Fara beint í efnið

Prentað þann 20. apríl 2024

Brottfallin reglugerð felld brott 21. des. 2023

1421/2022

Reglugerð um desemberuppbætur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna árið 2022.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um desemberuppbætur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna fyrir desember 2022.

Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd reglugerðarinnar.

2. gr. Desemberuppbót.

Foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns sem fær greiðslu í desember 2022 samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna á rétt á desemberuppbót að fjárhæð 68.837 kr. enda hafi foreldrið fengið mánaðarlegar greiðslur allt árið 2022.

Foreldri sem hefur fengið greiðslur skemur en tólf mánuði á árinu 2022 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót skv. 1. mgr. í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Miða skal við 1/12 fyrir hvern mánuð.

Desemberuppbót skv. 2. mgr. skal þó aldrei nema lægri fjárhæð en 17.209 kr.

3. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 31. gr. laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1409/2021, um desemberuppbætur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna árið 2021.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 15. desember 2022.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.