Fjármála- og efnahagsráðuneyti

1423/2022

Reglugerð um breytingu á reglugerð um greiðslu barnabóta, nr. 555/2004.

1. gr.

Á eftir 5. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein er verður 5. gr. a, svohljóðandi:

5. gr. a.

Skipt búseta barns.

Við þær aðstæður að foreldar hafa samið um skipta búsetu barns skal litið á hvort foreldri um sig sem framfærendur barnsins.

Grunnfjárhæð barnabóta vegna þess barns sem hefur skipta búsetu tekur mið af hjúskaparstöðu hvors foreldris fyrir sig í lok tekjuársins og ákvarðast barnabætur síðan sérstaklega fyrir hvort for­eldri barnsins. Sé foreldri barns með skipta búsetu jafnframt ákvarðaðar barnabætur með fleiri börnum en einu skal ákvörðun grunnfjárhæðar vegna þess, með tilliti til fyrsta barns, ráðast af aldri þeirra barna og telst þannig elsta barn fyrsta barn. Skerðing barnabóta að teknu tilliti til tekjuskatts­stofns skal miðast við fjölda barna í heild og aldurs þeirra á framfæri hvors foreldris í lok tekjuárs. Skerðingar­fjárhæð skal deila niður á fjölda barna að teknu tilliti til fjárhæðar barnabóta hvers barns. Af þeirri fjárhæð, sem ákvarðast sérstaklega hjá hvoru foreldri vegna barns með skipta búsetu, eftir skerðingu, skal helmingur falla niður og kemur sú fjárhæð sem eftir stendur til útborgunar hjá einstæðu foreldri eða skiptist til helminga hjá hjónum eða sambúðarfólki.

 

2. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í A-lið 68. gr. og 121. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, öðlast þegar gildi.

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 5. desember 2022.

 

F. h. r.

Helga Jónsdóttir.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica