Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

538/1993

Reglugerð um vinýlklóríð í efnum og hlutum.

I. KAFLI Gildissvið og almenn ákvæði.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um magn vinýlklóríðs í efnum og hlutum sem er ætlað að snerta matvæli og hugsanlegt flæði þess í matvæli.

2. gr.

Efni og hlutir mega ekki innihalda vinýlklóríð í hærri styrk en sem nemur 1 mg/kg. Í viðauka 1 er lýst þeirri aðferð sem nota skal til þess að ákvarða magn vinýlklóríðs í efnum og hlutum og koma þá aðrar aðferðir ekki til greina.

3. gr.

Flæði vinýlklóríðs í matvæli skal vera minna en 0,01 mg/kg miðað við þá aðferð sem lýst er í viðaukum. Aðrar aðferðir koma ekki til greina til að ákvarða magn vinýlklóríðs í matvælum. Hins vegar er leyfilegt að nota herma í stað matvæla þegar öðru verður ekki við komið af tæknilegum ástæðum.

4. gr.

Á öðrum stigum dreifingar en í smásölu skal skriflegt vottorð fylgja efnum og hlutum, sem innihalda vinýlklóríð, um að þeir uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.

II. KAFLI Eftirlit og gildistaka.

5. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 15. tölul., tilskipun 78/ 142/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi efni og hluti sem innihalda vinýlklóríð og ætlað er að komast í snertingu við matvæli, 25. tölul., tilskipun 80/766/EBE um greiningaraðferð innan bandalagsins á vinýlklóríði í efnum og hlutum sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, 28. tölul., tilskipun 81/432/EBE um greiningaraðferð innan bandalagsins við opinbert eftirlit á vinýlklóríði sem getur borist í matvæli með efnum og hlutum, og 48. tölul., tilskipun 89/109/EBE um samræmingu aðildarríkjanna varðandi efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af II. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 1994.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 23. desember 1993.

Guðmundur Árni Stefánsson.

Páll Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.