Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

124/2003

Reglugerð um veitingu sérfræðileyfa í hjúkrun. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til þess að kalla sig sérfræðing í hjúkrun og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn, er til þess hefur fengið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.


2. gr.

Umsóknir um sérfræðileyfi ásamt gögnum sem staðfesta menntun og starfsreynslu, skal senda til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.


3. gr.

Ráðuneytið skal leita umsagnar hjúkrunarráðs áður en leyfi er veitt.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skal að tilhlutan hjúkrunarráðs tilnefna tvo hjúkrunarfræðinga, sem hafa sérþekkingu í þeirri sérgrein eða á því sérsviði sem umsókn umsækjanda um sérfræðileyfi tekur til og skulu þeir taka þátt í umfjöllun hjúkrunarráðs.


4. gr.

Sérfræðileyfi má veita í klínískum sérgreinum og á klínískum sérsviðum hjúkrunar. Skilyrt er að nám umsækjanda hafi að stærstum hluta verið innan þeirrar sérgreinar eða þess sérsviðs sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.


5. gr.

Til þess að hjúkrunarfræðingur geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi í hjúkrun, skal hann fullnægja eftirtöldum kröfum:

1. Hann skal hafa hjúkrunarleyfi hér á landi skv. 1. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974.
2. Hann skal hafa lokið meistaraprófi, licentiatprófi eða doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla eða hafa sambærilega menntun.
3. Hann skal hafa unnið við hjúkrun að loknu prófi skv. 2. tölul., sem svarar til að minnsta kosti tveimur árum í fullu starfi við þá sérgrein eða á því sérsviði sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.


6. gr.

Þeir sérfræðingar sem hlotið hafa sérfræðileyfi í hjúkrun skv. reglugerð um veitingu sérfræðileyfa nr. 98/1976 og reglugerð um veitingu sérfræðingsleyfa nr. 426/1993 halda þeim réttindum sínum.


7. gr.

Sérfræðingur sem hlýtur sérfræðileyfi eftir gildistöku þessarar reglugerðar skal endurnýja sérfræðileyfi sitt á tíu ára fresti og staðfesta að hann starfi og hafi viðhaldið þekkingu sinni í þeirri sérgrein eða á því sérsviði sem hann hefur sérfræðileyfi í.


8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 3. gr. hjúkrunarlaga nr. 8/1974 öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 426/1993, um veitingu sérfræðingsleyfa í hjúkrun.

Reglugerð þessa skal endurskoða innan fimm ára frá gildistöku.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 12. febrúar 2003.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica