Heilbrigðisráðuneyti

1111/2020

Reglugerð um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa.

I. KAFLI

Gildissvið, markmið, skilgreiningar og aðgengi.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi afmarkar heilbrigðisumdæmi landsins.

Reglugerð þessi gildir um hlutverk, starfsemi og þjónustu heilbrigðisstofnana heilbrigðis­umdæma, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa á vegum þeirra. Þá gildir reglugerð þessi um hlutverk, starfsemi og þjónustu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.

Reglugerð þessi gildir einnig um hlutverk, starfsemi og þjónustu sjálfstætt starfandi heilsu­gæslu­stöðva eftir því sem við á.

 

2. gr.

Markmið.

Markmið með skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi er að leggja grunn að skipulagi heil­brigðis­þjónustu í því skyni að efla og bæta þjónustu og tryggja landsmönnum jafnan aðgang að þjón­ust­unni.

Markmið með rekstri heilbrigðisstofnana er að tryggja notendum fullnægjandi heilbrigðis­þjónustu á réttu þjónustustigi.

 

3. gr.

Heilbrigðisumdæmi og heilbrigðisstofnanir.

Landinu skal skipt upp í eftirfarandi heilbrigðisumdæmi, sbr. fylgiskjal 1:

  1. Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins.
  2. Heilbrigðisumdæmi Vesturlands.
  3. Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða.
  4. Heilbrigðisumdæmi Norðurlands.
  5. Heilbrigðisumdæmi Austurlands.
  6. Heilbrigðisumdæmi Suðurlands.
  7. Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja.

Í heilbrigðisumdæmum landsins starfa eftirfarandi heilbrigðisstofnanir:

  1. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, innan heilbrigðisumdæmis höfuðborgarsvæðisins.
  2. Heilbrigðisstofnun Vesturlands, innan heilbrigðisumdæmis Vesturlands.
  3. Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, innan heilbrigðisumdæmis Vestfjarða.
  4. Heilbrigðisstofnun Norðurlands, innan heilbrigðisumdæmis Norðurlands.
  5. Heilbrigðisstofnun Austurlands, innan heilbrigðisumdæmis Austurlands.
  6. Heilbrigðisstofnun Suðurlands, innan heilbrigðisumdæmis Suðurlands.
  7. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, innan heilbrigðisumdæmis Suðurnesja.

 

4. gr.

Stig heilbrigðisþjónustu.

Fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta: Heilsugæsla, heilsuvernd og forvarnir, bráða- og slysamóttaka og önnur heilbrigðisþjónusta á vegum heilsugæslustöðva. Þjónusta og hjúkrun á hjúkrunarheimilum, í hjúkrunar- og dvalarrýmum stofnana og í dagdvöl.

Annars stigs heilbrigðisþjónusta: Heilbrigðisþjónusta sem veitt er á sjúkrahúsum, heilbrigðis­stofn­unum og starfsstofum heilbrigðisstarfsmanna samkvæmt ákvörðun ráðherra eða samningum sem gerðir eru í samræmi við ákvæði VII. kafla laga um heilbrigðisþjónustu og lög um sjúkra­trygg­ingar og önnur þjónusta sem að jafnaði er ekki veitt á heilsugæslustöðvum og fellur ekki undir þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.

Þriðja stigs heilbrigðisþjónusta: Heilbrigðisþjónusta sem veitt er á sjúkrahúsi og krefst sér­stakrar kunnáttu, háþróaðrar tækni, dýrra og vandmeðfarinna lyfja og aðgengis að gjörgæslu.

 

5. gr.

Aðgengi.

Heilbrigðisstofnunum ber að tryggja jafnt aðgengi allra notenda heilbrigðisþjónustu að fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðisstofnanir skulu hafa með sér samráð um aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Jafnframt skulu heilbrigðisstofnanir tryggja samráð og eftirfylgni með notendum þjónustunnar þannig að samfella sé í veitingu heilbrigðisþjónustu milli heilbrigðisstofnana.

Heilbrigðisstofnanir skulu meðal annars nýta sér fjarheilbrigðisþjónustu til að tryggja aðgengi lands­manna að þjónustunni.

 

II. KAFLI

Hlutverk heilbrigðisstofnana.

6. gr.

Hlutverk forstjóra heilbrigðisstofnana.

Forstjóri ber, í samræmi við erindisbréf, ábyrgð á að starfsemi stofnunar sem hann stýrir starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Forstjóri ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem veitt er á þeirri heilbrigðisstofnun sem undir hann heyrir.

Forstjóra ber að tryggja að mönnun sé í samræmi við hlutverk heilbrigðisstofnunar.

Forstjóri skal leitast við að efla teymisvinnu og þverfaglegt samstarf milli heilbrigðisstofnana landsins.

 

7. gr.

Umbótastarf.

Heilbrigðisstofnanir skulu vinna að stöðugum umbótum og framþróun á starfsemi og þjónustu.

Heilbrigðisstofnanir skulu taka þátt í umbótastarfi sem heilbrigðisráðherra á hverjum tíma telur mikilvægt til þess að koma í kring umbótum í heilbrigðiskerfi landsins.

 

8. gr.

Upplýsingagjöf.

Heilbrigðisstofnanir skulu veita heilbrigðisráðuneyti upplýsingar um starfsemi og þjónustu stofn­ana þegar eftir því er óskað.

Heilbrigðisstofnanir skulu veita notendum heilbrigðisþjónustu í sínu umdæmi upplýsingar um starf­semi sína, starfsáætlun, gæðavísa, biðtíma og þjónustuframboð og hafa samráð við þá eftir þörfum.

 

9. gr.

Kennsla heilbrigðisstétta.

Heilbrigðisstofnanir skulu taka að sér kennslu heilbrigðisstétta á grundvelli samninga við háskóla­sjúkrahús, kennslusjúkrahús og/eða aðrar menntastofnanir.

 

10. gr.

Vísindarannsóknir.

Heilbrigðisstofnunum er heimilt að stunda eða taka þátt í vísindarannsóknum, meðal annars í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir og menntastofnanir í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.

 

11. gr.

Faglegar kröfur.

Heilbrigðisþjónusta skal fullnægja kröfum sem gerðar eru til þjónustunnar samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um landlækni og lýðheilsu, reglugerðum sem settar eru á grundvelli þeirra og samningum sem gerðir eru um þjónustuna.

 

III. KAFLI

Fagráð heilbrigðisstofnana.

12. gr.

Skipan og verklag fagráða.

Forstjóri heilbrigðisstofnunar skipar fagráð sem í sitja að minnsta kosti einn fulltrúi lækna, einn full­trúi hjúkrunarfræðinga og einn fulltrúi annarra heilbrigðisstétta sem eru í föstu starfi innan heilbrigðis­stofnunarinnar. Forstjórum stærri heilbrigðisstofnana er þó heimilt að skipa allt að sjö fulltrúa í fagráðið og skal við skipunina gæta jafnræðis milli fagstétta starfandi heilbrigðis­starfsmanna innan stofnunarinnar.

Forstjóra ber að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunarinnar en er þó ekki bundinn af álitinu.

Fagráð skal kjósa sér formann og annan til vara.

Fagráð skal setja sér starfsreglur sem staðfestar skulu af forstjóra.

Formaður fagráðs skal í samráði við forstjóra boða til upplýsinga- og samráðsfunda eftir því sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári.

Skipun í fagráð er tímabundin til þriggja ára.

 

IV. KAFLI

Heilbrigðisumdæmi og heilbrigðisstofnanir.

13. gr.

Heilbrigðisstofnanir í heilbrigðisumdæmum.

Í hverju heilbrigðisumdæmi eins og þau eru afmörkuð í reglugerð þessari skal starfrækt heil­brigðisstofnun eða heilbrigðisstofnanir sem veita fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu í umdæm­­inu á heilsugæslustöðvum og/eða sjúkrahúsum, meðal annars á göngu- og dagdeildum.

 

14. gr.

Forstjóri heilbrigðisstofnunar heilbrigðisumdæmis.

Forstjóri heilbrigðisstofnunar heilbrigðisumdæmis skal hafa forgöngu um þróun og eflingu heil­brigðis­þjónustu í umdæminu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og samvinnu við aðila sem veita heilbrigðisþjónustu í umdæminu.

Forstjóri skal boða landshlutasamtök sveitarstjórna í umdæmi sínu til samráðs- og upplýsinga­funda um starfsemi stofnunar og þróun þjónustunnar eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Séu fyrir­hugaðar grundvallarbreytingar á staðbundinni þjónustu skal hann jafnframt boða til samráðs- og upplýs­inga­funda með einstökum sveitarstjórnum.

 

15. gr.

Samráðsnefnd forstjóra heilbrigðisstofnana.

Forstjórar heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum og forstjórar Landspítalans, Sjúkra­hússins á Akureyri og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eiga sæti í samráðsnefnd for­stjóra heilbrigðis­stofnana. Nefndin kýs formann og annan til vara úr sínum hópi. Nefnd­inni er ætlað að skapa samráðs­vettvang þar sem forstjórar heilbrigðisstofn­ana miðla þekkingu og reynslu og stuðla að sameigin­legri þróun og hagkvæmni í rekstri heil­brigðis­þjónust­unnar. Ráðherra getur sett samráðs­nefnd for­stjóra heilbrigðisstofnana nánari starfs­reglur.

 

16. gr.

Þarfagreining og áætlanir.

Heilbrigðisstofnunum heilbrigðisumdæma ber að leggja mat á þörf íbúa heilbrigðisumdæmis fyrir heilbrigðisþjónustu og leggja fram áætlun um hvernig þeim þörfum skuli mætt.

Heilbrigðisstofnanir heilbrigðisumdæma skulu árlega gera starfsáætlun, áætlun um mönnun og mönnunarþörf sem tekur mið af þarfagreiningu skv. 1. mgr.

 

V. KAFLI

Heilsugæslustöðvar.

17. gr.

Aðgengi að heilsugæslustöð.

Hver einstaklingur skal eiga rétt á þjónustu heilsugæslu í sinni heimabyggð, að jafnaði á þeirri stöð sem er næst heimili hans.

Einstaklingur skal að jafnaði skráður á ákveðna heilsugæslustöð hjá tilteknum heimilislækni og skal heilbrigðisstofnun sem heilsugæslustöð tilheyrir leitast við að tryggja það. Ef ekki reynist unnt að skrá einstakling hjá tilteknum heimilislækni á heilsugæslustöðinni skal þess gætt að hann njóti sambærilegrar þjónustu á stöðinni og aðrir.

Heimilt er að skjóta ákvörðun forstjóra heilbrigðisstofnunar um að synja einstaklingi um skrán­ingu á heilsugæslustöð til ráðherra með kæru. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Sjúkratryggingar Íslands skulu hafa eftirlit með því að skrár heilsugæslustöðva séu uppfærðar reglu­lega.

Heilbrigðisstofnanir í hverju heilbrigðisumdæmi skulu hafa með sér samráð um skipulag heilsu­gæslunnar í umdæminu og aðgengi að henni. Komi upp ágreiningur milli heilbrigðisstofnana um skipulag og aðgengi að heilsugæslu í heilbrigðisumdæmi sker ráðherra úr.

Þrátt fyrir skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi skulu notendur heilbrigðisþjónustu eiga jafnan rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar sem þeir kjósa.

 

18. gr.

Hlutverk heilsugæslustöðva.

Heilsugæslustöðvar sinna fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu og eftir atvikum annars stigs heil­brigðis­þjónustu.

Skipulag heilsugæslustöðvar skal miða við að hún sé fyrsti viðkomustaður notenda heilbrigðis­þjónustu.

Heilsugæslustöðvar skulu viðhafa teymisvinnu og þverfaglegt samstarf, gagnreynd vinnubrögð og nýta leiðbeiningar frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

 

19. gr.

Þjónusta á heilsugæslustöðvum.

Á heilsugæslustöð eða á vegum hennar skal meðal annars veitt eftirfarandi þjónusta:

  1. Heimilislækningar, þar sem sinna skal bráðum og langvinnum heilsuvanda með áherslu á samfellda þjónustu í samræmi við þarfir notenda heilbrigðisþjónustu hverju sinni.
  2. Opin móttaka, þar sem bráðaerindum, smáslysum og bólusetningum er sinnt.
  3. Bókuð móttaka, þar sem meðal annars skal boðið upp á sárameðferðir, lyfjagjafir, smá­aðgerðir, leghálsskimanir og ferðamannaheilsuvernd.
  4. Heilsueflandi móttaka, þar sem einstaklingum með/eða í hættu á að fá fjölþættan og/eða lang­vinnan heilsuvanda er veitt heildræn og þverfagleg þjónusta. Áhersla skal lögð á styrk­leika einstaklings og fjölskyldu til að virkja áhugahvöt til lífsstílsbreytinga og sjálfshjálpar og þar með eflingu á lífsgæðum.
  5. Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og fullorðna sem felur í sér mat á vanda, meðferðaráætlun og sálfræðimeðferð, bæði einstaklings- og hópmeðferðir. Áhersla skal lögð á meðferð við þunglyndi, kvíða og áföllum þar sem vandinn er vægur eða miðlungs alvarlegur.
  6. Heilbrigðisþjónusta heim, fyrir þá einstaklinga sem hennar þarfnast. Bjóða skal upp á þver­faglega þjónustu þar sem heimahjúkrun er í forgrunni.

Á heilsugæslustöð eða á vegum hennar skal veita eftirfarandi heilsuvernd á tilteknum ævi­skeiðum:

  1. Meðgönguvernd, sem hefur það hlutverk að stuðla að heilbrigði mæðra og barna með fag­legri umönnun, stuðningi og ráðgjöf ásamt því að greina áhættuþætti og bregðast við þeim. Einnig skal stuðla að auknu öryggi og vellíðan foreldra og búa þá undir foreldrahlutverk sitt.
  2. Ung- og smábarnavernd, sem hefur það hlutverk að efla heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og fræðslu til fjölskyldna þeirra.
  3. Heilsuvernd skólabarna, sem hefur það hlutverk að efla heilbrigði grunnskólabarna og stuðla að vellíðan þeirra. Þjónustan skal að jafnaði veitt í skólum. Náin samvinna skal vera við skólayfirvöld, foreldra og aðra fagaðila sem koma að málefnum barna.
  4. Heilsuvernd eldra fólks, sem hefur það hlutverk að auðvelda eldra fólki aðgengi að heil­brigðis­þjónustu sem sniðin er að þörfum þess. Styðja og styrkja eldra fólk til sjálfshjálpar og viðhalda þannig andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði. Samhæfa þjónustu og auð­velda samskipti einstaklinga, þjónustuaðila og fjölskyldna til að tryggja sem besta samfellu í þjónustu.

Heilsugæslustöðvar skulu veita aðra heilbrigðisþjónustu, svo sem félagsráðgjöf, iðju- og sjúkra­þjálfun, næringarráðgjöf o.fl. í samræmi við ákvörðun ráðherra eða á grundvelli samninga sem gerðir eru á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu.

 

20. gr.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sinnir heilsugæslu í heilbrigðisumdæmi höfuðborgar­svæðis­ins.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins ber ábyrgð á samhæfingu krabbameinsskimana á landsvísu.

Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er umdæmisstjóri í heilbrigðisumdæmi höfuðborg­ar­svæðisins.

 

21. gr.

Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu.

Innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfar Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu sem leiðir faglega þróun innan heilsugæslu á landsvísu, vinnur að samræmingu verklags og samhæfingar milli fagfólks á heilsugæslustöðvum, gæðaþróun og framförum í heilsugæslu í samráði við heil­brigðis­stofnanir sem reka heilsugæslustöðvar og sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar.

Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ræður forstöðumann Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsu­gæslu.

Heilbrigðisráðherra skipar fagráð sem vinnur að stefnumörkun og tryggir tengsl við aðrar heil­brigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar. Í fagráðinu situr einn fulltrúi frá hverri heilbrigðis­stofnun sem rekur heilsugæslustöð, einn fulltrúi frá sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvum, einn fulltrúi frá heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands og einn fulltrúi frá heilbrigðisvísindasviði Háskól­ans á Akureyri ásamt forstöðumanni Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu sem veitir fagráðinu forystu. Fagráðið situr innan Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu og ber að skila starfsemis­áætlun til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til tveggja ára í senn.

 

VI. KAFLI

Hlutverk, starfsemi og þjónusta Landspítala.

22. gr.

Hlutverk Landspítala.

Hlutverk Landspítala er að:

  1. Vera aðalsjúkrahús og háskólasjúkrahús landsins.
  2. Veita heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu háskólasjúkrahúss, meðal annars sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræði, hjúkrunarfræði og eftir atvikum öðrum greinum heilbrigðisvísinda sem stundaðar eru hér á landi, með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknadeildum.
  3. Annast starfsnám háskólanema og framhaldsskólanema í heilbrigðisgreinum í grunn- og framhaldsnámi í samvinnu við menntastofnanir og aðrar heilbrigðisstofnanir.
  4. Stunda vísindarannsóknir á heilbrigðissviði.
  5. Veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum.
  6. Gera fagfólki kleift að sinna fræðastörfum við háskóla og veita þeim aðstöðu til þess að sinna rannsóknum og öðrum störfum við sjúkrahúsið.
  7. Starfrækja blóðbanka sem hefur með höndum blóðbankaþjónustu á landsvísu.
  8. Þróa náið samstarf við háskólasjúkrahús á Norðurlöndunum í því skyni að tryggja heil­brigðis­þjónustu sem ekki er hægt að veita hér á landi og opna möguleika fyrir nánari sam­skipti sérfræðinga, menntun heilbrigðisstarfsfólks og vísindasamstarf.
  9. Þróa nýjar aðferðir við heilbrigðisþjónustu og miðla nýrri kunnáttu til annarra heilbrigðis­stofnana á landinu.

 

23. gr.

Þjónusta Landspítala.

Landspítali skal veita annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.

Landspítali skal veita nauðsynlega sérfræðiþjónustu, meðal annars samkvæmt samningum við heilbrigðisstofnanir heilbrigðisumdæma og í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir.

Landspítala ber að þróa öfluga dag- og göngudeildarþjónustu þar sem notendur heilbrigðis­þjónustu sem þurfa álit sérfræðings geta komið samkvæmt beiðni læknis á heilsugæslu eða annarra sérfræðinga, óháð því hvort þeir hafa legið inni á spítalanum eða ekki.

Landspítali skal þróa samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir til að tryggja að notendur fái heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Landspítali ber ábyrgð á því að skilvirk verkferli séu þróuð í samvinnu við aðra þjónustuaðila.

 

24. gr.

Samstarf Landspítala og Háskóla Íslands.

Landspítali og Háskóli Íslands skulu gera með sér samning um samstarf sem skal meðal annars kveða á um reglulega samráðsfundi forstjóra Landspítala og háskólarektors. Landspítali og Háskóli Íslands skulu setja verklagsreglur um málefni starfsmanna sem hafa starfsskyldur gagnvart báðum stofnunum. Reglurnar skulu staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.

 

25. gr.

Aðild Landspítala að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum.

Landspítala er heimilt með samþykki ráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunar­fyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem spítalinn vinnur að hverju sinni. Forstjóri Landspítala fer með eignarhlut spítalans í slíkum fyrirtækjum.

 

VII. KAFLI

Hlutverk, starfsemi og þjónusta Sjúkrahússins á Akureyri.

26. gr.

Hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri.

Hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri er að:

  1. Vera kennslusjúkrahús og varasjúkrahús Landspítala.
  2. Veita heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu kennslusjúkrahúss, meðal annars sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræði, hjúkrunarfræði og eftir atvikum öðrum greinum heilbrigðisvísinda sem stundaðar eru hér á landi, með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknadeildum.
  3. Annast starfsnám háskólanema og framhaldsskólanema í heilbrigðisgreinum í grunn- og framhaldsnámi í samvinnu við menntastofnanir og aðrar heilbrigðisstofnanir.
  4. Veita háskólamenntuðum starfsmönnum sérmenntun í heilbrigðisgreinum.
  5. Gera fagfólki kleift að sinna fræðastörfum við háskóla og veita þeim aðstöðu til þess að sinna rannsóknum og öðrum störfum við sjúkrahúsið.

 

27. gr.

Þjónusta Sjúkrahússins á Akureyri.

Sjúkrahúsið á Akureyri skal veita annars stigs heilbrigðisþjónustu og að einhverju leyti þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítali skulu hafa með sér samráð um veitingu á þriðja stigs heilbrigðisþjónustu.

Sjúkrahúsið á Akureyri skal veita nauðsynlega sérfræðiþjónustu, meðal annars samkvæmt samn­ingum við heilbrigðisstofnanir heilbrigðisumdæma og í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir.

Sjúkrahúsið á Akureyri skal þróa öfluga dag- og göngudeildarþjónustu þar sem notendur heil­brigðis­þjónustu sem þurfa álit sérfræðings geta komið samkvæmt beiðni heilsugæslulæknis eða annarra sérfræðinga, óháð því hvort þeir hafi legið inni á sjúkrahúsinu eða ekki.

Sjúkrahúsið á Akureyri skal þróa samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir til að tryggja að notendur fái heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Sjúkrahúsið á Akureyri ber ábyrgð á því að skilvirk verkferli séu þróuð í samvinnu við aðra þjónustuaðila.

 

28. gr.

Aðild Sjúkrahússins á Akureyri að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum.

Sjúkrahúsinu á Akureyri er heimilt með samþykki ráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunar­fyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem spítalinn vinnur að hverju sinni. Forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri fer með eignarhlut spítalans í slíkum fyrir­tækjum.

 

VIII. KAFLI

Gildistaka.

29. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 1. mgr. 5. gr., 3. mgr. 6. gr., 2. mgr. 7. gr., 2. mgr. 7. gr. a, 2. mgr. 7. gr. b, 3. mgr. 13. gr. og 38. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðar þessarar falla úr gildi reglugerðir nr. 787/2007, um heilsugæslustöðvar, með síðari breytingum, og nr. 1084/2014, um heilbrigðis­umdæmi, með síðari breytingum.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 2. nóvember 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Elsa B. Friðfinnsdóttir.

 

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica