Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

873/2006

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur næringarrekstrarfræðinga á heilbrigðisstofnunum. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig næringarrekstrarfræðingog starfa sem slíkur hefur sá einn, er til þess hefur leyfi heilbrigðismálaráðherra.

2. gr.

Leyfi samkvæmt 1. gr. má veita þeim, sem lokið hafa B.Sc. prófi í næringarrekstrarfræði frá háskóla sem viðurkenndur er af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og heilbrigðisyfirvöldum þess lands þar sem námið er stundað.

Leita skal umsagnar landlæknis og Félags næringarrekstrarfræðinga áður en leyfi er veitt.

Um staðfestingu starfsleyfa umsækjenda sem hafa lokið námi á Evrópska efnahags­svæð­inu fer samkvæmt reglugerð nr. 244/1994.

3. gr.

Starfssvið næringarrekstrarfræðinga er stjórnun og rekstur stóreldhúsa á heilbrigðis­stofnunum. Næringarrekstrarfræðingar veita næringarráðgjöf til hópa fólks, hanna matseðla út frá næringarráðleggingum og annast verklega kennslu nema í næringar­rekstrarfræði og matartækni.

4. gr.

Óheimilt er að ráða sem næringarrekstrarfræðing á heilbrigðisstofnanir aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari.

5. gr.

Næringarrekstrarfræðingi er skylt að gæta þagmælsku um atriði, sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls. Þagnarskylda helst, þótt hann láti af störfum.

6. gr.

Næringarrekstrarfræðingi ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.

7. gr.

Um næringarrekstrarfræðinga á heilbrigðisstofnun gilda að öðru leyti og eftir því sem við geta átt, læknalög nr. 53/1988 með síðari breytingum. Reglur læknalaga gilda m.a. um sviptingu og endurveitingu starfsréttinda.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 24/1985 um starfsheiti og starfs­réttindi heilbrigðisstétta, öðlast gildi þegar við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglu­gerð um menntun réttindi og skyldur matarfræðinga nr. 372/1993.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ráðherra er heimilt að veita þeim sem hófu nám fyrir gildistöku reglugerðar þessarar leyfi samkvæmt ákvæðum eldri reglugerðar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 6. október 2006.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica