Leita
Hreinsa Um leit

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

47/1987

Reglugerð um starfsheiti og starfsréttindi næringarráðgjafa - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig næringarráðgjafa og starfa sem slíkur hefur sá einn, sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.

 

2. gr.

Leyfi samkvæmt 1. gr. skal veita þeim íslenskum ríkisborgurum, sem lokið hafa B.S. prófi eða sambærilegu háskólaprófi í næringarfræðum, ásamt minnst eins árs framhaldsnámi í næringarráðgjöf þar sem hluti náms er starfsmenntun á sjúkrahúsi, að fenginni umsögn Matvæla- og næringarfræðingafélags Íslands og landlæknis.

3. gr.

Hafi umsækjandi um leyfi samkvæmt 1. gr. ekki lokið háskólaprófi í næringarfræðum sbr. 2. gr. er ráðherra heimilt að veita leyfi hafi umsagnaraðilar samkvæmt 2. gr. mælt með leyfisveitingu uppfylli umsækjandi eftirfarandi skilyrði:

1.          Hafi lokið tveggja ára sérnámi í næringarráðgjöf.

2.          Hluti náms skal vera starfsmenntun á sjúkrahúsi.

3.          Hafi að loknu námi lokið 6 mánaða starfsþjálfun undir leiðsögn næringarráðgjafa.

4. gr.

Næringarráðgjafar starfa að næringarráðgjöf á heilbrigðisstofnunum, kennslustofnun­um heilbrigðisstétta og matvælastofnunum.

5. gr.

Næringarráðgjafa ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar, er varða starfssvið hans.

 

6. gr.

Nú uppfyllir maður skilyrði 2. og 3. gr. að öðru leyti en því að hann hefur ekki íslenskt ríkisfang, og er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi, enda hafi umsagnaraðilar samkvæmt 2. gr. mælt með leyfisveitingunni.

7. gr.

Næringarráðgjafar eru bundnir þagnarskyldu um alla vitneskju eða grun sem þeir fá í starfi sínu um sjúkdóma eða önnur mál sem leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins og helst þagnarskyldan þótt viðkomandi láti of störfum.

8. gr.

Um næringarráðgjafa gilda að öðru leyti og eftir því sem við getur átt reglur læknalaga, nr. 80 23. júní 1969, með áorðnum breytingum. Reglur læknalaga gilda m.a. um viðurlög við brotum í starfi næringarráðgjafa, um sviptingu löggildingar þeirra og endurveitingu starfsréttinda.

9. gr.

Með má1 út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

 

10. gr.

Ráðherra getur í auglýsingu sett nánari ákvæði um framkvæmd reglugerðar þessarar.

11. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 24/1985 um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta og öðlast þegar gildi.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 29. janúar 1987.

 

Ragnhildur Helgadóttir.

Ingimar Sigurðsson.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica