Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

827/2002

Reglugerð um ferðastyrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis. - Brottfallin

1. gr.
Ferðastyrkur.

Sjúkratryggðir einstaklingar, sem brýn nauðsyn er að vista á erlendu sjúkrahúsi skv. 35. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, skulu eiga rétt á ferðastyrk frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt reglugerð þessari, sbr. þó reglugerð nr. 201/1998 um greiðslu læknishjálpar við glasafrjóvgun erlendis. Heimilt er stofnuninni að greiða ferðastyrk að hluta eða að fullu samkvæmt reglugerð þessari fyrir aðra sjúkratryggða einstaklinga sem af ótvíræðri nauðsyn leita sjúkdómsmeðferðar erlendis.


2. gr.
Fargjald.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir að fullu fargjald hins sjúkratryggða, sbr. 1. gr., frá Íslandi og til þess staðar þar sem meðferð er fyrirhuguð og aftur til Íslands.

Fargjald innanlands (frá heimili sjúklings til millilandaflugvallar) skal jafnframt endurgreitt, þó þannig að sjúklingur greiði sjálfur 1.500 kr. Sé eigin bifreið notuð skal endurgreitt samkvæmt kílómetragjaldi skv. 3. mgr. 3. gr. og 6. mgr. 6. gr. reglna nr. 213/1999 um ferðakostnað sjúkratryggðra sjúklinga og aðstandenda þeirra innanlands. Fjárhæð sjúklingshluta skal fylgja hámarksfjárhæð sjúklingshluta samkvæmt 3. mgr. 3. gr. sömu reglna.


3. gr.
Fylgdarmaður.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir ferðastyrk vegna fylgdarmanns ef sjúklingur er yngri en 18 ára, ósjálfbjarga eða mjög mikil áhætta fylgir meðferð og/eða ferðalagi. Ef aðstæður eru þannig að nauðsyn er á að heilbrigðisstarfsmaður fylgi sjúklingi greiðir stofnunin ferðastyrk vegna starfsmannsins. Að jafnaði skal einungis greiddur ferðastyrkur vegna eins fylgdarmanns en ef læknisfræðilegar ástæður krefjast þess að heilbrigðisstarfsmaður fylgi sjúklingi er heimilt að greiða ferðastyrk vegna tveggja fylgdarmanna og þá aðallega ef sjúklingur er yngri en 18 ára. Ef um er að ræða erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms er heimilt að greiða ferðastyrk fyrir báða foreldra (eða tvo nánustu aðstandendur) ef sjúklingur er yngri en 18 ára.

Ef sjúklingur, sem fengið hefur samþykkta fylgd, verður að dveljast erlendis a.m.k. sex vikur þá er heimilt að greiða ferðastyrk vegna skipta á fylgdarmanni á fjögurra vikna fresti.


4. gr.
Uppihaldskostnaður.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir dagpeninga vegna nauðsynlegs uppihaldskostnaðar sjúklings erlendis utan sjúkrastofnunar svo og nauðsynlegs uppihaldskostnaðar fylgdarmanns skv. 3. gr. Greiðsla dagpeninga fer eftir sömu reglum og gilda um þjálfun, nám og eftirlitsstörf ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis, sbr. auglýsingu ferðakostnaðarnefndar og umburðarbréf nefndarinnar sem í gildi er á hverjum tíma. Einungis skal greiða fjórðung dagpeninga fyrir börn yngri en fjögurra ára og hálfa dagpeninga fyrir fjögurra til ellefu ára börn. Ef fylgd heilbrigðisstarfsmanns hefur reynst nauðsynleg skal hann eiga rétt á greiðslu dagpeninga í samræmi við gildandi kjarasamninga. Ef samþykktur hefur verið ferðastyrkur fyrir báða foreldra (nánustu aðstandendur) barns greiðast dagpeningar að fullu til annars foreldris en að hálfu til hins.


5. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 3. mgr. 33. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 33. gr., laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur tryggingaráðs frá 16. október 1998 nr. 622/1998 um ferðastyrk sjúklinga vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 26. nóvember 2002.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica