Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

660/1995

Reglugerð um vistunarmat aldraðra. - Brottfallin

Reglugerð um vistunarmat aldraðra.

1. gr. - Mat á vistunarþörf.

Áður en einstaklingur er vistaður til langdvalar í þjónustuhúsnæði aldraðra eða í hjúkrunarrými, sbr. 18. gr. laga um málefni aldraðra nr. 82/1989, skal meta vistunarþörf hans samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Með vistunarmati er átt við upplýsingar sem fram koma á yfirlits- og matsblaði, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari.

2. gr. - Þjónustuhópur aldraðra.

Þjónustuhópur aldraðra, sbr. 7. og 8. gr. laga um málefni aldraðra, annast mat á vistunarþörf. Í Reykjavík annast sérstakur matshópur, sbr. 3. gr., verkefni þjónustuhóps aldraðra samkvæmt reglugerð þessari.

3. gr. - Matshópur.

Matshópur í Reykjavík, sbr. 2. gr., skal tilnefndur af öldrunarnefnd, sbr. 5. gr. laga um málefni aldraðra. Tilnefna skal fjóra fulltrúa; lækni með sérmenntun á sviði öldrunarlækninga, hjúkrunarfræðing með þekkingu á öldrunarþjónustu eða heilsugæslu og tvo úr hópi starfsmanna öldrunarþjónustudeildar Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar og skal annar þeirra vera félagsráðgjafi. Borgarstjórn Reykjavíkur tilnefnir oddvita matshópsins úr hópi framangreindra.

Matshópurinn skal hafa starfsaðstöðu hjá öldrunarþjónustudeild Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar. Allur kostnaður vegna starfsemi hópsins greiðist af Reykjavíkurborg.

4. gr. - Beiðni um vistunarmat.

Nú telur aldraður einstaklingur að hann þurfi að vistast til langdvalar á öldrunarstofnun og sendir hann þá beiðni um vistunarmat til þjónustuhóps aldraðra þar sem hann býr, í Reykjavík til matshóps.

Ef hlutaðeigandi einstaklingur virðist ekki fær um að taka sjálfstæðar ákvarðanir skal vistunarmati vísað til öldrunarlækningadeilda. Hið sama gildir ef hlutaðeigandi samþykkir ekki að leggja inn beiðni um vistunarmat, en aðstandendur hans eða sérfræðingar sem hafa annast hann telja nauðsyn á stofnanavist óyggjandi.

Um einstaklinga sem flytjast úr þjónustuhúsnæði fyrir aldraða í hjúkrunarrými eða af sjúkrahúsi í varanlega vistun gilda sérstakar reglur sbr. 11. og 12. gr. reglugerðar þessarar.

5. gr. - Forsendur vistunarmats.

Forsendur vistunarmats eru að fyrir liggi skrifleg beiðni viðkomandi einstaklings um vistun eða samþykki hans og að hann sé þegar tilbúinn til vistunar ef vistrými er til reiðu. Þá skal liggja fyrir að öll félagsleg og heilsufarsleg úrræði til dvalar í heimahúsi, sbr. leiðbeiningar í fylgiskjali með reglugerð þessari, hafi verið reynd áður en vistunarmat fer fram. Hafi það ekki verið gert skal beiðni um vistunarmat vísað til öldrunarlækningadeilda.

6. gr. - Framkvæmd vistunarmats.

Þegar þjónustuhópi aldraðra, í Reykjavík matshópi, berst beiðni um vistunarmat skal hópurinn eða starfsmaður á hans vegum kanna gaumgæfilega að öll félagsleg og heilsufarsleg úrræði til dvalar í heimahúsi skv. leiðbeiningum í fylgiskjali, hafi verið reynd. Við könnunina skal fylgja þeim leiðbeiningum sem fram koma í fylgiskjali með reglugerð þessari. Niðurstöðurnar skulu flokkaðar, sbr. 8. gr. reglugerðar þessarar, og skráðar á sérstakt matsblað.

Á matsblað skal jafnframt skrá hvenær mat er gert og fari endurmat ekki fram innan 18 mánaða fellur vistunarmatið úr gildi.

Starfsmenn og þjónustuhópur aldraðra, í Reykjavík matshópur, skulu gæta fyllsta trúnaðar við meðferð upplýsinga vegna vistunarmats.

7. gr. - Kynning vistunarmats.

Þegar mat á vistunarþörf liggur fyrir skal niðurstaða þess kynnt hinum aldraða og/eða aðstandendum hans. Frumrit matsblaðs og afrit (gult) skulu afhent þeirri stofnun sem viðkomandi óskar eftir að vistast á. Komi fleiri stofnanir til greina skal jafnframt sótt um vist þar og þeim afhent ljósrit af matsblaði ásamt upplýsingum um það hvar frumgögn er að finna. Loks ber að senda heimilislækni ljósrit af vistunarmati.

8. gr. - Vistunarskrá.

Þjónustuhópar aldraðra, í Reykjavík matshópur, skulu á starfssvæði sínu halda sérstaka vistunarskrá yfir þá aldraða einstaklinga sem að loknu vistunarmati eru taldir hafa þörf fyrir vistun á stofnun.

Fari vistunarmat fram í öðru sveitarfélagi en því sem hinn aldraði á lögheimili í ber þeim er vistunarmatið gerir að tilkynna niðurstöður þess með því að senda (rauð) afrit yfirlits- og matsblaðs, sbr. fylgiskjal með reglugerð þessari, til þjónustuhóps aldraðra þar sem hinn metni á lögheimili, í Reykjavík til matshóps.

Vistunarskrá byggir á eftirfarandi flokkun:

1. Einstaklingur þarfnast vistar í þjónustuhúsnæði (sbr. 1. tölul. 18. gr. laga um málefni aldraðra).

2. Einstaklingur þarfnast vistar í hjúkrunarrými (sbr. 2. tölul. 18. gr. laga um málefni aldraðra).

3. Einstaklingur þarfnast sérstakra úrræða vegna heilabilunar.

4. Einstaklingur þarfnast annarra úrræða en vistunar.

Jafnframt skal metið og tekið fram í vistunarskrá hvort um sé að ræða; a) þörf, b) brýna þörf eða c) mjög brýna þörf. Að mati loknu skal þjónustuhópur aldraðra, í Reykjavík matshópur, færa nafn hins aldraða á vistunarskrá.

Þjónustuhópar aldraðra, í Reykjavík matshópur, skulu ársfjórðungslega senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti upplýsingar um fjölda einstaklinga á vistunarskrá og flokkun þeirra.

9. gr. - Ákvörðun um vistun.

Nú losnar vistrými á öldrunarstofnun og ákveður stjórn viðkomandi stofnunar þá hvaða einstaklingi verður boðið rýmið. Óheimilt er að bjóða það öðrum en þeim sem sótt hafa um dvöl á viðkomandi stofnun og eiga þar gilt vistunarmat. Viðkomandi stofnun skal gæta þess að mat sé enn í gildi við innritun, sbr. 2. mgr. 6. gr.

Stofnanir skulu við veitingu vistrýma að öðru jöfnu sjá til þess að þeir gangi fyrir sem lengst hafa beðið með mjög brýna eða brýna þörf samkvæmt vistunarmati.

10. gr. - Tilkynning um vistun.

Þegar vistun hefur verið ákveðin sendir stofnunin frumrit yfirlits- og matsblaðs til Tryggingastofnunar ríkisins ásamt tilkynningu um nýjan vistmann. Öllum stofnunum ber að senda afrit (gult) til þjónustuhóps aldraðra, í Reykjavík matshóps, þar sem vistmaðurinn á lögheimili og fellur hann þá af vistunarskrá.

Fylgi vistunarmat ekki tilkynningu stofnunar til Tryggingastofnunar ríkisins um vistun einstaklings getur Tryggingastofnun, að fenginni umsögn viðkomandi þjónustuhóps aldraðra, í Reykjavík matshóps, neitað að greiða dvalarkostnað vegna hlutaðeigandi einstaklings. Á það bæði við um stofnanir sem eru á föstum fjárlögum og daggjöldum.

11. gr. - Flutningur úr þjónustuhúsnæði í hjúkrunarrými.

Nú dvelur aldraður einstaklingur í þjónustuhúsnæði fyrir aldraða en stjórnendur stofnunar telja að viðkomandi þurfi að flytjast í hjúkrunarrými.

1. Ef þjónustuhúsnæðið er hluti af blandaðri stofnun, þ.e. þar sem einnig er rekið hjúkrunarrými, skulu stjórnendur láta meta vistunarþörf viðkomandi einstaklings eftir þeim leiðbeiningum sem fram koma í fylgiskjali með reglugerð þessari. Þegar vistunarmat liggur fyrir tilkynna stjórnendur þjónustuhópi aldraðra á starfssvæðinu, í Reykjavík matshópi, um niðurstöðu matsins. Næst er hjúkrunarrými á viðkomandi stofnun losnar geta stjórnendur boðið viðkomandi einstaklingi að flytjast í hjúkrunarrými. Um tilkynningar vegna þessa gilda ákvæði 8. gr. þessarar reglugerðar. Tryggingastofnun ríkisins hefur sérstakt eftirlit með framkvæmd þessa ákvæðis.

2. Ef þjónustuhúsnæðið er ekki hluti af blandaðri stofnun skulu stjórnendur senda beiðni um vistunarmat til þjónustuhóps aldraðra á starfssvæðinu, í Reykjavík matshóps, sbr. 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar.

12. gr. - Flutningur af sjúkrahúsi í varanlega vistun.

Nú hefur aldraður einstaklingur dvalið á sjúkrahúsi og allt bendir til að viðkomandi þurfi á varanlegri stofnanavist að halda eða dvöl hans er orðin lengri en 6 vikur án meðferðar. Skulu þá stjórnendur deildarinnar, sem hlutaðeigandi dvelst á, í samráði við viðkomandi og nánustu aðstandendur hans, senda beiðni um vistunarmat til þjónustuhóps aldraðra, í Reykjavík matshóps, sbr. 4. gr.

Ef öldrunarlækningadeild er rekin í tengslum við sjúkrahús sem aldraður einstaklingur dvelur á má fela þeirri deild mat á vistunarþörf. Þegar mat öldrunarlækningadeildar á vistunarþörf liggur fyrir skal það tilkynnt þjónustuhópi aldraðra þar sem viðkomandi á lögheimili, í Reykjavík matshópi, með því að senda afrit (rauða) vistunarmatsblaðs, þannig að viðkomandi verði skráður á vistunarskrá, sbr. 8. gr. reglugerðar þessarar.

Ýmis ákvæði.

13. gr.

Þar sem ekki starfa þjónustuhópar aldraðra, sbr. 7. gr. laga um málefni aldraðra, skal Tryggingastofnun ríkisins staðfesta matið áður en það öðlast gildi.

14. gr.

Faghópur, skipaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skal hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar. Hópurinn skal skipaður tveimur öldrunarlæknum, hjúkrunarfræðingi, félagsráðgjafa, starfsmanni vistunarmats og deildarstjóra öldrunarmáladeildar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, sem jafnframt er formaður.

15. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 19. gr. sbr. 30. gr. laga nr. 82/1989, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 46/1990 um vistunarmat aldraðra.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 6. desember 1995.
Ingibjörg Pálmadóttir.
Davíð Á. Gunnarsson.

Viðauki:

sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica