Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

555/1999

Reglugerð um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til að kalla sig sérfræðing á sérsviði innan félagsráðgjafar hafa þeir félagsráðgjafar einir, er til þess hafa fengið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

2. gr.

Til þess að félagsráðgjafi geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skal hann hafa fullnægt þeim kröfum, er hér greinir:

1. Hlotið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra til að kalla sig félagsráðgjafa, sbr. 1. gr. laga nr. 95/1990 um félagsráðgjöf.

2. Lokið framhaldsnámi og aðfararnámi samkvæmt 3. gr. sbr. 13. gr.

3. Stundað sérnám og starfsþjálfun samkvæmt 7. og 8. gr.

4. Lokið ritsmíð og fullnægt ákvæðum 10. gr.

3. gr.

Til þess að geta hafið sérnám í félagsráðgjöf skal félagsráðgjafi hafa lokið eigi minna en 5 ára háskólanámi með framhaldsnámi í félagsráðgjöf. Grunnnám má vera í annarri háskólagrein, sem er tengd félagsráðgjöf.

4. gr.

Sérnám og starfsþjálfun samkvæmt 7. og 8. gr. má einungis fara fram á þeim fræðslu-, þjónustu- og meðferðarstofnunum, sem viðurkenndar eru. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitir slíka viðurkenningu að fengnum tillögum sérfræðinefndar sbr. 13. gr., sem metur starfsemi stofnana og hæfni leiðbeinenda og handleiðara. Nefndin endurskoðar mat sitt á tveggja ára fresti.

Félagsráðgjafar, sem stunda sérnám, skulu að jafnaði vera í fullu starfi á þeim stofnunum þar sem þeir nema, en þó aldrei minna en 50% og lengist þá starfsþjálfunartíminn og fjöldi handleiðslutíma að sama skapi.

Heimilt er að veita þeim félagsráðgjöfum sérfræðileyfi, sem fengið hafa sérfræðileyfi eða lokið sérnámi í öðrum löndum, séu kröfur sambærilegar, enda þótt námstilhögun sé með öðrum hætti. Sérnám ásamt starfsþjálfun með handleiðslu má þó aldrei standa skemur en í 4 ár að loknu framhaldsnámi.

5. gr.

Félagsráðgjafi getur sótt um sérfræðileyfi á einu af fjórum sérsviðum félagsráðgjafar:

1. Félagsráðgjöf á heilbrigðissviði - klínísk félagsráðgjöf.

2. Félagsráðgjöf í félagsþjónustu.

3. Félagsráðgjöf á fræðslu- og skólasviði.

4. Félagsráðgjöf í fangelsismála- og dómskerfi.

Veita má sérfræðileyfi á öðrum sviðum en þeim sem nú er gert ráð fyrir, ef félagsráðgjafi hefur uppfyllt sömu kröfur og þar eru gerðar. Sérfræðinefnd úrskurðar um slík mál.

Heimilt er að veita sérfræðileyfi í undirgrein og fer það eftir mati sérfræðinefndar hvað telja má undirgrein.

6. gr.

Til þess að fá sérfræðileyfi þarf félagsráðgjafi að hafa lokið starfsþjálfun eigi skemur en í 5 ár á aðalsviði skv. eftirfarandi lýsingu. Til þess að fá sérfræðileyfi í undirgrein skal hann þar af hafa lokið tveggja ára viðurkenndri þjálfun á sviði undirgreinar.

1. Félagsráðgjöf á heilbrigðissviði - klínísk félagsráðgjöf.

a) 36 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem veita heilbrigðisþjónustu. Þar af minnst 12 mánuðir á almennum geðdeildum, 12 mánuðir á barna- og unglingageðdeild, 12 mánuðir á almennum sjúkradeildum.

b) 12 mánuðir á deildum eða stofnunum heilbrigðisþjónustu fyrir börn, fullorðna eða aldraða.

c) 12 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem tengjast greininni.

2. Félagsráðgjöf í félagsþjónustu.

a) 36 mánuðir á sviði félagsþjónustu á vegum ríkis- og sveitarfélaga, þar af minnst 12 mánuðir með börnum og unglingum.

b) 12 mánuðir á félagsmálastofnunum eða félagsmálanefnd/félagsmálaráði sveitarfélaga.

c) 12 mánuðir á vettvangi sem tengist greininni.

3. Félagsráðgjöf á fræðslu og skólasviði.

a) 36 mánuðir á fræðslusviði, í skólum eða á meðferðarstofnunum fyrir börn og unglinga á skólaaldri.

b) 12 mánuðir á ráðgjafar- eða fræðsluskrifstofu, félagsmálastofnun með þjónustu við skóla.

c) 12 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem tengjast greininni.

4. Félagsráðgjöf í réttarkerfi: fangelsismála- og dómskerfi.

a) 36 mánuðir á sviði fangelsis- og dómsmála; við fangelsi, skilorðseftirlit eða stofnanir, sem undirbúa mál fyrir dómi/úrskurði.

b) 12 mánuðir á stofnunum er veita meðferð, ráðgjöf eða aðra þjónustu fyrir gerendur/þolendur og fjölskyldur þeirra.

c) 12 mánuðir á deildum eða stofnunum, sem tengjast greininni.

7. gr.

Til þess að fá viðurkenningu sem sérfræðingur þarf félagsráðgjafi að hafa fengið handleiðslu á starfsþjálfunartímanum sem nemur 120 handleiðslutímum í einstaklingshandleiðslu og 40 tímum í hóphandleiðslu.

8. gr.

Til þess að fá viðurkenningu sem sérfræðingur þarf félagsráðgjafi að hafa lokið fræðilegu námi sem nánari skilyrði eru sett um í vinnureglum sérfræðinefndar.

9. gr.

Til þess að fá viðurkenningu sem sérfræðingur þarf félagsráðgjafi að hafa samið ritsmíð um fræðilegt efni í félagsráðgjöf innan sérfræðisviðsins. Gerð er krafa um sjálfstætt fræðilegt ritverk sem byggir á eigin rannsókn á sviðinu. Ritverkið skal hafa verið birt í viðurkenndu vísindatímariti eða í sérstöku riti/bæklingi/bók þar sem fræðilegum kröfum er fylgt.

10. gr.

Heimilt er að synja félagsráðgjafa um sérfræðileyfi, þótt hann fullnægi ákvæðum þessarar reglugerðar, ef óeðlilega langur tími telst liðinn frá því hann lauk samfelldu sérnámi eða ef aðrar gildar ástæður mæla gegn veitingu sérfræðileyfis.

11. gr.

Sérfræðingur skal endurnýja sérfræðileyfi sitt á tíu ára fresti og staðfesta að hann starfi og hafi viðhaldið menntun sinni á því sviði sem hann hefur sérfræðileyfi á.

12. gr.

Umsóknir um sérfræðileyfi í félagsráðgjöf ásamt staðfestum vottorðum yfirmanna, leiðbeinenda og handleiðara og öðrum nauðsynlegum fylgiskjölum ásamt ritsmíð til sérfræðiviðurkenningar skal senda til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitir sérfræðileyfi í félagsráðgjöf að fenginni umsögn landlæknisembættisins og þriggja manna sérfræðinefndar sem ráðherra skipar. Í nefndinni skal einn tilnefndur af Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, einn fulltrúi félagsráðgjafar við Háskóla Íslands og einn tilnefndur af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Sérfræðinefnd skal setja sér vinnureglur um aðfararnám, handleiðslu, fræðilegt nám og nýjar undirgreinar.

Sérfræðinefndinni til ráðgjafar er 3ja manna matsnefnd. Hún skal skipuð tveimur fulltrúum frá Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa og fulltrúa félagsráðgjafar við Háskóla Íslands og er hann formaður matsnefndarinnar.

Áður en sérfræðileyfi í félagsráðgjöf á félagssviði (aðalsvið), í barnavernd (undirgrein) og fötlun (undirgrein) er veitt skal leitað umsagnar félagsmálaráðuneytisins. Áður en sérfræðileyfi í réttarfélagsráðgjöf (aðalsvið) er veitt skal leitað umsagnar dómsmálaráðuneytisins.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið heldur skrá yfir þá sem hafa sérfræðileyfi hverju sinni.

13. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 4. gr. laga nr. 95/1990 um félagsráðgjöf og öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Heimilt er að veita undanþágu frá ákvæðum 3. og 4. gr. og viðurkenna starfsreynslu og fræðilega þekkingu félagsráðgjafa, sem starfað hafa í meira en 25 ár, í eitt ár frá því að reglugerð þessi tekur gildi. Krafan um ritsmíð skv. 10. gr. er ófrávíkjanleg.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 6. júlí 1999.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Ragnheiður Haraldsdóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica