Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

1010/2020

Reglugerð um starfsábyrgðartryggingar endurskoðenda.

1. gr.

Starfsábyrgðartrygging endurskoðenda.

Endurskoðanda sem hefur löggildingu til endurskoðunarstarfa á grundvelli laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, er skylt að hafa í gildi fullnægjandi starfsábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í störfum hans eða þeirra sem starfa á hans ábyrgð. Trygg­ingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn löggildingu sína.

Starfsábyrgðartrygging skal tekin hjá vátryggingafélagi sem hefur heimild til að veita þjónustu hér á landi.

Vátryggingin skal taka til starfa endurskoðandans hvar sem er innan Evrópska efnahags­svæðis­ins.

 

2. gr.

Vátryggingarfjárhæðir.

Endurskoðendaráð setur reglur um lágmarksfjárhæðir starfsábyrgðartryggingar.

 

3. gr.

Brottfall vátryggingar.

Falli starfsábyrgðartrygging úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag tilkynna það vátrygg­ingartaka og endurskoðendaráði þegar í stað. Gildistíma vátryggingarinnar lýkur ekki fyrr en liðnar eru átta vikur frá því að vátryggingafélagið tilkynnti vátryggingartakanum og endurskoðendaráði með sannanlegum hætti um vátryggingarslit, nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið tekin.

 

4. gr.

Sameiginleg ábyrgð.

Þar sem tveir eða fleiri endurskoðendur starfa saman hjá endurskoðunarfyrirtæki og bera óskipta bótaábyrgð á störfum hvors/hvers annars, geta þeir fullnægt vátryggingaskyldu sinni með því að leggja fram sameiginlega vátryggingu enda komi nöfn þeirra beggja/allra fram í vátryggingaskjali. Skulu þá lágmarksfjárhæðir samkvæmt reglum endurskoðendaráðs um lágmarksfjárhæð starfs­ábyrgðar­tryggingar og hámark eigin áhættu hækka um a.m.k. 10% fyrir hvern endurskoðanda umfram einn.

 

5. gr.

Eigin áhætta.

Heimilt er að áskilja eigin áhættu vátryggingartaka í vátryggingaskilmálum, en slíkt má ekki skerða rétt þriðja manns til bóta úr hendi vátryggingafélags.

Endurskoðendaráð setur reglur um hámark eigin áhættu vátryggingartaka.

Tilhögun eigin áhættu skal getið í vátryggingaskilmálum. Um hana og tilgreiningu hennar fer að öðru leyti samkvæmt þeim reglum sem gilda um vátryggingarsamninga.

 

6. gr.

Tilkynningaskylda vátryggingafélags.

Verði bótaskylt tjón, sem fellur undir ábyrgðartryggingu samkvæmt reglugerð þessari, ber endurskoðanda/endurskoðunarfyrirtæki að tilkynna um hið bótaskylda atvik og greiðslu vegna þess til endurskoðendaráðs.

 

7. gr.

Innlögn réttinda.

Uppfylli endurskoðandi ekki skilyrði reglugerðar þessarar um ábyrgðartryggingu er honum skylt að leggja inn réttindi sín.

 

8. gr.

Kynning vátryggingaskilmála.

Allir vátryggingaskilmálar sem reglugerð þessi tekur til skulu kynntir fyrir endurskoðendaráði áður en þeir eru boðnir endurskoðendum.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 94/2019, um endurskoðendur og endurskoðun, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 673/1997.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Vátrygging sem endurskoðandi hefur í gildi við gildistöku reglugerðar þessarar má halda gildi sínu til 31. desember 2020. Frá þeim degi skulu skilmálar vátrygginga endurskoðenda vera í sam­ræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Skulu endurskoðendur afhenda endurskoðendaráði stað­festingu á því eigi síðar en 15. janúar 2021.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 13. október 2020.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Ingvi Már Pálsson.

Harpa Theodórsdóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica