Samkeppnismál

214/2006

Reglugerð um aðskilið bókhald hjá fyrirtækjum sem veitt eru sérstök réttindi eða einkaréttur, eða falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu, skv. 59. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og stunda einnig aðra starfsemi. - Brottfallin

Markmið.

1. gr.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2000/52/EB frá 26. júlí 2000 um breytingu á tilskipun framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 80/723/EBE um gagnsæi fjármálatengsla milli aðildarríkjanna og opinberra fyrirtækja, með síðari breytingum.

Skilgreiningar.

2. gr.

Merking orða og hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:

Einkaréttur: Réttur sem veittur er einu fyrirtæki með laga- eða stjórnsýslufyrirmælum og áskilur því rétt til að veita tiltekna þjónustu eða stunda ákveðna starfsemi.

Fyrirtæki sem skylt er að færa aðskilið bókhald: Öll fyrirtæki, sem veittur er sérstakur réttur eða einkaréttur skv. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahags­svæðið, eða falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu skv. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og sem njóta hvers konar ríkisaðstoðar í tengslum við slíka þjónustu, og stunda einnig aðra starfsemi.

Mismunandi starfsemi: Annars vegar allar vörur eða þjónusta sem fyrirtæki fær sérstakan rétt eða einkarétt á sem og öll þjónusta sem fyrirtæki er falið að veita og hefur almenna efnahagslega þýðingu, og hins vegar öll önnur vara eða þjónusta viðkomandi fyrirtækis.

Opinber yfirvöld: Öll opinber yfirvöld, þ.m.t. ríki, sveitastjórnir og önnur svæðisbundin yfirvöld.

Sérstakur réttur: Réttur sem veitir fyrirtæki eða fyrirtækjum einhvern lagalegan eða réttarfarslegan ávinning sem hefur veruleg áhrif á getu annars fyrirtækis til að veita sömu þjónustu eða sinna sömu starfsemi á sama landsvæði við samsvarandi aðstæður.

Gildissvið.

3. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar gilda um fyrirtæki sem til viðbótar við aðra starfsemi:

  1. Eru veitt sérstök réttindi eða einkaréttur skv. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, eða;
  2. Er falið að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu skv. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og sem njóta hvers konar ríkisaðstoðar í tengslum við slíka þjónustu.

4. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar gilda ekki um fyrirtæki sem:

  1. Hafa minni heildarveltu á tveimur undangengnum fjárhagsárum en sem svarar til 40 milljónum evra. Samsvarandi viðmiðunarmörk fyrir opinberar fjármálastofnanir er niðurstöðutala efnahagsreiknings sem svarar til 800 milljóna evra;
  2. Hefur verið falið að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu skv. 2. mgr. 59. gr. laga nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, ef ríkisaðstoðin sem þau njóta er veitt í fyrirfram ákveðinn tíma í kjölfar opinnar málsmeðferðar og án mismununar;
  3. Ólíklegt má telja að þjónusta þeirra hafi teljandi áhrif á viðskipti milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Skylda til að færa aðskilið bókhald.

5. gr.

Fyrirtæki, sem reglugerðin tekur til, er skylt að færa aðskilið bókhald á þann hátt að eftirfarandi komi skýrt fram:

  1. Kostnaður og tekjur sem tengjast mismunandi starfsemi;
  2. Greinargóð lýsing á aðferðum við skiptingu kostnaðar og ráðstöfun tekna til mismunandi starfsemi.

Fyrirtæki, sem reglugerðin tekur til, skal sjá til þess að innra bókhald þess, sem svarar til mismunandi starfsemi, sé aðskilið og að öllum kostnaði og tekjum sé rétt skipt og ráðstafað á grundvelli rökstuddra bókhaldsreglna sem beitt er samfellt og jafnframt að skýrt sé eftir hvaða bókhaldsreglum aðskilið bókhald er fært.

Skýrsla um skiptingu kostnaðar og ráðstöfun tekna vegna mismunandi starfsemi

6. gr.

Fyrirtæki, sem reglugerðin tekur til, skal í samræmi við 5. gr., fyrir hvert reikningsár, taka saman skýrslu um skiptingu kostnaðar og ráðstöfun tekna vegna mismunandi starfsemi þess.

Í skýrslu skv. 1. mgr. skal eftirfarandi koma skýrt fram:

  1. Framlög sem opinber yfirvöld veita hlutaðeigandi fyrirtæki beint til ráðstöfunar;
  2. Framlög sem opinber yfirvöld veita fyrir milligöngu fyrirtækja eða fjármálastofnana;
  3. Hvernig þessi opinberu framlög eru raunverulega nýtt.

Skráning og söfnun bókhaldsupplýsinga - varðveisla.

7. gr.

Ákvæði laga um ársreikninga nr. 3/2006 og laga um bókhald nr. 145/1994, með síðari breytingum, gilda um skráningu, söfnun og varðveislu bókhaldsupplýsinga samkvæmt reglugerð þessari.

Skýrslu, skv. 6. gr., skal varðveita í 5 ár eftir að reikningsári lýkur.

Upplýsingaskylda.

8. gr.

Fjármálaráðuneytinu er heimilt að óska eftir eintaki af skýrslu skv. 6. gr. hjá þeim fyrirtækjum sem reglugerðin tekur til og hafa slíkt eintak til reiðu óski Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) eftir því.

Lagaheimild og gildistaka.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 32. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 og 51. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 17. mars 2006.

F. h. r.

Baldur Guðlaugsson.

Ingvi Már Pálsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica