Fjármálaráðuneyti

398/2005

Reglugerð um endurgreiðslu olíugjalds til sendimanna erlendra ríkja.

1. gr.

Erlend sendiráð og sendierindrekar (diplomatic agents) skulu fá endurgreitt olíugjald af gas- og dísilolíu sem gjaldskyld er samkvæmt lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, vegna bifreiða í þeirra eigu.


2. gr.

Til þess að hljóta endurgreiðslu skv. 1. gr. verður bifreið að vera á sérstökum skráningarmerkjum fyrir ökutæki erlendra sendiráða og erlendra sendiráðsmanna, sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum.


3. gr.

Umsókn um endurgreiðslu skal beina til utanríkisráðuneytisins og fylgi umsókn frumrit af þeim reikningum sem endurgreiðslubeiðni er byggð á. Eftir að utanríkisráðuneytið hefur gengið úr skugga um að í hlut eigi aðilar er undir reglurnar falla sendir það Ríkisendurskoðun endurgreiðslubeiðni ásamt þeim reikningum er umsókn fylgja. Að lokinni endurskoðun reikninga sendir Ríkisendurskoðun þá til viðkomandi sendiráðs með áritun um endurgreiðslu en sendir endurgreiðslubeiðni til ríkisféhirðis til afgreiðslu.

Ekki verður um endurgreiðslu að ræða nema heildarfjárhæð reikninga á því tímabili sem endurgreitt er fyrir nemi a.m.k. 10.000 kr. með virðisaukaskatti. Ríkisendurskoðun skal heimila endurgreiðslu innsendra reikninga vegna fastra mánaðarlegra reikningsviðskipta nái heildarfjárhæð slíkra reikninga a.m.k. 10.000 kr. með virðisaukaskatti.

Reikningar þeir sem endurgreiðslubeiðni er byggð á skulu vera greiddir. Til staðfestingar á greiðslu skal greiðslukvittun fylgja greiddum reikningum.


4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, og öðlast gildi 1. júlí 2005.


Fjármálaráðuneytinu, 22. apríl 2005.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Vala R. Þorsteinsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica