Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

24/1936

Reglugerð um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum. - Brottfallin

Reglugerð um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum.

Samkvæmt lögum nr. 42, 10. nóv. 1913, um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum eru hér með sett eftirfarandi ákvæði.

1. gr. - Dánarvottorð fyrir alla, sem deyja voveiflega eða finnast lík. Voveiflegur dauðdagi nánar skilgreindur. Sérstök auðkenning slíkra dánarvottorða og hvenær þau megi gefa.

Ekki má jarðsetja eða brenna lík neins manns, sem dáið hefir voveiflega, né lík, sem hefir fundizt, fyrr en læknir hefir gefið út dánarvottorð fyrir hinn látna, sérstaklega auðkennt með tilliti til þess, að um voveiflegan dauðdaga eða fundið lík hafi verið að ræða, en voveiflegur dauðdagi skilgreinist samkvæmt 1. gr. laga nr. 42, 10. nóv. 1913, um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum, að því viðbættu, að það skal telja bráðan bana, er maður bíður bana af slysförum (þar með talin sjálfsmorð og mandráp) innan sólarhrings frá því að slysið varð. Nú er lengri kunnur aðdragandi að mannsláti af slysförum en nemi sólarhring, og er þá löggæzlumanni (sbr. 2. gr. hinna tilvitnuðu laga) heimilt að telja það voveiflegan dauðdaga og taka líkið til mannskaðarannsóknar, enda er honum skylt að gera það, ef læknir hins látna krefst þess, eða aðstandendur, eða aðrir, sem bera fram um það rökstudda kröfu.

Dánarvottorð fyrir þá, sem deyja voveiflega eða finnast lík, mega læknar ekki gefa út fyrr en mannskaðarannsókn hefir farið fram samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Slík vottorð skal auðkenna og gera að öðru leyti úr garði samkvæmt þeim reglum, er landlæknir setur.

2. gr. - Maður hverfur, er talinn hafa dáið, en líkið finnst ekki.

Nú hefir maður horfið og er talinn hafa dáið voveiflega, en líkið ekki fundizt, og skal þá löggæzlumaður leita allra upplýsinga um mannshvarfið og skrá í mannskaðabók í samræmi víð það, sem fyrir er mælt í 4. gr., eftir því sem við getur átt.

3. gr. - Löggæzlumaður kveður héraðslækni með sér til líkskoðunar.

Þegar maður hefir dáið voveiflega eða lík hefir fundizt og löggæzlumanni hefir verið gert aðvart (sbr. 7. gr. hinna tilvitnuðu laga), skal löggæzlumaður kveðja héraðslækni með sér til að skoða líkið. Ef ekki næst til héraðslæknis, er löggæzlumanni heimilt að kveðja til annan löggiltan lækni.

4.gr. - Upplýsingar um mannskaðann.

Löggæzlumaður skal hafa með sér til líkskoðunarinnar mannskaðabók (sbr. 8. gr. hinna tilvitnuðu laga). Áður en líkskoðunin hefst, skal löggæzlumaður skrá í bókina allar upplýsingar, sem hann hefir aflað sér um mannslátið eða líkfundinn: hver hinn látni sé, hverjir hafi síðast séð hann á lífi, hvað vitað sé un hann og líðan hans dagana fyrir andlátið, hvort nokkrir og þá hverjir hafi verið viðstaddir andlátið, hver séu tildrög mannslátsins, hvenær og með hverjum atburðum það hafi borið að og, ef um fundið lík er að ræða, hvenær og hvernig það hafi fundizt, hvernig hafi verið farið með það síðan o. s. frv.

5. gr. - Almenn líkskoðun.

Nú þykir löggæzlumanni ekki þegar ástæða til að fyrirskipa réttarkrufningu á líkinu, og skal þá læknir framkvæma almenna líkskoðun á því samkvæmt leiðbeiningum, sem landlæknir gefur út. Yfirlit yfir líkskoðunina og allar niðurstöður læknisins, er máli skipta, skal skrá í mannskaðabókina.

Að hinni almennu líkskoðun lokinni úrskurðar löggæzlumaður, hvort rannsókninni út af mannskaðanum skuli þar með vera lokið og dánarvottorð megi gefa út, eða hvort réttarkrufning skuli fara fram.

Úrskurð löggæzlumanns skal skrá í mannskaðabókina.

6. gr. - Réttarkrufningar, hvenær þær skuli fyrirskipa.

Löggæzlumaður skal jafnan fyrirskipa réttarkrufningu

1) Þegar komið getur til mála, að mannslátið leiði til málaferla, hvort heldur væri opinbert mál eða einkamál, og ætla má, að réttarkrufning geti haft þýðingu fyrir úrslit málsins eða orðið til þess að koma í veg fyrir málaferli.

2) Þegar læknir, að almennri líkskoðun lokinni, telur sig ekki geta ályktað, hvert banameinið muni vera.

7. gr. - Hvenær hreppstjórar mega leiða mannskaðarannsóknir til lykta.

Hreppstjórar, sem eru löggæzlumenn, mega leiða til lykta rannsóknir á mannsköðum samkvæmt þessari reglugerð, þegar ekki er skylt að fyrirskipa réttarkrufningu samkvæmt 1. tölulið 6. greinar, en þá skulu þeir afhenda málið hlutaðeigandi sýslumanni, sem þá tekur við löggæzlumannsstörfum.

8. gr. - Réttarkrufningar, hverjir framkvæma skuli.

Réttarkrufningar samkvæmt þessari reglugerð annast:

1) Í Reykjavík: Rannsóknarstofa háskólans.

2) Annarsstaðar á landinu: Þar skulu héraðslæknar bera sig saman við landlækni, sem í hverju einstöku tilfelli segir fyrir um, hvort héraðslæknir skuli framkvæma krufninguna sjálfur, eða líkið skuli senda til Rannsóknarstofu háskólans í Reykjavík, sem þá annast krufninguna.

Við hverja réttarkrufningu skulu jafnan, þegar því verður við komið, vera tveir læknar, og fer um framkvæmd krufningarinnar samkvæmt leiðbeiningum, er landlæknir gefur út.

9. gr. - Skýrsla um réttarkrufningu.

Réttarlæknir skal, þegar að krufningu lokinni, senda viðkomandi löggæzlumanni skýrslu um krufninguna. Löggæzlumaður skráir ályktun réttarlæknis í mannskaðabókina, og samkvæmt henni er lækni nú heimilt að gefa út dánarvottorð fyrir hinn látna.

10. gr. - Mannskaðaskýrslur.

Í janúarmánuði ár hvert skulu sýslumenn og bæjarfógetar (í Reykjavík lögreglustjóri) láta gera útskriftir úr öllum mannskaðabókum, hver í sínu umdæmi, og semja skýrslu yfir alla mannskaða, sem á næstliðnu ári hafa verið rannsakaðir samkvæmt þessari reglugerð. Í mannskaðaskýrslunum skal greina, að svo miklu leyti sem kunnugt er, um hvern einn hinna látnu eða horfnu (sbr. 2. gr.):

1) Nafn, aldur, stöðu og heimilisfang.

2) Dauðamein, og hvernig mannslátið hafi atvikazt.

Skýrsluna, ásamt útskriftum úr tilheyrandi mannskaðabókum, skal senda Hagstofunni.

11. gr. - Kostnaður og refsingar.

Um kostnað við framkvæmd þessarar reglugerðar og refsingar fyrir brot gegn ákvæðum hennar fer eftir ákvæðum laga nr. 42, 10, nóv. 1913, um mannskaðaskýrslur og rannsókn á fundnum líkum.

12. gr. - Hvenær reglugerðin gengur í gildi.

Reglugerð þessi gengur í gildi 1. janúar 1937.

Í heilbrigðismálaráðuneytinu, 1. apríl 1936.
Haraldur Guðmundsson.
Ragnar Bjarkan.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica