Fara beint í efnið

Prentað þann 2. maí 2024

Stofnreglugerð

630/2023

Reglugerð um meðferð og nýtingu þjóðlendna.

I. KAFLI Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til þjóðlendna, sbr. lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja að meðferð og hagnýting þjóðlendna sé í samræmi við almannahagsmuni hverju sinni með sjónarmið verndunar, sjálfbærrar nýtingar, dreifðrar aðildar að tímabundnum samningum, gagnsæis og jafnræðis að leiðarljósi ásamt því að hæfilegt endurgjald komi fyrir nýtingu lands og landsréttinda.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:

Afnot: Hvers konar tímabundin not einkaaðila á landi eða landsréttindum þar með talið að reisa mannvirki, gera jarðrask og nýta hlunnindi innan þjóðlendna.

Almenn auglýsing: Auglýsing sem er birt opinberlega, t.d. með auglýsingu í dagblaði sem gefið er út á landsvísu eða í öðrum fjölmiðlum sem ná til alls landsins.

Raunverulegur eigandi: Raunverulegur eigandi í skilningi 13. tölul. 3. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018.

Tengdir aðilar: Tengdir aðilar í skilningi alþjóðlegra reikningsskilastaðla sem innleiddir eru á grundvelli laga um ársreikninga og reglugerða settra með stoð í þeim.

Tímabundinn leigusamningur sveitarfélaga: Samningur sem sveitarfélag gerir á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 um tímabundin afnot af landi og landsréttindum innan þjóðlendu til lengri tíma en eins árs eða um tímabundin afnot af námu og öðrum jarðefnum innan þjóðlendu og háður er samþykki forsætisráðuneytisins.

Þjóðlenda: Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.

II. KAFLI Meðferð og nýting þjóðlendna.

4. gr. Almennt um afnot.

Íslenska ríkið fer með eignarheimildir landeiganda innan þjóðlendna.

Forræði á ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna er skipt milli ráðherra og sveitarstjórna.

Ákvæði reglugerðar þessarar raska ekki sannanlegum réttindum annarra en ríkisins innan þjóðlendna sem til voru komin fyrir gildistöku laga nr. 58/1998.

5. gr. Leyfi fyrir afnotum.

Sveitarfélög skulu við leyfisveitingu um tímabundin afnot af landi og landsréttindum tryggja að:

  1. ekki séu heimiluð tímabundin afnot sem vara eiga lengur en í eitt ár eða tímabundin afnot af námu og öðrum jarðefnum án undangenginnar almennrar auglýsingar, þar sem áhugasömum aðilum er gefinn kostur á að lýsa vilja til að hljóta réttinn til þeirra tímabundnu afnota sem fyrirhuguð eru,
  2. ákvörðun um val á aðila til að nýta tímabundið land og landsréttindi innan þjóðlendu sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum að undangenginni málsmeðferð í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga eða annarra laga,
  3. hæfilegt endurgjald sé greitt fyrir afnotin,
  4. heimilaður nýtingartími sé sanngjarn miðað við eðli nýtingar, þá fjárfestingu sem fyrirhuguð er í tengslum við afnotin og það að um aðgang að takmörkuðum gæðum er að ræða,
  5. leyfishafi fái við lok leigutíma bættan beinan og sannanlegan kostnað sem hann hefur lagt í vegna forsvaranlegrar og eðlilegrar uppbyggingar á lóðum, mannvirkjum og föstum búnaði á leigutíma, framreiknað til núvirðis þegar innlausn á sér stað, að teknu tilliti til afskrifta, þó aldrei hærra en sem nemur markaðsvirði á almennum markaði, enda sé ekki samið við hann að nýju, að undangenginni almennri auglýsingu um sömu tímabundnu afnot af landi og landsréttindum eða að forsætisráðuneytið eða viðkomandi sveitarstjórn ákveði að bjóða ekki út hin tímabundnu afnot að nýju,
  6. afnotin séu ekki heimiluð ef þau samrýmast ekki landskipulagsstefnu og aðgerðaráætlun sem er hluti af stefnunni, skipulagsáætlunum sveitarfélags, verndar- og orkunýtingaráætlun eða niðurstöðu um mat á áhrifum ef við á,
  7. aðild að tímabundnum leigusamningum um afnot af landi og landsréttindum sem sveitarfélög veita sé fjölbreytt, sbr. 6. gr.,
  8. afnot séu ekki heimiluð nema væntanlegur leyfishafi, sé hann lögaðili, hafi nægilega gagnsætt eignarhald og stjórnskipulag þannig að ráða megi, af viðhlítandi gögnum og upplýsingum sem hann leggur fram, hverjir raunverulegir eigendur hans eru og hvernig keðju eigenda og yfirráða er að öðru leyti háttað,
  9. afnot séu ekki veitt aðila sem kemur fram sem umboðsmaður eða milliliður í þágu þriðja aðila án þess að upplýst sé um það og hver sá þriðji aðili er,
  10. leyfi sé ekki veitt ef það er óheimilt, eða háð samþykki hlutaðeigandi ráðherra eða annars stjórnvalds, samkvæmt lögum nr. 19/1966 um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, jarðalögum nr. 81/2004, eða öðrum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem við geta átt,
  11. ekki séu heimiluð einkaafnot einstaklinga eða lögaðila,
  12. afnotin séu í samræmi við sjónarmið um sjálfbæra nýtingu.

6. gr. Aðild að tímabundnum leigusamningum sveitarfélaga.

Enginn má vera aðili að hærra hlutfalli allra tímabundinna leigusamninga allra sveitarfélaga innan þjóðlendna en sem nemur 20 hundraðshlutum, hvort heldur einstakur aðili eða tengdir aðilar samanlagt. Samningar sem Vatnajökulsþjóðgarður gerir um afnot af landi og landsréttindum á þjóðlendum innan þjóðgarðsins samkvæmt heimild í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð teljast einnig með.

Óheimilt er að framselja réttindi og skyldur samkvæmt leyfi eða leigusamningi nema með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Slíkt framsal er einnig háð samþykki ráðherra ef afnotin eru með þeim hætti sem lýst er í 7. gr., óháð því hversu mikið er þá eftir af afnotatímanum. Við mat á því hvort framsal skuli samþykkt skal gæta að 5. gr. og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar eftir því sem við á.

Fyrirmæli 2. mgr. um samþykki sveitarfélags og eftir atvikum ráðherra gilda einnig um breytingu á raunverulegum eiganda eða eigendum afnotahafa meðan á afnotatíma stendur, eftir því sem við á.

7. gr. Samþykki ráðherra fyrir afnotum.

Samþykki ráðherra þarf fyrir tímabundnum afnotum af landi og landsréttindum innan þjóðlendna, sem háð er leyfi sveitarstjórna, ef afnotin eru heimiluð til lengri tíma en eins árs. Þá þarf samþykki ráðherra fyrir öllum tímabundnum afnotum á námum og öðrum jarðefnum.

Í samþykki ráðherra felst staðfesting á að málsmeðferð sveitarstjórnar við leyfisveitinguna sé í samræmi við ákvæði 5. og 9. gr. og aðrar skráðar sem óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar.

8. gr. Ráðstöfun sveitarfélaga á tekjum fyrir afnot.

Tekjum sem falla til sveitarfélaga vegna gjaldtöku fyrir afnot lands og landgæða innan þjóðlendna skal verja sérstaklega í þágu verkefna innan þjóðlendna í því sveitarfélagi þar sem tekjurnar falla til.

Undir verkefni skv. 1. mgr. fellur eftirlit og önnur umsýsla með þjóðlendum, uppbygging innviða, skipulagsáætlanagerð, landbætur og sambærileg verkefni eins og verndun vistkerfa og endurheimt gróðurþekju, stígagerð, uppbygging og viðhald vegaslóða og annarra mannvirkja.

III. KAFLI Málsmeðferð við samningsgerð sveitarfélaga um tímabundin afnot af landi og landsréttindum.

9. gr. Stofnun lóða o.fl.

Áður en sveitarfélög hefjast handa við úthlutun á tímabundnum afnotum af landi og landsréttindum skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998 þarf að liggja fyrir:

  1. að þjóðlendan þar sem fyrirhugað er að úthluta tímabundnum afnotum af landi og landsréttindum sé til í fasteignaskrá og þinglýsingabók,
  2. að lóð sem ætlunin er að úthluta tímabundið sé til í fasteignaskrá og þinglýsingabók,
  3. að lóð sem ætlunin er að úthluta tímabundið sé afmörkuð í skipulagsáætlunum,
  4. niðurstaða um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda samfara tímabundinni úthlutun á afnotum á landi og landsréttindum.

Forsætisráðuneytinu er heimilt að veita sveitarfélögum undanþágu frá ákvæðum b-d-liðar, ef sérstakar ástæður standa til þess.

10. gr. Samningur um tímabundin afnot af landi og landsréttindum.

Hyggist sveitarfélag úthluta tímabundið afnotum af landi og landsréttindum innan þjóðlendu skal það senda forsætisráðuneytinu erindi þar sem upplýst er að uppfyllt séu skilyrði fyrir úthlutun sem fram koma í 9. gr. og yfirlýsingu um að gætt verði að skilyrðum 5. gr. við úthlutunina.

Forsætisráðuneytið veitir skriflegt samþykki fyrir því að sveitarfélagið hefjist handa um tímabundna úthlutun á afnotum af landi og landsréttindum innan þjóðlendu enda sé skilyrðum 1. mgr. fullnægt.

Að undangenginni málsmeðferð sem samræmist reglugerðinni og að öðru leyti skráðum sem óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar skal sveitarfélagið senda forsætisráðuneytinu undirritaðan samning sveitarfélagsins og viðsemjenda í fjórum eintökum til undirritunar. Skal jafnframt gera ráðuneytinu grein fyrir hvernig staðið var að málsmeðferð við tímabundna úthlutun á afnotum af landi og landsréttindum og að öðru leyti gætt að ákvæðum 5. og 9. gr.

Ef fyrirhuguð tímabundin úthlutun sveitarfélagsins á afnotum af landi og landsréttindum er í samræmi við reglugerðina og skráðar sem óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar undirritar forsætisráðuneytið samninginn til staðfestingar á því. Ráðuneytið heldur eftir einu eintaki og sendir sveitarfélaginu þrjú undirrituð eintök ásamt yfirlýsingu um að málsmeðferðin sé í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Sveitarfélagið þinglýsir einu eintaki af samningnum á hina úthlutuðu lóð í framhaldi af undirritun forsætisráðuneytisins.

11. gr. Ágreiningur um veitingu leyfa um tímabundin afnot af landi og landsréttindum.

Rísi ágreiningur um leyfisveitingu sveitarfélags um tímabundin afnot af landi og landsréttindum sem eiga að vara í skemmri tíma en eitt ár sker ráðuneytið úr um hann á grundvelli heimildar í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998.

12. gr. Gildistaka og lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 2. mgr. 4. gr. laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 og öðlast þegar gildi.

Forsætisráðuneytinu, 17. júní 2023.

Katrín Jakobsdóttir.

Bryndís Hlöðversdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.