Fara beint í efnið

Prentað þann 29. mars 2024

Stofnreglugerð

379/1999

Reglugerð um örorkumat.

1. gr.

Þeir sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eiga rétt á örorkulífeyri, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Heimilt er að greiða þeim sem metnir eru til 50-74% örorku örorkustyrk, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Um önnur réttindi tengd örorku er nánar kveðið á í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, og lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

2. gr.

Tryggingayfirlæknir metur örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sjá fylgiskjal 1.

Tryggingayfirlækni er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu, áður en til örorkumats kemur, sbr. 8. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð.

3. gr.

Þegar umsókn um örorkulífeyri og fullnægjandi læknisvottorð hefur borist Tryggingastofnun ríkisins sendir stofnunin umsækjanda að jafnaði staðlaðan spurningalista. Örorkumat er unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar hjá tryggingayfirlækni og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

4. gr.

Heimilt er að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, sbr. fylgiskjal 1, ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku.

5. gr.

Tryggingastofnun ríkisins gefur út örorkuskírteini til þeirra sem metnir eru a.m.k. 75% öryrkjar.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í b. lið 1. gr. laga nr. 62/1999, um breytingar á lögum um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, og 66. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum, og öðlast gildi 1. september 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.

Ákvæði reglugerðar þessarar gilda um þá einstaklinga sem metnir eru til örorku í fyrsta sinn eftir gildistöku reglugerðarinnar en ekki um þá sem metnir höfðu verið til örorku samkvæmt ákvæðum eldri laga, nema þeir sæki sérstaklega um það.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 25. maí 1999.

Ingibjörg Pálmadóttir.

Jón Sæmundur Sigurjónsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.