Heilbrigðisráðuneyti

207/2010

Reglugerð um gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli. - Brottfallin

1. gr.

Sjúkrahótel er tímabundinn dvalarstaður fyrir sjúklinga sem þurfa heilsu sinnar vegna að dvelja fjarri heimili sínu vegna rannsókna og/eða meðferðar en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda. Sjúkrahótel er ekki heilbrigðisstofnun í skilningi laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu. Sjúklingur sem dvelur á sjúkrahóteli getur ekki verið innritaður á sjúkrahús á sama tíma.

2. gr.

Sjúklingar sem dvelja á sjúkrahóteli greiða gjald sem hér segir:

  1. Sjúkratryggðir greiða hluta kostnaðar við fæði og gistingu, kr. 1.200 á dag.
    Hjúkrunarþjónusta sem veitt er í húsnæði sjúkrahótels er þeim sjúkratryggðum sem þar dvelja að kostnaðarlausu. Um kostnað vegna annarrar heilbrigðis­þjónustu og aðstoðar, þar með talin lyf og hjúkrunarvara, fer samkvæmt gildandi reglugerðum þar að lútandi.
  2. Ósjúkratryggðir greiða gjald sem nemur öllum kostnaði sem til fellur vegna dvalar á sjúkrahóteli nema í gildi sé milliríkjasamningur um þjónustuna við það ríki sem þeir koma frá. Gjald vegna fæðis og gistingar er kr. 18.000 á dag.
    Ósjúkratryggðir greiða gjald vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í húsnæði sjúkrahótels samkvæmt reglugerð nr. 1079/2009 um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og greiðslur þeirra fyrir heilbrigðisþjónustuna. Annan kostnað, svo sem kostnað vegna lyfja og hjúkrunarvara, greiða þeir að fullu.

3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 8. tölul. 1. mgr. og 3. mgr. 29. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, öðlast þegar gildi.

Heilbrigðisráðuneytinu, 11. mars 2010.

Álfheiður Ingadóttir.

Berglind Ásgeirsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica