Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

438/1991

Reglugerð um greiðslu sérstakrar fjárhæðar til rekstrar ökutækis hreyfihamlaðra. - Brottfallin

1. gr.

Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþegum svo og örorkustyrksþegum sérstaka fjárhæð vegna rekstrar bifreiðar, sem bótaþega er brýn nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar.

2. gr.

Með hreyfihömlun skv. reglugerð þessari er átt við líkamlega hreyfihömlun, þ.á.m. blindu, sem gerir menn ófæra um að komast ferða sinna á ökutækis. Um mat á hreyfihömlun skv. Þessari grein fer skv. almannatryggingalögum.

3. gr.

Til þess að geta notið greiðslna skv. reglugerð þessari þarf viðkomandi eða maki (sambúðaraðila) að vera skráður eigandi ökutækis.

Ennfremur þarf viðkomandi sjálfur að aka bifreiðinni eða maki (sambúðaraðili). Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði, t.d. eigi einhleypingur í hlut eða mæli sérstakar ástæður með.

4. gr.

Umsóknir um greiðslu skv. reglugerð þessari skulu sendar Tryggingastofnun ríkisins eða viðkomandi umboðsskrifstofu, sem framsendir umsóknir ásamt athugasemdum og meðmælum aðalskrifstofunni til úrskurðar.

Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um eftirfarandi:

1. Eignarhald bifreiðar.

2. Ökumann, aki umsækjandi ekki sjálfur.

3. Ljósrit af ökuskírteini umsækjanda eða annars ökumanns.

4. Hagi og atvinnu umsækjanda, t.d. með skattframtali.

5. gr.

Greiðslur skv. reglugerð þessari skulu vera kr. 4050 á mánuði. Fjárhæðir taka breytingum skv. 79. gr. almannatryggingalaga og skal sérstakt tillit tekið til breytinga á verði eldsneytis ökutækja.

6. gr.

Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðar þessarar.

7. gr.

Reglugerð þessi sem sett er skv. 1. gr. laga nr. 36/1980, um breytingar á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. október 1991. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 394/1980, um uppbót á elli- og örorkulífeyri og örorkustyrk vegna rekstrar bifreiðar hreyfihamlaðra með breytingu nr. 359/1982.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 16. september 1991.

Sighvatur Björgvinsson.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica