Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

696/2007

Reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. - Brottfallin

1. gr.

Á eftir V. KAFLA kemur nýr kafli, VI. KAFLI, er orðast svo:

VI. KAFLI

Sérregla um eigin tekjur lífeyrisþega sem stafa af fjármagnstekjum
og séreignarsparnaði.

19. gr.

Dreifing fjármagnstekna og séreignarsparnaðar.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að ósk elli- eða örorkulífeyrisþega að dreifa eigin tekjum lífeyrisþegans sem stafa af fjármagnstekjum og séreignarsparnaði á allt að 10 ár. Skilyrði er að tekjurnar hafi verið leystar út í einu lagi.

Heimilt er að dreifa tekjum skv. 1. mgr. einu sinni á hverju tímabili og skal dreifing teknanna vera jöfn fyrir öll þau ár sem dreift er á. Þó getur lífeyrisþegi ákveðið að einungis hluta teknanna verði dreift, t.d. að helmingur verði á því ári sem tekjurnar tilheyra og afgangi síðan dreift á tiltekinn árafjölda, allt að níu ár.

Lífeyrisþega er heimilt að breyta árafjölda sem dreift er á eftir að dreifing er hafin. Þá er heimilt að láta allar eftirstöðvar tekna sem dreift hefur verið falla á yfirstandandi ár og ljúka þar með dreifingunni á því ári. Ekki er heimilt að ákveða afturvirkt að ljúka dreifingu á síðasta ári svo hægt verði að hefja nýja dreifingu vegna yfirstandandi árs.

Ef um hjón er að ræða sem bæði eru lífeyrisþegar verða bæði að óska eftir dreifingu fjármagnstekna og dreifast tekjurnar eins hjá báðum. Ef um örorkulífeyrisþega er að ræða er einungis heimilt að dreifa tekjum á það tímabil sem örorkumat hans varir.

Þegar lífeyrisgreiðslur falla niður vegna dvalar á sjúkrahúsi eða vistunar á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur dreifingin niður og jafnframt myndast ekki heimild hjá Tryggingastofnun ríkisins til endurkröfu. Hið sama gildir ef lífeyrisþegi andast.

Tekjur sem dreift er samkvæmt grein þessari skulu taka breytingum árlega samkvæmt vísitölu neysluverðs.

2. gr.

VI. KAFLI og 19. gr. verða VII. KAFLI og 20. gr.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 16. gr., sbr. 70. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingu, 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 29. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað og kemur til framkvæmda að því er varðar tekjur sem falla til á árinu 2007.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 13. júlí 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica