Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

103/1933

Ljósmæðrareglugerð - Brottfallin

I. KAFLI - Almenn ákvæði, varðandi ljósmæður yfirleitt.

1. gr. - Réttur til ljósmæðrastarfa.

Hver sú kona, sem stundað hefir nám tilskilinn tíma í Ljósmæðraskóla Íslands í Reykjavík og að loknu prófi þar er talin til þess hæf, á rétt á að kalla sig ljósmóður eða yfirsetukonu og að stunda ljósmóðurstörf hér á landi.

Sama rétt eiga og þær lærðar ljósmæður, sem rétt höfðu til ljósmæðrastarfa hér á landi áður en ljósmæðralög nr. 17, 19. júní 1933, gengu í gildi, þó að þær hafi ekki lokið námi eins og að framan segir.

2. gr. - Leyfi til ljósmæðrastarfa.

Ráðherra getur og veitt öðrum konum leyfi til að kalla sig ljósmæður og stunda ljósmæðrastörf hér á landi, ef þær hafa lokið að minnsta kosti jafngildu námi og eru að öðru leyti til þess hæfar að dómi aðalkennara Ljósmæðraskólans og landlæknis.

3. gr. - Óheimil ljósmæðrastörf.

Öðrum konum en þeim, sem rétt hafa samkvæmt 1. gr. eða leyfi samkvæmt 2. gr., er óheimilt að kalla sig ljósmæður eða yfirsetukonur og að stunda ljósmæðrastörf hér á landi.

4. gr. - Hvernig ljósmæður mega nota rétt sinn eða leyfi.

Hverri þeirri konu, sem á rétt samkvæmt 1. grein, eða hefir fengið leyfi samkvæmt 2. gr. til ljósmóðurstarfa, er frjálst að stunda ljósmóðurstörf hvar sem er hér á landi.

Ljósmóður er skylt að tilkynna héraðslækni, er hún sezt að i umdæmi til að stunda ljósmóðurstörf.

Hverri ljósmóður, sem óskar að setjast að í ljósmóðurumdæmi, sem starfandi ljósmóðir, er skylt að tilkynna það hlutaðeigandi héraðslækni, leggja fyrir hann skilríki sín og sanna honum, að hún hafi nauðsynleg áhöld til jafns við áhöld skipaðra ljósmæðra.

Ljósmóður má banna að setjast að í umdæmi.

Sýslumaður eða bæjarfógeti (í Reykjavík lögmaður) getur með ráði héraðslæknis bannað ljósmóður að stunda ljósmóðurstörf í umdæmi, ef hún hefir ekki tilskilin áhöld eða ef ætla má, að umdæmið verði ofsett ljósmæðrum, ef hún bætist við, svo að hætta geti orðið á, að því haldist ekki á skipaðri ljósmóður. Ef ljósmóður er bannað að stunda ljósmóðurstörf í umdæmi af hinni síðartöldu ástæðu, má hún þó leita úrskurðar bæjarstjórnar eða sýslunefndar.

Ljósmóður er skylt að tilkynna héraðslækni, er hún hættir störfum.

Ljósmóðir, sem starfað hefir í umdæmi, skal gera héraðslækni kunnugt, ef hún ætlar sér að hætta ljósmóðurstörfum, flytjast í annað umdæmi innan héraðsins eða úr héraðinu.

5. gr. - Eftirlit með ljósmæðrum.

Allar ljósmæður skulu háðar eftirliti héraðslækna og landlæknis. Er hver ljósmóðir skyld að fara eftir ráðum og aðvörunum héraðslæknis síns. Ef hún þykist verða fyrir órétti, er henni frjálst að snúa sér til landlæknis.

6. gr. - Um áhöld ljósmæðra.

Ljósmæðrum, sem stunda ljósmæðrastörf, er skylt að halda vel við áhöldum sínum, sem vera skulu í samræmi við áhalda- og lyfjaskrá ljósmæðra, er landlæknir gefur út í samráði við aðalkennara Ljósmæðraskólans, og hafa þau jafnan við hendina, er þeirra er vitjað.

7. gr. - Um lyf ljósmæðra.

Ljósmæður, sem stunda ljósmæðrastörf, skulu jafnan hafa tiltæk lyf þau, sem talin eru í áhalda- og lyfjaskrá ljósmæðra.

Hver lyf ljósmæður mega ávísa sér sjálfar og hver ekki.

Ljósmæður eiga rétt á að fá afhent úr lyfjabúð gegn eiginni ávísun lýsól og önnur venjuleg sótthreinsunarlyf eftir vild, en Hoffmannsdropa, kamfórudropa, sekaledropa, vítisteinsvatn, 2 % að styrkleika, og þynnta saltpéturssýru í fyrirskipuðum skömmtum. Stærri skammta, svo og ópíumsdropa, má aðeins afhenda þeim gegn læknisávísun.

Héraðslæknar láta starfandi ljósmæðrum í héruðum sinum ókeypis í té nauðsynlegar ávísanir á fyrirskipuð ljósmæðralyf.

8. gr. - Störf ljósmæðra.

Þessi eru þau störf, sem öllum ljósmæðrum er heimilt að rækja:

1) að rannsaka vanfærar konur til þess að komast að raun um heilsufar þeirra í sambandi við þungann og horfur fæðingarinnar;

2) að hjálpa jóðsjúkum konum og hjúkra þeim meðan þær liggja á sæng eftir barnsburð;

3) að annast hjúkrun og eftirlit með meðferð nýfæddra barna;

4) að skoða konur, ef þess er beiðst, í því skyni að komast að raun um, hvort kona er vanfær;

5) að fara með hægðadælu;

6) að losa konur við þvag;

7) að skola innan getnaðarfæri kvenna;

8) að koma fyrir leghringum og öðrum umbúðum, sem eiga við getnaðarfæri kvenna, eftir fyrirsögn læknis.

Hver ljósmóðir skal jafnan haga þessum verkum sínum nákvæmlega eftir reglum ljósmóðurfræðinnar og ekki leggja stund á neinar lækningar aðrar en þær, sem tilheyra ljósmóðurstörfum. Ef landlæknir setur sérstök fyrirmæli um einhver störf ljósmæðra, þá ber henni að fara eftir þeim í öllum greinum.

9. gr. - Skyldur ljósmæðra að gegna konum í barnsnauð.

Allar starfandi ljósmæður, sem stunda ljósmæðrastörf og þó að óskipaðar séu, eru skyldar til að láta aðstoð sína tafarlaust í té hverri þeirri sængurkonu, sem leitar þeirra úr því ljósmóðurumdæmi, sem þær sitja í, enda sé þeim séð fyrir fararbeina. Nú er þeirra leitað til sængurkvenna úr næstu umdæmum fyrir það, að þar verður ekki náð til ljósmóður, og eru þær þá á sama hátt skyldar að gegna, ef þær ekki fyrir það vanrækja nauðsynleg störf innan síns umdæmis.

Allar ljósmæður, og þó að þær stundi ekki ljósmæðrastörf, eru skyldar til, ef þær eru nærstaddar og ekki næst til starfandi ljósmóður -- nema því alvarlegri forföll banni -- að veita sængurkonu nauðsynlegustu hjálp, unz til starfandi ljósmóður hefir náðst.

10. gr. - Um dvalarskyldu ljósmæðra, læknisvitjanir og notkun hríðaraukandi lyfja, deyfilyfja og svæfingarlyfja.

Ef ljósmóður er vitjað til að sitja yfir og verður hún þess vís, þegar hún kemur til konunnar, að konan hefir tekið léttasóttina, þá má hún ekki fara af heimilinu aftur fyr en barnið er komið og fylgjan, og úti í bráðina öll hætta á blóðlátum. Þó er ljósmóður heimilt að skipta hjálp sinni á milli tveggja sængurkvenna eða fleiri, eftir því sem atvik standa til, ef þörf er á slíku, enda sé skammur vegur í milli.

Ef ljósmóðir finnur þess merki, þegar hún kemur til konu, að ólag muni vera á fæðingunni, svo að konunni eða fóstrinu geti verið hætta búin, þá skal hún heimta í tæka tíð, að læknis sé vitjað, og senda lækni skýrt skeyti um það hvernig ástatt sé; fær hún hjá héraðslækni eyðublöð undir þau skeyti.

Nú er læknis vitjað, og skal hún þá fara að öllu eftir fyrirsögn hans og dvelja hjá konunni eftir barnsburðinn, svo lengi sem honum þykir þurfa; skal hún þá gera allt sitt til þess, að farið sé eftir fyrirmælum læknis meðan konan liggur á sæng.

Hún má ekki sjálf gefa eða leyfa að aðrir gefi jóðsjúkri konu hríðaraukandi lyf önnur en sekaledropa eftir fylgjufæðingu nema eftir fyrirsögn læknis, og ekki deyfilyf önnur en opíumsdropa í smáskömmtum, né svæfingarlyf nema læknir bjóði og sé viðstaddur.

11. gr. - Skyldur ljósmæðra að tilkynna barnsburði.

Þá er ljósmóðir tekur á móti barni, skal hún jafnan tilkynna barnsburðinn á þann hátt, sem hér segir:

Ljósmóðir skal semja tilkynninguna þegar í stað, ef barnið fæðist andvana, og ef það deyr nýfætt, þá strax eftir andlátið, en lifi barnið, þá eigi síðar en 7 nóttum eftir fæðinguna.

Þessar tilkynningar skal jafnan skrá á eyðublöð, sem þar til eru gerð og héraðslæknir lætur í té.

Hverjum tilkynna skal.

Ef móðirin er í þjóðkirkjusöfnuði, skal senda tilkynninguna þeim þjóðkirkjupresti, sem fæðingarsókn barnsins heyrir undir, og allt að einu ef hún er ekki í neinum löggildum söfnuði. Nú er móðirin í utanþjóðkirkjusöfnuði, sem hefir löggildan prest eða forstöðumann, og skal þá senda honum tilkynninguna, ef barnið fæðist heima í safnaðarhverfi hans. Má alls ekki bregða út af þessum fyrirmælum, þó að í ráði sé að fara með barnið til skírnar í aðra sókn, eða sleppa skírn, því að hvern barnsburð ber að skrá og setja i fæðingarskýrslu þeirrar sóknar, þar sem barnið fæðist.

Ef tilkynning er vanrækt.

Ef ljósmóðír, sem stundar ljósmóðurstörf, fær vitneskju um, að barn hafi fæðzt í umdæmi hennar og verið vanrækt að tilkynna barnsburðinn, þá skal hún tafarlaust gera þeim presti eða safnaðarstjóra, sem tilkynna ber, aðvart um það, eða ef hún kýs heldur, hinni skipuðu ljósmóður umdæmisins, sem síðan annast tilkynninguna.

12. gr. - Hver börn skal telja "lifandi" og hver "andvana".

Hvað "barnsburður" er og hvað "fósturlát".

Ef barnið fer að anda sjálfkrafa að vörmu spori eftir fæðinguna, þá skal telja, að það hafi fæðst "með fullu lífi". Ef barnið andar ekki, en er þó með lífsmarki (hjartað slær), og andardrættinum verður komið í gang með lífgunartilraunum, svo að barnið fer að anda sjálfkrafa, þá er talið að barnið hafi fæðzt "hálfdautt", en þó að vísu "lifandi".

"Lifandi" börn.

Eftir þessu skal fara í tilkynningum um barnsburð; skal þar ávallt telja að barnið hafi fæðzt "lifandi" ef svo var, að það andaði sjálfkrafa, þó að ekki væri nema rétt snöggvast, og eins fyrir því, þó að ófullburða sé og hversu mikið sem vantaði á réttan tíma.

"Andvana" börn.

"Andvana" er talið að burðurinn komi, ef ekkert lífsmark finnst, og eins þó að lífsmark finnist, ef það hverfur án þess að lánazt hafi að koma sjálfkrafa andardrætti í gang. Í tilkynningum um barnsburð skal þá kalla, að barnið hafi komið "andvana".

"Fósturlát". Þau skal ekki tilkynna.

Nú kemur burðurinn andvana, og svo löngu fyrir tímann, að ætla má, að ekki séu liðnir fullir sjö mánuðir (28 vikur) frá síðustu tíðum móðurinnar, og er burðurinn svo óþroskaður, að líkamslengdin nær ekki 35 cm., skal þá ekki telja það "barnsburð", heldur "fósturlát"; en þau á ekki að tilkynna presti; skal ljósmóðir gæta þess vandlega að tilkynna ekki fósturlát sem "barnsburð".

13. gr. - Um lífgunartilraunir á hálfdauðum börnum.

Ef nýfætt barn bærist ekki, en þó ekki sjáanleg óræk merki þess, að það sé dautt, þá skal ljósmóðirin tafarlaust gera sínar ýtrustu tilraunir til að fjörga það, og ekki hætta þeim fyr en barnið er lifnað við, eða hins vegar öll lífsmörk horfin.

14. gr. - Meðferð á ungbörnum.

Ljósmóðir skal jafnan segja móðurinni ýtarlega fyrir um meðferð á barninu. Ef henni lízt heimilið svo fátækt og vesalt, að lífi eða heilsu barnsins muni hætta búin, þá skal hún skýra hlutaðeigandi barnaverndarnefnd frá því.

15. gr. - Ef jóðsjúk kona hefir næman sjúkdóm.

Ef kona hefir einhvern næman sjúkdóm þegar hún tekur léttasóttina, þá er ljósmóður engu að síður skylt að vitja hennar og veita henni þá hjálp og hjúkrun, sem hún þarfnast vegna barnsburðarins. En vandlega skal hún, þá gæta þess að verja sjálfa sig og aðra sóttmengun og fara þar eftir gildandi reglum um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma og um sótthreinsanir.

16. gr. - Ef sængurkona tekur næman sjúkdóm, eða ljósmóðir.

Nú tekur sængurkona barnsfararsótt eða einhvern annan næman sjúkdóm, sem hætt er við, að borizt geti með ljósmóðurinni út af heimilinu, skal hún þá skýra héraðslækni sínum frá því tafarlaust og hlýða sóttvarnarráðum hans, og ekki sitja aftur yfir konu fyr en læknir telur hættulaust.

Ljósmóðir skal fara eins að, ef hún tekur sjálf næman sjúkdóm, eða næmur sjúkdómur kemur upp á heimili hennar.

Ef ljósmóðir tekur berklaveiki.

Engin kona má fást við ljósmóðurstörf, ef hún hefir smitandi berkla. Skal hún sýna læknisvottorð um, að svo sé ekki, og ber að endurnýja vottorðið árlega.

Ráðstafanir gegn kynsjúkdómum.

Ef ljósmóðir verður í starfi sínu vör sjúklings með kynsjúkdóm, skal hún vekja athygli hlutaðeigandi á sjúkdóminum og sjá um að læknis verði leitað.

Til varnar gegn lekandabólgu í augum dreypir ljósmóðir vítissteinsvatni, 2 % að styrkleika, í augu á hverju barni, sem hún tekur á móti, áður en hún skilur á milli eða strax á eftir. Frá þessu má hún aldrei víkja.

17. gr. - Löggiltar fæðingabækur.

Hver ljósmóðir skal rita í fæðingabók, löggilta af héraðslækni, allar fæðingar, sem hún er viðriðin. Skal hún jafnan gera það við fyrstu hentugleika, og gæta þess að leysa greinilega úr öllum þeim spurningum, sem felast í prentuðu fyrirsögnunum yfir dálkunum í bókinni.

Óskilgetin börn.

Þegar ljósmóðir tekur á móti óskilgetnu barni, skal hún jafnan gæta einkar vandlega að öllu, sem hafa má til marks um það, hvort barnið sé fullburða, og samstundis skrifa hjá sér líkamslengd barnsins og þyngd og allt annað, sem þar að lýtur og síðar rita það allt í fæðingabókina.

Eyðublöð.

Þegar ljósmóðir sezt að og tekur til starfa í einhverri sveit, skal hún þegar í upphafi biðja héraðslækni um fæðingabók handa sér, og ljósmæðrareglugerð, ef hún á hana ekki, og eyðublöð (sbr. 10., 11. og 17. gr.).

Þegar fæðingabók er útskrifuð, eða ljósmóðir lætur af starfi sínu, eða flyzt úr sveitinni, skal hún afhenda héraðslækni fæðingabók sína.

Ársskýrslur.

Í janúarmánuði ár hvert skal hver ljósmóðir, sem stundar ljósmóðurstörf, senda héraðslækni sínum fæðingabók sína, til þess að hann geti gert eftir henni skýrslu um fæðingar á hinu liðna ári, eða hún gerir sjálf skýrslu yfir fæðingarnar og sendir héraðslækni. Skýrsluna gerir hún þá á þar til gert eyðublað, er héraðslæknir lætur í té. Fer það eftir samkomulagi við héraðslækni, hvort hún gerir sjálf skýrsluna eða ekki.

18. gr. - Bannað að spyrja um faðerni.

Ljósmóðir skal aldrei heimta af vanfærum konum eða sængurkonum, að þær segi henni til faðernis barnsins.

Þagnarskylda.

Ef kona er þunguð eða verður léttari, og biður ljósmóður að þegja yfir því, þá er henni skylt að verða við þeirri beiðni og yfirleitt þegja yfir öllu, sem konan trúir henni fyrir um hagi sína, og aldrei út af bregða nema hún fái grun um að glæpur hafi verið framinn, eða sé fyrirhugaður.

Sérstaða ljósmæðra í vitnaleiðslum.

Um einkamál, sem ljósmóður er trúað fyrir í starfi sínu, verður hún ekki leidd sem vitni í réttarhöldum gegn vilja þess, er einkamálið varðar, nema ætla megi, að úrslit málsins velti á vitnisburðinum, enda sé málið þýðingarmikið fyrir málsaðilja eða þjóðfélagið.

Nú er ljósmóður gert að bera vitni í slíkum málum, og skal það þá jafnan gerast fyrir luktum dyrum.

Ef glæpur vitnast.

Nú verður ljósmóðir vör við drýgðan glæp, og skal hún þá tafarlaust skýra lögreglustjóra frá málavöxtum, eða héraðslækni, í því skyni að hann tilkynni lögreglustjóra. Sama er um það, ef hún verður vör við glæpsamlegar ráðagerðir og getur ekki aflað sér fullvissu um, að frá þeim verði horfið.

Um launalin börn.

Nú kemur ljósmóðir til konu, sem nýlega hefir alið barn á laun, og er barnið dautt eða horfið, og skal hún þá gefa nánar gætur að öllu, sem fyrir hana ber, og tafarlaust gera lögreglustjóra (hreppsstjóra eða sýslumanni) aðvart.

19. gr. - Bann við auglýsingum og skrumi.

Ljósmæðrum er óheimilt að auglýsa starfsemi sína að öðru leyti en því að birta aðsetursstað sinn, nafn og stöðu. Slíka auglýsingu má ljósmóðir hafa á dyraspjaldi sínu, en í blöðum eða annarsstaðar má hún ekki birta hana oftar en þrisvar við hver bústaðaskipti.

Ljósmæðrum ber að forðast hvers konar skrum um starfsemi sína og að fara niðrandi orðum um stéttarsystur sínar.

II. KAFLI - Sérstök ákvæði, varðandi skipaðar ljósmæður.

20. gr. - Hvernig ljósmæður eru skipaðar.

Sýslumaður skipar ljósmóður í umdæmi eftir tillögum sýslunefndar, en í kaupstöðum bæjarfógeti (í Reykjavík lögmaður), eftir tillögum bæjarstjórnar, og skal jafnan leita álits hlutaðeigandi héraðslæknis.

Skylt að auglýsa laust ljósmóðurumdæmi.

Jafnan skal auglýsa í Lögbirtingablaðinu laust ljósmóðurumdæmi, nema samið hafi verið við konu um að nema ljósmóðurfræði gegn því að taka að sér umdæmið að loknu námi.

Ef héraðslæknir leggur á móti skipun ljósmóður.

Leggi héraðslæknir á móti skipuninni fyrir það, að ljósmóðirin sé óhæf til starfans, skal fresta henni og skjóta málinu undir fullnaðarúrskurð landlæknis.

Sérstakar kröfur til ljósmæðra, sem skipaðar verða í kaupstaðarumdæmi.

Ekki má skipa ljósmóður í kaupstaðarumdæmi, nema þær hafi, að loknu tilskildu námi, verið að minnsta kosti eitt ár aðstoðarljósmæður á fæðingardeild Landspítalans, eða notið framhaldsmenntunar sem því svarar, að dómi aðalkennara Ljósmæðraskólans og landlæknis.

Hvernig sækja skal um ljósmóðurumdæmi og segja lausu.

Ljósmóðir, sem óskar skipunar í laust ljósmóðurumdæmi, sendir umsókn stílaða til hlutaðeigandi sýslumanns eða bæjarfógeta (í Reykjavík lögmanns), og lætur fylgja umsókninni prófvottorð sitt eða leyfisbréf. Hún greinir aldur sinn, skýrir frá framhaldsmenntun sinni, hvar og hve lengi hún hafi starfað sem ljósmóðir, og lætur fylgja skrifleg skilríki, vottorð og meðmæli, ef henni þykir þurfa.

Skipuð ljósmóðir segir umdæmi sínu lausu með bréfi til hlutaðeigandi sýslumanns eða bæjarfógeta (í Reykjavík lögmanns).

Skipunarbréf og uppsagnarfrestur.

Þegar ljósmóðir er skipuð í umdæmi, skal henni fengið skipunarbréf, og sé tekið fram í því, að uppsagnarfrestur skuli vera af hennar hálfu, og að jafnaði ekki styttri en 6 mánuðir.

Nú hefir skipuð ljósmóðir ekki skipunarbréf, eða ekki er tekið fram í því, hver uppsagnarfrestur hennar sé, og skal hann þá eigi að síður vera 6 mánuðir.

Ljósmóðir, sem er skipuð í nýtt umdæmi, er ekki bundin við uppsagnarfrest.

Ljósmóðir, sem skipuð hefir verið í annað umdæmi, er þó ekki bundin við uppsagnarfrest og má yfirgefa sitt fyrra umdæmi til að taka við hinu síðara, en tilkynna skal hún hlutaðeigandi sýslumanni eða bæjarfógeta (í Reykjavík lögmanni), jafnskjótt sem hún fær vitneskju um, að hún hafi verið skipuð í annað umdæmi.

Sama gildir, ef ljósmóðir hefir fengið veitingu fyrir öðru opinberu ljósmóðurstarfi.

Ljósmóðir, sem þegið hefir námsstyrk gegn því að þjóna umdæmi að loknu námi, útendar sinn tíma.

Ljósmóðir, sem fengið hefir námsstyrk úr ríkissjóði gegn því að skuldbinda sig til að þjóna tilteknu ljósmóðurumdæmi ákveðinn tíma að loknu námi, er þó jafnan bundin við að útenda þann tíma, nema sérstök forföll banni, og má ekki sækja burtu til að taka við skipun annarsstaðar áður, nema með leyfi hlutaðeigandi hreppsnefndar.

21. gr. - Skyldur skipaðra ljósmæðra.

Skipuðum ljósmæðrum, sem hafa föst laun úr sýslusjóði og ríkissjóði eða bæjarsjóði, ber að halda öll þau fyrirmæli, sem sett eru í þessari reglugerð, 1.-19. gr., um ljósmæður yfirleitt. En þar að auki hvíla á þeim þær skyldur, sem nú segir:

1) Skipuð ljósmóðir er skyld að gegna í sínu umdæmi öllum störfum ljósmæðra, sem talin eru í 8. gr., hvenær sem þess er beiðst, nema lögleg forföll banni.

2) Hún er skyld, að forfallalausu og ef þess er óskað, að dvelja eigi skemur en 5 daga á heimili sængurkonu til að hjúkra henni eftir barnsburðinn og barninu, nema hún geti vitjað hennar daglega.

3) Þegar hún fer út af heimili sínu, skal hún jafnan segja heimafólki hvert hún ætlar, svo að það viti, hvar hennar er að leita, ef á þarf að halda.

4) Hún má ekki fara út úr umdæmi sínu án leyfis héraðslæknis síns, nema hennar sé vitjað til sængurkonu í forföllum ljósmóður þar og í brýnni nauðsyn (sbr. 9. gr.).

5) Hún er skyld að hafa á hendi bólusetningar í umdæmi sínu.

6) Hún skal gæta þess að geyma vandlega og fara vel með þær bækur og áhöld, sem umdæminu fylgja og héraðslæknir afhendir henni. Áhöldunum heldur hún við á sinn kostnað. Skal hún skila því öllu í hendur héraðslækni, ef hún lætur af starfi sínu.

7) Henni er skylt að taka að sér til bráðabirgða og ef nauðsyn krefur að þjóna nágrannaumdæmi ásamt sínu umdæmi, og gegnir hún þá báðum umdæmunum eins og eitt umdæmi væri.

22. gr. - Um bækur og áhöld, sem eiga að fylgja hverju ljósmóðurumdæmi.

Þegar skipuð ljósmóðir tekur við umdæmi, á hún að fara á fund héraðslæknis í því héraði og fá hjá honum:

1) Ljósmæðrabók með ljósmæðralögum og reglugerð o. fl.;

2) löggilta fæðingabók;

3) sóttvarnarbók með sóttvarnarlögum, lögum um varnir gegn útbreiðslu næmra sjúkdóma og tilheyrandi reglugerðum;

4) bólusetningarbók með bólusetningarlögum og reglugerð;

5) bólusetningarjárn;

6) yfirsetuáhöld, samkvæmt áhaldaskrá ljósmæðra;

7) ljósmæðralyf samkvæmt sömu skrá;

8) eyðublöð undir:
a) bólusetningarskrár;
b) bólusetningarvottorð;
c) (ársskýrslur);
d) tilkynningar um barnsburði;
e) skeyti til læknis um konu í barnsnauð.

Öll þessi eyðublöð fær ljósmóðirin síðan hjá héraðslækni eftir þörfum.

Ljósmóðir er skyldug að sýna héraðslækni bækur sínar og áhöld hvenær sem hann krefst þess.

23. gr. - Um föst laun skipaðra ljósmæðra.

Laun skipaðra ljósmæðra í kaupstöðum skulu greidd úr bæjarsjóði, en utan kaupstaða að einum þriðja hluta úr sýslusjóði og að tveimur þriðju hlutum úr ríkissjóði. Launin eru jafnan miðuð við fólkstal í umdæmunum við síðustu áramót.

Ef fólkstal í umdæminu er 300 eða minna, þá eru árslaunin 300 kr.

Ef fólkstalið fer fram úr 300, ber ljósmóður 300 kr. að viðbættum 10 kr. fyrir hverja fulla 5 tugi manna, sem fram yfir eru 300.

Í kaupstöðum, þar sem eru tvær eða fleiri skipaðar ljósmæður, ber að deila íbúatölunni jafnt milli þeirra, og því næst reikna þeim árslaun á sama hátt og öðrum skipuðum ljósmæðrum, þó aldrei yfir 1000 kr. í byrjunarlaun.

Aldursuppbót.

Laun allra skipaðra ljósmæðra skulu hækka eftir 5 ár um 50 kr., og eftir önnur 5 ár um 50 kr. Þó mega launin án dýrtíðaruppbótar aldrei fara fram úr 1500 kr.

Dýrtíðaruppbót.

Á laun þessi greiðist dýrtíðaruppbót af aðiljum eftir þeim reglum, sem gilda um starfsmenn ríkisins.

Þóknun fyrir að gegna nágrannaumdæmi ásamt sínu umdæmi.

Skipaðri ljósmóður, sem falið er um stundarsakir að gegna nágrannaumdæmi ásamt sínu umdæmi (sbr. 21. gr., 7. lið), ber að greiða fyrir það hálf byrjunarlaun þess umdæmis.

Hvernig launin greiðast.

Í kaupstöðum skulu launin greidd með jöfnum greiðslum mánaðarlega fyrirfram, en í einu lagi á manntalsþingi utan kaupstaða.

Um eftirlaun skipaðra ljósmæðra.

Ef skipuð ljósmóðir slasast, þegar hún er að gegna lögmæltu starfi sínu, svo að hún verður að fá lausn, og er ekki fær um að vinna fyrir sér á annan hátt, þá skal hún, unz skipuðum ljósmæðrum hefir verið tryggður lífeyrir með lögum, eiga kröfu til eftirlauna frá sömu aðiljum, og greiði þeir henni launin í sömu hlutföllum. Sýslunefndir með samþykki ráðherra og bæjarstjórnir ákveða upphæð eftirlaunanna. Ef sýslunefndir, með samþykki ráðherra, eða bæjarstjórnir til þess tíma ákveða að greiða ljósmæðrum eftirlaun, eftir að þær hafa látið af störfum sínum sem skipaðar ljósmæður, fyrir elli sakir eða vanheilsu, greiðir ríkissjóður sinn hluta af eftirlaununum til móts við sýslusjóð.

Um biðlaun skipaðra ljósmæðra.

Skipaðar ljósmæður, sem verða að láta af starfi sakir berklaveiki (sbr. 16. gr.), eiga rétt á tveggja ára biðlaunum, 2/3 hluta launa þeirra er þær nutu, þegar þær létu af starfinu. Biðlaun þessi greiðast af sömu aðiljum og í sömu hlutföllum og hin fyrri launin.

III. KAFLI - Gjaldskrá ljósmæðra.

24. gr. - Um minnstu þóknun til ljósmæðra fyrir yfirsetustarf.

Fyrir yfirsetu og aðhjúkrun sængurkvenna ber ljósmæðrum sanngjörn þóknun. Þessi þóknun skal vera, auk ókeypis fararbeina báðar leiðir, eigi minni en 7 kr. fyrir að sitja yfir og kr. 2,50 fyrir hvern dag, sem ljósmóðir dvelur hjá sængurkonunni, nema þann dag, sem hún tekur á móti barninu, en 1 kr. fyrir hverja vitjun í kaupstað eða þéttbýli, þar sem ljósmóðir býr.

Skyldur sveitarsjóðs að greiða ljósmæðragjöld.

Ef sængurkona þiggur af sveit, eða er svo fátæk, að hún getur ekki borgað, þá á ljósmóðir heimtingu á, að sveitarsjóður greiði henni þóknunina fyrir yfirsetustarfið og nauðsynlega aðhjúkrun og skal ekki telja þau gjöld sem veittan sveitarstyrk.

25. gr. - Um þá þóknun, sem ljósmæðrum ber fyrir aukaverk.

Fyrir þau aukaverk, sem nefnd eru í 8. gr., 1., 4.--8; lið, ber ljósmæðrum þóknun eftir því, sem hér segir:

a) Fyrir að skoða konu í því skyni, sem til er tekið í 8. gr., 1. og 4. lið 2 kr.

b) Fyrir hvert af þeim verkum, sem nefnd eru í 8. gr., 5.--8. lið, og í 3. lið ef sérstaklega er unnið 2 kr.

Ef eitthvert af þessum verkum er unnið oftar en einu sinni fyrir sama sjúkling, þá ber ljósmóður ekki fullt gjald nema í fyrsta skiptið, en hálft úr því.

Þegar ljósmóðir vinnur einhver þessi verk sængurkonum til hjálpar meðan hún situr yfir þeim eða stundar þær eftir barnsburð, þá ber henni engin sérstök borgun fyrir þau.

Aukagreiðsla fyrir ferðir til aukaverka.

Verði ljósmóðir að takast ferð á hendur um lengri veg frá heimili sínu en nemi 2 kílómetrum, til að vinna eitthvert af þeim aukaverkum sínum, sem um ræðir í þessari grein, þá skal sjá henni fyrir ókeypis fararbeina og greiða henni, auk borgunar fyrir verkið, 50 aura fyrir hverja klukkustund, sem til ferðarinnar þarf fram og aftur.

26. gr. - Um þóknun til ljósmæðra fyrir bólusetningar.

Um þóknun til ljósmæðra fyrir bólusetningar fer samkvæmt bólusetningarlögum.

IV. KAFLI - Refsiákvæði.

27. gr. - Almenn ákvæði um brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar.

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar varða sektum 50--500 kr., nema þyngri hegning liggi við brotinu að lögum. Fyrir ítrekuð brot og mikilsháttar má svipta ljósmóður rétti til ljósmóðurstarfa um stundarsakir, og fyrir fullt og allt, ef sakir eru miklar.

Dagsektir, ef ljósmóðir skilar ekki fyrirskipuðum skýrslum.

Ef ljósmóðir skilar ekki fyrirskipuðum skýrslum (sbr. 17. gr.), ma láta hana sæta dagsektum, 5 kr. á dag, unz skil hafa verið gerð. Þær sektir skulu renna í Sjúkrasjóð ljósmæðra.

Skipaðri ljósmóður má víkja frá starfi sínu.

Sýslumaður eða bæjarfógeti (í Reykjavík lögmaður) má víkja skipaðri ljósmóður frá starfi sínu, ef hún að dómi héraðslæknis hefir brotið alvarlega af sér sem ljósmóðir, einkum ef hún hefir oftar en einu sinni skorazt undan að vitja sængurkvenna tafarlaust og að forfallalausu, ef hún hefir ljóstað upp trúnaðarmáli, sem hún hefir komizt að sem ljósmóðir, eða ef hún hefir gert sig seka um óafsakanleg afglöp eða óhæfu í ljósmóðurstörfum.

Starfandi ljósmóður má banna að starfa í umdæmi.

Á sama hátt má banna starfandi ljósmóður ljósmóðurstörf í umdæmi fyrir tilsvarandi sakir.

Ráðherra getur svipt ljósmóður rétti til ljósmóðurstarfa.

Ef um einhverja óhæfu er að ræða að dómi landlæknis og aðalkennara Ljósmæðraskólans, má ráðherra svipta ljósmósður rétti til ljósmóðurstarfa, en skjóta má hún þeim úrskurði til dómstólanna.

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. janúar 1934.

Frá sama tíma fellur úr gildi yfirsetukvennareglugerð nr. 12 frá 9. marz 1914.

Þetta er hér með birt öllum þeim til eftirbreytni, er hlut eiga að máli.

Í dómsmálaráðuneytinu, 23. október 1933.
Magnús Guðmundsson.
Gissur Bergsteinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica