Forsætisráðuneyti

575/2016

Reglugerð um verndarsvæði í byggð.

I. KAFLI

Mat á varðveislugildi svæða í byggð.

1. gr.

Mat á varðveislugildi svæða.

Við framkvæmd mats á varðveislugildi byggðar skal sveitarstjórn m.a. líta til heildarásýndar byggðar og huga að samspili ólíkra þátta í umhverfinu, heildarsvip bygginga á svæðinu, sam­eigin­legum einkennum byggðarinnar og tengslum hennar við staðhætti og umhverfi. Slíkt mat skal hafa víða skírskotun til sögu byggðarinnar og listræns gildis hennar sem nánar tiltekið felst í sér­kennum í byggingarlist og stílbrigðum sem einkenna byggðina og gefa henni ákveðið heildar­yfirbragð sem hefur varðveislugildi umfram það sem á við um einstök hús innan hennar. Líta skal til einkenna byggðar sem eiga sér sögulegar forsendur og tengst geta atvinnusögu, búsetu­háttum og menningarlífi á tilteknum stað.

2. gr.

Auglýsingar um tillögu að verndarsvæði.

Auglýsing tillögu sveitarstjórnar til ráðherra um að tiltekin byggð verði gerð að verndarsvæði skal vera skýr um efni sitt.

Í auglýsingu skal geta útmarka svæðisins og tillagna að skilmálum sem til skoðunar er að um byggðina gildi. Reifa skal ítarlega þau gögn sem aflað hefur verið við vinnslu tillögunnar. Þá skulu í auglýsingu reifaðar röksemdir fyrir varðveislugildi byggðarinnar. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta og öðrum þeim sem koma vilja sjónarmiðum á framfæri gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Taka skal fram hvert skila skuli athugasemdum.

Auglýsa skal tillögu um að tiltekin byggð verði gerð að verndarsvæði á áberandi hátt, svo sem í staðarblaði eða með sérstöku kynningarefni sem aðgengilegt er íbúum sveitarfélagsins, eigi skemur en í sex vikur. Þá skal tillagan jafnframt liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins eða á öðrum opinberum stað og vera auk þess aðgengileg á netinu.

Ákvæði greinarinnar gilda einnig um auglýsingu Minjastofnunar Íslands vegna tillögugerðar stofn­unar­innar til ráðherra.

II. KAFLI

Ákvörðun um verndarsvæði í byggð.

3. gr.

Tillaga til ráðherra.

Tillaga sveitarstjórnar til ráðherra um að tiltekin byggð verði gerð að verndarsvæði skal vera skýr og greinargóð.

Í tillögu skal tiltaka útmörk þeirrar byggðar sem lagt er til að verði gerð að verndarsvæði, hvaða bygg­ingar og önnur mannvirki falla þar undir og hvaða skilmálar eru gerðir um vernd og upp­bygg­ingu innan svæðisins.

Í greinargerð með tillögu skal fjalla um varðveislugildi þeirrar byggðar sem lagt er til að verði gerð að verndarsvæði. Skal færa rök fyrir listrænu eða menningarsögulegu gildi svæðisins, ásamt því að fjalla um svipmót, umhverfisgildi og upprunaleika byggðarinnar. Þá skal fjalla um samráð sem átt hefur sér stað við gerð tillögunnar, hvaða athugasemdir bárust sveitarstjórn og hvernig var brugðist við þeim. Einnig skal geta þeirra gagna sem aflað var og litið til við tillögugerðina.

Ákvæði greinarinnar gilda einnig um tillögu Minjastofnunar Íslands til ráðherra um að tiltekin byggð verði gerð að verndarsvæði.

4. gr.

Ákvörðun ráðherra.

Ákvörðun ráðherra um að tiltekin byggð verði gerð að verndarsvæði skal vera skýr um efni sitt. Í ákvörðuninni skal geta útmarka svæðisins, innan hvaða sveitarfélags verndarsvæðið er og þeirra skilmála sem um vernd og uppbyggingu svæðisins gilda.

III. KAFLI

Takmarkanir innan verndarsvæða í byggð.

5. gr.

Sjónarmið við mat á því hvort leyfa eigi framkvæmd innan verndarsvæða.

Við mat á því hvort leyfa eigi framkvæmd innan verndarsvæðis skal sveitarstjórn taka annars vegar mið af þeim skilmálum sem fram koma í ákvörðun ráðherra um að gera tiltekna byggð að verndar­svæði og hins vegar tryggja að varðveislugildi byggðar sé ekki stefnt í hættu eða verndar­gildi hennar rýrt með hinum fyrirhuguðu framkvæmdum. Þannig skal tryggt að markmið verndar haldist og sé ekki stefnt í hættu vegna þeirra framkvæmda sem óskað er eftir leyfi fyrir, heldur verði tryggt að framkvæmdir raski ekki þeim sérkennum í byggingarlist og umhverfi sem vernd­inni er ætlað að tryggja.

6. gr.

Auglýsing um framkvæmdir innan verndarsvæða.

Auglýsing sveitarstjórnar um fyrirhugaðar framkvæmdir innan verndarsvæðis skal miða að því að tryggja aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ákvörðun sveitarstjórnar um leyfi fyrir framkvæmdum innan verndarsvæðis. Auglýsa skal á áberandi hátt, svo sem í staðarblaði.

Í auglýsingu um fyrirhugaðar framkvæmdir innan verndarsvæðis skal sveitarstjórn geta þeirra skilmála sem um verndarsvæðið gilda samkvæmt ákvörðun ráðherra um verndarsvæði og reifa röksemdir fyrir varðveislugildi byggðarinnar. Lýsa skal hinni fyrirhuguðu framkvæmd, hversu lengi ætlunin er að framkvæmdir standi yfir og hvernig staðið verði að framkvæmdum að öðru leyti.

Auglýsingu skulu fylgja teikningar og aðrir uppdrættir sem lýsa hinni fyrirhuguðu framkvæmd sem og myndir af framkvæmdarsvæði eins og það er fyrir framkvæmdir og hvernig ætlunin er að það líti út að framkvæmdum loknum.

IV. KAFLI

Nauðsynleg verk innan verndarsvæða í byggð.

7. gr.

Heimild sveitarstjórna til að vinna verk innan verndarsvæða.

Sveitarstjórn skal leggja mat á þær framkvæmdir sem ráðist hefur verið í innan verndarsvæðis með hliðsjón af varðveislugildi viðkomandi byggðar samkvæmt ákvörðun ráðherra um að tiltekið svæði sé verndarsvæði. Við það mat skal litið til þeirra skilmála sem um verndarsvæðið gilda og að athafnir aðila innan verndarsvæðis stefni ekki varðveislugildi þess í hættu eða rýri gildi þess.

Ef niðurstaða sveitarstjórnar er að framkvæmd sé ekki í samræmi við skilmála sem um svæðið gilda getur sveitarstjórn látið vinna nauðsynleg verk á mannvirki innan verndarsvæðisins á kostnað eiganda þess.

Sveitarstjórn skal senda eiganda þess mannvirkis, sem ráðist hefur verið í framkvæmdir á án leyfis, áskorun um að úr verði bætt innan hæfilegs frests. Skal í slíkri áskorun geta þeirra skilmála sem að mati sveitarstjórnar eru brotnir með framkvæmdinni, rökstyðja verndargildi svæðisins og hvernig því er stefnt í hættu eða það rýrt með framkvæmdinni. Tryggja skal að frestur til úrbóta sé nægilega langur, svo að eiganda mannvirkis sé unnt að bregðast við með nauðsynlegum úrbótum sem tryggja varðveislugildi verndarsvæðisins.

Áður en sveitarstjórn tekur endanlega ákvörðun um að tiltekin verk verði unnin á kostnað eiganda mannvirkis skal leita samþykkis ráðherra. Ráðherra staðfestir með samþykki sínu að málsmeðferð sveitarstjórnar sé lögum samkvæmt.

V. KAFLI

Ýmis ákvæði.

8. gr.

Merking verndarsvæða í byggð.

Minjastofnun Íslands útvegar merki sem sveitarstjórnum er heimilt að nota til að auðkenna verndar­svæði í byggð og kynningarefni sem sveitarstjórn gefur út um viðkomandi verndarsvæði.

9. gr.

Reglugerðarheimild og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6. mgr. 4. gr., 3. mgr. 5. gr., 5. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 8. gr. laga um verndarsvæði í byggð, nr. 87/2015, og öðlast þegar gildi.

Forsætisráðuneytinu, 9. júní 2016.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Arnljótsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica