Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

229/2005

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur osteópata. - Brottfallin

1. gr.

Rétt til þess að bera starfsheitið osteópati og starfa sem slíkur hefur sá einn, sem til þess hefur leyfi heilbrigðisráðherra.


2. gr.

Leyfi samkvæmt 1. gr. má veita þeim sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
Osteópati skal hafa lokið a.m.k. 4 ára námi í osteópatíu auk verklegs náms sem skal ljúka með B.S. gráðu (bachelor of science), sambærilegri eða hærri gráðu. Umsækjendur skulu hafa næga kunnáttu í réttarreglum er lúta að starfi þeirra. Leita skal umsagnar landlæknis og viðeigandi stéttarfélags áður en leyfi er veitt. Um staðfestingu starfsleyfa umsækjenda af evrópska efnahagssvæðinu fer skv. 10. gr. reglugerðar nr. 244/1994.


3. gr.

Nú uppfyllir umsækjandi skilyrði 3. gr. að öðru leyti en því að hann hefur lokið prófi utan hins evrópska efnahagssvæðis, er þá ráðherra heimilt að veita honum ótakmarkað eða tímabundið leyfi að fenginni umsögn landlæknis og stéttarfélags, enda sanni hann nægilega kunnáttu í íslensku.


4. gr.

Starfsvettvangur osteópata er á heilbrigðisstofnunum og eigin stofum. Starfssvið osteópata er meðhöndlun á stoðkerfi líkamans. Ekki má osteópati taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni.


5. gr.

Osteópata er heimilt að hafa sér til aðstoðar starfsfólk sem ávallt skal starfa á ábyrgð hans.


6. gr.

Um þagnarskyldu osteópata og starfsmanna þeirra gilda ákvæði laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997.


7. gr.

Osteópata ber að þekkja skyldur sínar, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er varða starfið.


8. gr.

Osteópatar skulu færa sjúkraskrá um þá sem til þeirra leita í samræmi við ákvæði laga um réttindi sjúklinga og aðrar skýrslur í samræmi við fyrirmæli landlæknis.


9. gr.

Verði landlæknir þess var að osteópati vanræki skyldur sínar, fari út fyrir verksvið sitt eða brjóti í bága við fyrirmæli laga eða heilbrigðisyfirvalda, skal hann áminna viðkomandi. Nú kemur áminning ekki að haldi og skal landlæknir þá senda málið til ráðherra með tillögu um hvað gera skuli. Um osteópata gilda að öðru leyti ákvæði læknalaga nr. 53/1988.


10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta, öðlast þegar gildi.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 15. febrúar 2005.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica