Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

83/1993

Reglugerð um Viðlagatryggingu Íslands. - Brottfallin

1. gr.

Hættur þær, sem vátryggt er gegn með viðlagatryggingu, sbr. 4. gr. laga nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands eru þessar:

1. Eldgos, t.d. er hraun eða gjóska veldur skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum.

2. Jarðskjálfti, sem veldur skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum.

3. Skriðufall, þ.e. þegar skriða úr fjalli eða hlíð fellur skyndilega á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast.

4. Snjóflóð merkir snjóskriðu, sem fellur skyndilega úr fjalli eða hlíð á vátryggða muni með þeim afleiðingum að þeir skemmast eða eyðileggjast. Það telst ekki vera snjóflóð, þótt þak eða veggir húss sligist eða brotni undan snjó, sem safnast á eða að húsi vegna snjókomu, skafrennings eða foks. Sama á við um aðra muni, sem skemmast með svipuðum hætti.

5. Vatnsflóð merkir flóð, er verður þegar ár eða lækir flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum. Árleg eða reglubundin flóð úr ám, lækjum, sjó eða vötnum teljast hér ekki vatnsflóð. Sama á við um venjulegt leysingavatn eða flóð, sem að einhverju eða öllu leyti verður af mannavöldum, t.d. þegar vatnsgeymar, stíflugarðar eða önnur mannvirki bresta af öðrum ástæðum en náttúruhamförum.

Skemmist vátryggðir munir af eldsvoða, sem beinlínis verður rakinn til einhverra ofangreindra náttúruhamfara, skal Viðlagatrygging Íslands greiða bætur fyrir tjónið.

2. gr.

Almennar samsettar lausafjártryggingar, sem flokkast undir eignatryggingar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands, eru m.a. þessar: heimilistryggingar, fjölskyldutryggingar, altryggingar heimila, farangurstryggingar, gripatryggingar, hestatryggingar (búfjártryggingar) og landbúnaðartryggingar.

3. gr.

Skylt er að vátryggja eftirtalin mannvirki í eigu hins opinbera skv. 2. mgr. 5. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands:

1. Hitaveitur til dreifingar heits vatns eða gufu, þar á meðal lagnir í jörðu, þó ekki borholur. Einnig skal vátryggja dælur, dælustöðvar, brýr og vegi, sem einungis þjóna veitukerfinu, svo og stöðvar til hitunar með jarðhita eða öðrum orkugjöfum.

2. Vatnsveitur þar á meðal safnkerfi, lagnir í jörðu, þó ekki borholur eða brunna. Einnig

skal vátryggja dælur, dælustöðvar, brýr og vegi, sem einungis þjóna veitukerfinu.

3. Skolpveitur þar á meðal dælu- og hreinsunarstöðvar.

4. Varanleg hafnarmannvirki, þ.e. bryggjur, hafnarbakkar, fastir hafnarkranar, fastur ljósabúnaður, raflagnir, ljósastaurar, tengikassar, vatns- og fráveitulagnir, pollar og bundið slitlag á hafnarbakka, en ekki kranar á spori, hjólum eða beltum eða önnur laus tæki og laus búnaður, sem tilheyrir höfnum. Eigi skal vátryggja aðra hafnarbakka en þá, sem klæddir eru þili úr stáli eða tré, hlaðnir úr tilhöggnu grjóti eða gerðir úr steinsteypu eða öðru sambærilegu varanlegu efni. Til hafnarmannvirkja teljast ekki svæði, sem eru lengra en 30 m frá viðlegukanti. Brimbrjóta, grjótgarða, grjóthlífar eða önnur mannvirki til varnar bryggjum, hafnarbökkum eða tilheyrandi munum skal ekki vátryggja.

5. Raforkuvirki, þar á meðal dreifikerfi, stíflur og veitumannvirki.

6. Símtæki, símaleiðslur, símabúnað og fjarskiptamannvirki. Einnig er skylt að vátryggja varanlegar brýr 50 m og lengri, hvort sem brú er í eigu hins opinberra eða einkaeign, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands. Vegur að og frá brú telst ekki hluti hennar og ekki heldur varnargarðar.

4. gr.

Stjórn stofnunarinnar er heimilt með samþykki ráðherra að ákveða að stofnunin vátryggi eftirtalið lausafé og fasteignir skv. 1. mgr. 6. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands:

1. Hitaveitur í einkaeign ásamt þeim fylgihlutum, sem greinir í 1. tölul. 3. gr. reglugerðar þessarar.

2. Vatnsveitur í einkaeign ásamt þeim fylgihlutum, sem greinir í 2. tölul. 3. gr.

3. Skolpveitur í einkaeign ásamt þeim fylgihlutum, sem greinir í 3. tölul. 3. gr.

4. Varanleg hafnarmannvirki í einkaeign ásamt þeim fylgihlutum, sem greinir í 4. tölul. 3.gr.

5. Varanlegar brýr, sem eru 10-50 m langar. Vegur að og frá brú telst ekki hluti hennar og ekki heldur varnargarðar.

6. Raforkuvirki í einkaeign ásamt þeim fylgihlutum, sem greinir í 5. tölul. 3. gr.

7. Símtæki, símaleiðslur, símabúnað og fjarskiptamannvirki í einkaeign.

8. Dæluleiðslur og aðrar lagnir.

9. Geymsluþrær, geyma og yfirfallsþrær.

10. Eldisfisk, eldisker og annan búnað fiskeldisstöðva.

11. Lóðir lönd og það fylgifé með þeim, sem ekki er brunatryggt.

5. gr.

Mannvirki, sem greinir í 3. og 4. gr., skal ekki vátryggja, ef þau eru enn í smíðum. Stjórn stofnunarinnar er þó heimilt að setj a reglur um frávik frá þessu, að fengnu samþykki ráðherra.

6. gr.

Nú er vátryggingaratburður hafinn eða yfirvofandi, og er þá óheimilt að gera nýja vátryggingarsamninga eða breyta eldri samningum um muni á þeim stað eða svæði, sem í hættu er.

7. gr.

Vátryggingarfjárhæðir skulu ákveðnar þannig:

1. Mannvirki þau, sem um ræðir í 2. mgr. 5. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands, skulu vátryggð fyrir áætlað enduröflunarverð (endurbyggingarverð) þeirra eins og það er fyrstadag hvers ársfjórðungs. Áætlað enduröflunarverð skal miðað við nýbyggingarkostnað sambærilegra eigna og skal þar taka tillit til nýjustu tækniþekkingar, verkþekkingar og efniskostnaðar.

2. Eigendur mannvirkja, sem greinir í 1. tölul. skulu fyrir 1. mars ár hvert senda stofnuninni skrá um ný mannvirki og breytingar á eldri mannvirkjum, ásamt áætlun um enduröflunarverð þeirra miðað við verðlag 1. janúar næstan á undan. Ef ástæða er til að ætla að áætlun sé óraunhæf eða eigendur mannvirkja hafi vanrækt að láta í té upplýsingar um muni, sem skylt er að vátryggja, getur stofnunin kvatt tvo sérfróða menn til þess að meta muni þessa og er niðurstaða mats þeirra þá bindandi sem vátryggingarfjárhæð.

3. Munir, sem greindir eru í 1.-8. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands skulu vátryggðir fyrir enduröflunarverð eftir meginreglu 1. tölul. þessarar greinar. Eldisfiskur skal þó vátryggður fyrir sömu fjárhæð og gildir á hverjum tíma í fiskeldistryggingu.

4. Eignir, sem greindar eru í 9. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands skulu vátryggðar fyrir markaðsverð eins og það er fyrsta dag hvers ársfjórðungs.

5. Munir, sem kunna að verða vátryggðir með heimild í 3. mgr. 6. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands skulu metnir af eigendum eða fulltrúum þeirra ásamt matsmanni, er stjórn stofnunarinnar kveður til.

8. gr.

Vátryggingafélög, er brunatryggja muni, sem vátryggðir eru hjá stofnuninni skv. 1. mgr. 5. gr., sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands, skulu mánaðarlega gefa stofnuninni skýrslu um innheimt iðgjöld í næstliðnum mánuði og greiða viðlagatryggingariðgjöldin eigi síðar en 15. þess mánaðar.

Ef iðgjald er í vanskilum skal vátryggingafélag innheimta dráttarvexti eftir ákvæðum vaxtalaga.

Nú greiðir vátryggingafélag ekki iðgjöld eða dráttarvexti skv. framangreindu og skal félagið þá greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð í samræmi við ákvæði vaxtalaga. Vátryggingafélög skulu árlega senda Viðlagatryggingu Íslands sundurliðaða skýrslu um

vátryggingarfjárhæðir, iðgjöld og dráttarvexti. Skýrslan skal vera í því formi, sem stofnunin ákveður.

9. gr.

Gjalddagi iðgjalda, sem Viðlagatrygging Íslands innheimtir sjálf, skal vera 1. apríl ár hvert.

Sé iðgjald ekki greitt innan fjögurra vikna frá gjalddaga skal skuldari greiða dráttarvexti frá gjalddaga skv. ákvæðum vaxtalaga.

10. gr.

Stjórn stofnunarinnar getur, ef sérstaklega stendur á, og að fengnu samþykki ráðherra, samþykkt að vátryggingartaki kaupi skammtímavátryggingu á eignum, sem getið er í 6. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands.

11. gr.

Þegar vátryggingaratburður hefur orðið, skal stofnunin gera ráðstafanir til að skoða og meta tjón og til þess skal hún kveðja hæfan og óvilhallan matsmann eða -menn.

Stjórn Viðlagatryggingar getur eftir atvikum óskað þess, að tjón skuli metið af dómkvöddum matsmanni eða - mönnum. Um kostnað af mati dómkvaddra manna fer eftir almennum réttarreglum.

Ætíð skal gefa vátryggðum kost á að vera viðstaddur skoðun og koma sjónarmiðum sínum á framfæri við matsmann eða -menn.

Matsmaður eða -menn skulu skila skriflegri matsgerð og ljúka störfum svo fljótt sem kostur er.

12. gr.

Við ákvörðun bóta skal fara eftir meginreglum vátryggingaréttar, sbr. m.a. eftirfarandi reglur:

1. Vátryggingin greiðir einungis bætur fyrir beint tjón, sbr. 36. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

2. Vátryggingarfjárhæðin veitir ekki sönnun fyrir verðmæti vátryggðra muna. Hún er þó ávallt hámark þeirrar ábyrgðar, sem miða skal við, þegar bætur eru ákveðnar.

3. Verðmæti vátryggðra eigna skal ákveða með hliðsjón af því hvert var raunverulegt verðmæti þeirra á verðlagi, þegar vátryggingaratburður varð. Skal þá tekið tillit til verðrýrnunar vegna aldurs, notkunar, minnkaðs notagildis eða annarra ástæðna, sbr. 37. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

4. Bætur fyrir vörur, sem vátryggður hefur framleitt til sölu eða hefur annars til sölu, skulu ákveðnar eftir reglum 38. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

5. Þegar um tjón að hluta er að ræða ákvarðast bætur eftir því hvað kostar að gera við hið skemmda svo það verði eins eða sem næst því eins og fyrir vátryggingaratburðinn. Bætur geta þó aldrei orðið hærri en mismunur á verðmæti hlutar fyrir tjónið og verðmæti hans eftir tjónið. Tjónþoli skal varðveita skemmda eign eða hlut eftir því sem kostur er, þar til hann fær tjónið bætt.

6. Sé vátryggður hlutur meira virði en vátryggingarfjárhæðinni nemur bætist tjónið hlutfallslega þannig:

Eigin áhætta vátryggðs dregst frá bótafjárhæð þeirri, sem þannig er fengin.

13. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. heimild í lögum nr. 55/1992 um Viðlagatryggingu Íslands og öðlast þegar gildi. Fellur þá úr gildi reglugerð nr. 772/1982 ásamt breytingum, sem gerðar voru á henni með reglugerðum nr. 269/1983 og 358/1985.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 19. febrúar 1993.

Sighvatur Björgvinsson.

Dögg Pálsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica