Fara beint í efnið

Prentað þann 18. apríl 2024

Stofnreglugerð

397/2005

Reglugerð um endurgreiðslu vegna kaupa á ökumælum.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Heimilt er, að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar, að endurgreiða útlagðan kostnað vegna kaupa eða nauðsynlegrar endurnýjunar á ökumælum í bifreiðar sem nota annan orkugjafa en bensín og eru á bilinu 4.000 kg til 9.999 kg að leyfðri heildarþyngd.

2. gr.

Endurgreiðsla ökumæla samkvæmt 1. gr. skal vera sem hér segir:

a. Þeir sem keyptu mæla frá 18. júní 2004 til 31. október 2004 fá endurgreiddan 1/5 hluta.
b. Þeir sem keyptu mæla frá 1. nóvember 2004 til 31. janúar 2005 fá endurgreidda 2/5 hluta.
c. Þeir sem kaupa mæla frá 1. febrúar 2005 til 30. apríl 2005 fá endurgreidda 3/5 hluta.
d. Þeir sem kaupa mæla frá 1. maí 2005 til 30. júní 2005 fá endurgreidda 4/5 hluta.

Endurgreiðsla skal að hámarki nema 6.000 kr. samkvæmt a-lið, 12.000 kr. skv. b-lið, 18.000 kr. skv. c-lið og 24.000 kr. skv. d-lið.

3. gr.

Umsókn um endurgreiðslu skal beint til ríkisskattstjóra eigi síðar en 1. október 2005.

Umsókn skv. 1. mgr. skal vera á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

Einungis skráður eigandi bifreiðar á rétt á endurgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari.

Ríkisskattstjóri skal rannsaka umsókn um endurgreiðslu og ganga úr skugga um að skilyrðum reglugerðar þessarar sé fullnægt. Ríkisskattstjóri skal að rannsókn lokinni tilkynna innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu sé skilyrðum reglugerðarinnar fullnægt. Innheimtumaður annast endurgreiðslu.

4. gr.

Umsókn um endurgreiðslu skal fylgja afrit fullnægjandi reiknings frá verkstæði sem ríkisskattstjóri hefur veitt heimild til að setja ökumæla í bifreiðar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 308/1996, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila þungaskatts.

5. gr.

Eigi skal endurgreiða útlagðan kostnað vegna kaupa og ísetningar á ökuritum er notaðir eru sem þungaskattsmælar. Ákvæði þetta tekur til ökurita þeirra ökutækja sem skylt er að nota ökurita samkvæmt reglugerð nr. 136/1995, um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl., með síðari breytingum, í innanlandsflutningum og við flutning innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Eigendur ökutækja sem skylt er að nota ökurita samkvæmt reglugerð nr. 136/1995 fá ekki endurgreiddan útlagðan kostnað vegna kaupa og ísetningar á öðrum ökumælum.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Fjármálaráðuneytinu, 22. apríl 2005.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Vala R. Þorsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.