Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

145/2003

Reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í sjúkraþjálfun. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig sérfræðing í sjúkraþjálfun og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn, er til þess hefur fengið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.


2. gr.

Umsókn um sérfræðileyfi ásamt gögnum sem staðfesta menntun og starfsreynslu skal senda til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis.


3. gr.

Áður en sérfræðileyfi í sjúkraþjálfun er veitt skal leita umsagnar þriggja manna sérfræðinefndar sem ráðherra skipar. Í nefndinni skal vera einn fulltrúi tilnefndur af Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, einn tilnefndur af sjúkraþjálfunarskor Háskóla Íslands og einn tilnefndur af landlækni.


4. gr.

Til þess að sjúkraþjálfari geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi á klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar, skal hann fullnægja eftirtöldum kröfum:

1. Hann skal hafa hlotið starfsleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að starfa sem sjúkraþjálfari hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1976, um sjúkraþjálfun.
2. Hann skal hafa lokið meistaranámi eða doktorsprófi frá háskóla sem heilbrigðisyfirvöld viðurkenna eða hafa sambærilega menntun. Skilyrt er að námið hafi að stærstum hluta verið innan þeirrar sérgreinar eða þess sérsviðs sem sótt er um sérfræðileyfi í og handleiðsla fengin á því sérsviði. Til að sambærileg menntun sé metin til jafns við meistarapróf eða doktorspróf þarf umsækjandi að hafa lokið prófi á klínísku sérsviði sjúkraþjálfunar, þar sem námið var að lágmarki 45 einingar eins og þær eru skilgreindar við Háskóla Íslands. Umsækjandi þarf að sýna fram á þekkingu á rannsóknarvinnu m.a. með því að hafa tekið námskeið í aðferðafræði og tölfræði.
3. Hann skal hafa starfað sem sjúkraþjálfari í tvö ár í fullu starfi á viðkomandi sérsviði að loknu sérnámi.

Hafi umsækjandi um sérfræðileyfi ekki fengið handleiðslu á sínu klíníska sérsviði í sérnámi þarf annað árið af tveimur eftir sérfræðinám skv. 3. tölulið að vera undir handleiðslu sérfræðings á sama sérsviði eða í þverfaglegu samstarfi heilbrigðisstétta.


5. gr.

Sérfræðileyfi má veita á eftirfarandi klínískum sérsviðum sjúkraþjálfunar:

Bæklunarsjúkraþjálfun
Geðsjúkraþjálfun
Gigtarsjúkraþjálfun
Heilsugæslu- og vinnuvernd
Hjartasjúkraþjálfun
Greiningu og meðferð á hrygg og útlimaliðum "Manuel Terapy"
Lungnasjúkraþjálfun
Meðgöngu- og fæðingarsjúkraþjálfun
Taugasjúkraþjálfun
Öldrunarsjúkraþjálfun
Íþróttasjúkraþjálfun
Gjörgæslusjúkraþjálfun

Heimilt er að tilgreina sérsvið eða sérgrein sem viðkomandi hefur sérhæft sig í innan framangreindra aðalgreina. Leyfilegt er að veita sérfræðileyfi á öðrum sérsviðum mæli sérfræðinefnd, sbr. 3. gr., með því.


6. gr.

Sérfræðingur sem hlýtur sérfræðileyfi samkvæmt reglugerð þessari skal endurnýja það á tíu ára fresti og staðfesta að hann starfi innan síns sérsviðs og hafi viðhaldið þekkingu sinni í þeirri sérgrein eða á því sérsviði sem hann hefur sérfræðileyfi í.

Sérfræðinefnd skv. 3. gr. skal setja sér vinnureglur um mat á viðhaldi þekkingar.


7. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 2. gr. laga um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta nr. 24/1985 og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 318/2001. Reglugerð þessa skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir sjúkraþjálfarar sem uppfylla öll ákvæði reglugerðar þessarar til að öðlast sérfræðileyfi að undanskildum 2. tölulið 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr. geta sótt um undanþágu frá þeim ákvæðum ef sótt er um sérfræðiviðurkenningu fyrir árslok 2003.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 24. febrúar 2003.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica