Forsætisráðuneyti

746/2001

Reglugerð um Kristnihátíðarsjóð. - Brottfallin

Fellur brott þegar lög 12/2001 um Kristnihátíðarsjóð falla brott í árslok 2005.
 
 
Fjárheimildir.
1. gr.

Ráðstöfunarfé Kristnihátíðarsjóðs er samkvæmt fjárlögum fyrir árin 2001 til 2005. Fjárveitingum til sjóðsins skal varið til styrkja samkvæmt lögum um Kristnihátíðarsjóð, nr. 12/2001.

2. gr.

Hlutverk sjóðsins er tvíþætt:

a. að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn;
b. að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.


Stjórn sjóðsins ákveður árlega skiptingu á ráðstöfunarfé hans milli þessara tveggja meginsviða og til reksturs sjóðsins.

Forsætisráðuneytið útbýr árlega greiðsluáætlun á grundvelli ákvarðana sjóðsstjórnar um skiptingu ráðstöfunarfjár. Fjárvarsla sjóðsins er hjá ráðuneytinu, sem jafnframt veitir sjóðsstjórn nauðsynlega ritara- og skrifstofuþjónustu.


Auglýsingar og umsóknir.
3. gr.
Stjórn sjóðsins skal árlega auglýsa eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Auglýsing um þetta skal birt í a.m.k. einu dagblaði sem telst hafa almenna dreifingu um allt land. Í auglýsingu þessari skulu koma fram greinargóðar upplýsingar um tilgang og hlutverk sjóðsins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, um eyðublöð fyrir umsóknir, hvar þau sé að finna, hvert eigi að senda umsóknir og hvenær þær skulu hafa borist.

Styrkjum úr sjóðnum skal úthluta á grundvelli umsókna, sbr. 4. gr., er berast innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í auglýsingu.


4. gr.

Umsóknir um styrki úr sjóðnum skulu ritaðar á eyðublöð er stjórn sjóðsins leggur til og hefur aðgengileg meðan umsóknarfrestur varir. Í umsókn skal eftirtalið koma fram:

- almennar upplýsingar um umsækjanda, nafn verkefnisstjóra og annarra þátttakenda, og samstarfsaðila, ef einhverjir eru;
- hnitmiðuð lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu;
- tímaáætlun og lýsing á aðstöðu þátttakenda til að vinna verkefnið;
- upplýsingar um nýnæmi og gildi verkefnis og stöðu þekkingar á viðfangsefninu, þ. á m. hvers er vænst að verkefnið muni bæta við þá þekkingu;
- verkáætlun, lýsing á aðferðafræði, áfangaskiptingu og helstu verkþáttum;
- upplýsingar um menntun og fræðilegan bakgrunn umsækjanda og þátt ungra vísindamanna í verkefninu eða gildi þess fyrir vísindalega þjálfun þeirra;
- hvernig staðið verði að stjórnun verkefnis;
- greinargóðar upplýsingar um áætlaðan kostnað við verkefnið;
- hvernig staðið verði að bókhaldsumsjón með verkefninu.


Mat á umsóknum.
5. gr.
Verkefnisstjórnir meta styrkhæfi umsókna, hvor á sínu sviði, og gera tillögur til sjóðsstjórnar um afgreiðslu þeirra.

Sjóðsstjórn getur sett verkefnisstjórnum ákveðna fresti í þessu skyni.


6. gr.

Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum:

- gildi og mikilvægi verkefnis með tilliti til þeirra markmiða sem Kristnihátíðarsjóði eru sett;
- líkum á því að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum er verkefnið miðar að;
- starfsferli og faglegum eða fræðilegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda m.t.t. þeirra krafna sem verkefnið gerir til þeirra.

Verkefnisstjórnum er heimilt að leita eftir ráðgjöf eða umsögn sérfræðinga við mat á einstökum umsóknum.


Tillögur verkefnisstjórna.
7. gr.
Verkefnisstjórnir skulu gera tillögur til sjóðsstjórnar um ráðstöfun þeirra fjármuna sem fyrirhugað er að veita til verkefna á hvoru sviði á ári hverju. Þær skulu vera skriflegar og í stuttu máli gera sjóðsstjórn almenna grein fyrir starfi verkefnisstjórnar og þeim umsóknum sem borist hafa, meðferð þeirra og mati á þeim.

Sérhverri umsókn skal fylgja stutt umsögn ásamt rökstuddri tillögu um afgreiðslu hennar.


Ákvarðanir stjórnar Kristnihátíðarsjóðs.
8. gr.
Sjóðsstjórn tekur afstöðu til afgreiðslu umsókna á grundvelli tillagna verkefnisstjórna.

Stjórn sjóðsins er heimilt að binda styrkveitingar skilyrðum er stuðla að eðlilegri framvindu þeirra verkefna sem styrkt eru. Í þeim tilvikum kemur styrkur ekki til greiðslu, nema að uppfylltum þessum skilyrðum. Heimilt er að fela verkefnisstjórn á hvoru sviði að hafa eftirlit með að svo sé. Í því skyni er heimilt að krefja styrkþega um skýrslur um framvindu þess verkefnis sem styrkt er.


Tilkynning um afgreiðslu umsókna.
9. gr.
Sjóðsstjórn tilkynnir umsækjendum skriflega um afgreiðslu umsókna þeirra. Umsækjendum um styrki til verkefna, sem fallist er á að styrkja, skal jafnframt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og viðurlög, ef út af bregður.


Greiðsla styrkja og eftirlit með framkvæmd verkefna.
10. gr.
Forsætisráðuneytið annast greiðslu styrkja samkvæmt skriflegri beiðni frá stjórn Kristnihátíðarsjóðs. Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á þau skilyrði sem styrkveiting er bundin.


11. gr.
Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi önnur skilyrði, sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka, getur stjórn sjóðsins, að tillögu verkefnisstjórnar, tekið ákvörðun um að fella styrkveitingu niður.


12. gr.
Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, getur sjóðsstjórn krafist þess að sjóðnum verði endurgreiddur styrkur í heild eða að hluta.


13. gr.
Áður en ákvörðun skv. 11. eða 12. gr. er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.


Styrktímabil.
14. gr.
Styrkir úr Kristnihátíðarsjóði skulu veittir til eins árs í senn. Sótt skal um árlega til verkefna sem taka til lengri tíma. Sjóðsstjórn getur ákveðið, að tillögu verkefnisstjórnar, að veita vilyrði fyrir áframhaldandi styrkveitingum til verkefna sem taka til fleiri ára á starfstíma sjóðsins. Slík vilyrði eru þó aldrei bindandi af hálfu sjóðsins.


Gildistaka o.fl.
15. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 12/2001, um Kristnihátíðarsjóð, öðlast gildi við birtingu. Jafnframt er stjórn sjóðsins heimilt að setja verkefnisstjórnum á hvoru sviði nánari fyrirmæli um störf þeirra og tillögur og eftirlit með verkefnum og framvindu þeirra.


Forsætisráðuneytinu, 28. september 2001.

Davíð Oddsson.
Guðmundur Árnason.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica