöldum.

Hann skal hafa stundað störf við þá sérgrein sem um ræðir í minnst 5 ár.

Hann skal hafa kynnt störf sín og niðurstöður með grein í rýnd læknisfræðileg tímarit eða fagtímarit lífeindafræðinga, fyrirlestri á ráðstefnu lífeindafræðinga eða annarra sem stunda læknisfræðilegar rannsóknir eða með sýningu á veggspjaldi á ráðstefnum lífeindafræðinga eða annarra sem stunda læknisfræðilegar rannsóknir.

Frestur til að sækja um leyfi skv. 1. mgr. er tvö ár frá gildistöku reglugerðar þessarar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 27. mars 2007.

Siv Friðleifsdóttir.

Sólveig Guðmundsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica