Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

545/2007

Reglugerð um sérfræðileyfi tannlækna. - Brottfallin

1. gr.

Tannlæknar geta fengið sérfræðileyfi í eftirtöldum greinum tannlækninga að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  1. barnatannlækningum
  2. bitlækningum
  3. munn- og kjálkaskurðlækningum
  4. tannfyllingu og tannsjúkdómalækningum
  5. tannholdslækningum
  6. tannholslækningum
  7. tann- og munngervalækningum
  8. tannréttingum
  9. samfélagstannlækningum
  10. öldrunartannlækningum
  11. lyflækningum munnhols
  12. myndgreiningu munns og kjálka

Ráðherra getur að fengnum tillögum nefndar samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1985 fjölgað greinum eða fellt niður.

2. gr.

Nefnd skipuð skv. 5. gr. laga nr. 38/1985 um tannlækningar fjallar um reglur um nám sérfræðinga og umsóknir um sérfræðileyfi á sviði tannlækninga. Skipa skal varamenn í nefndina á þann hátt að í stað deildarforseta komi varadeildarforseti og heilbrigðis­ráðuneyti og Tannlæknafélag Íslands tilnefni hvort fyrir sig hina tvo.

Nefndin skal kveðja til tvo sérfróða menn til þátttöku í meðferð einstakra mála er varða viðkomandi sérgrein og fá þeir þá atkvæðisrétt í nefndinni.

3. gr.

Til þess að tannlæknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi og kalla sig sérfræðing, skal hann sanna fyrir sérfræðinefnd að hann uppfylli þau skilyrði, sem talin eru í reglugerð þessari.

4. gr.

Umsókn um sérfræðileyfi skal stíla til heilbrigðisráðuneytis, en áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar sérfræðinefndar.

Nefndin skal skila ráðuneytinu áliti á umsókn innan þriggja mánaða frá viðtöku hennar.

Meirihluti nefndarmanna þarf að vera meðmæltur umsókn, til þess að nefndin geti mælt með henni og þar af a.m.k. annar hinna sérfróðu manna, sem kvaddir voru til skv. 2. gr.

Hljóti umsókn ekki tilskilin meðmæli, skal nefndin gera skriflega grein fyrir niðurstöðu sinni og senda ráðuneytinu ásamt umsókninni.

Forsendur nefndarinnar skulu jafnframt kynntar umsækjanda skriflega.

5. gr.

I.

Umsækjandi skal hafa tannlækningaleyfi hér á landi. Hann skal hafa stundað almennar tannlækningar um eins árs skeið hið minnsta áður en sérnám hefst. Sérfræðinefnd getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði enda verði því fullnægt áður en sérfræðileyfi er veitt.

II.

a)

Sérnám í tannlækningum, öðrum en munn- og kjálkaskurðlækningum, skal eigi vera skemmra en 3 ár.

 

b)

Umsækjandi um sérfræðileyfi skal hafa stundað sérnám við viðurkennda menntastofnun og skal hafa lokið námi og uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma við viðkomandi stofnun fyrir það sérnám. Að öllu jöfnu skal sérnám vera a.m.k. 10 námsmánuðir á hverjum stað.

 

c)

Sérnám í munn- og kjálkaskurðlækningum, skal eigi vera skemmra en 5 ár. Námið skal gefa þekkingu og reynslu á öllum sviðum handlækninga er teljast til meðferðar innan skilgreinds verksviðs tannlæknis. Námið hafi einnig gefið kost á fræðslu um meðferð í háls-, nef- og eyrnalækningum, almennum skurðlækningum, deyfinga- og svæfingalækningum og myndgreiningum a.m.k. 1 mánuð í hverri grein.

III.

Umsækjandi skal leggja fram ritgerð um efni, er snertir sérgrein hans. Ritgerðin skal byggð á eigin rannsóknargögnum og þarf að sýna getu umsækjanda til að nýta sérfræðirit og þekkingu hans á vísindalegri aðferðafræði.

IV.

Umsækjanda um sérfræðileyfi í klínískri grein ber að leggja fram minnst 10 sjúkraskrár vegna tilfella sem umsækjandi hefur sjálfur unnið, er sýni sem fjölbreyttasta þekkingu á lausn klínískra vandamála, í þeim sérgreinum þar sem því verður komið við. Sjúkraskrár skulu studdar öllum þeim gögnum er best geta hjálpað til við mat, greiningu og meðferð viðkomandi sjúkdóms.

V.

Umsækjandi um sérfræðileyfi skv. 1. gr. í samfélagstannlækningum skal leggja fram ritgerðir, tvær eða fleiri, sem birst hafa í viðurkenndu sérfræðitímariti.

VI.

Veita má einum og sama tannlækni sérfræðileyfi í fleiri en einni af sérgreinum tannlækninga að uppfylltum skilyrðum 5. gr. í hverri fræðigrein fyrir sig.

6. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 5. gr. laga nr. 38/1985 um tannlækningar öðlast gildi þegar í stað.

Jafnframt falla úr gildi reglur með sama heiti nr. 402 frá 1986 með síðari breytingum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 19. júní 2007.

F. h. r.

Davíð Á. Gunnarsson.

Sólveig Guðmundsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica