Tryggingastofnun ríkisins skal greiða kostnað vegna psoriasis- og exemsjúklinga sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasis- og exemsjúklinga sem komi í stað sjúkrahúsvistar í samræmi við samninga Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. þó reglugerð nr. 660/1998 um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir meðferð húðsjúkdóma, veitta af öðrum en læknum, með síðari breytingu. Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki kostnað við ferðir vegna meðferðarinnar.
Tryggingastofnun ríkisins tekur einungis þátt í kostnaði við meðferð sjúklings ef mat læknis á meðferðarþörf hefur farið fram og verið staðfest af húðlækni þess aðila sem veitir meðferðina.
Greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins takmarkast við allt að 23 skipti hjá hverjum sjúklingi á hverju meðferðartímabili.
Beri meðferð hér á landi ekki árangur og sjúklingi því brýn nauðsyn að vistast á erlendu sjúkrahúsi eða meðferðarstofnun getur sjúklingur sótt um greiðsluþátttöku hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna slíkrar meðferðar samkvæmt 35. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 33. gr., sbr. 2. mgr. 33. gr., og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma falla úr gildi reglur tryggingaráðs frá 8. maí 1998 nr. 305/1998 um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í meðferð psoriasis- og exemsjúklinga.