Leita
Hreinsa Um leit

Fjármálaráðuneyti

77/2003

Reglugerð um innheimtu jöfnunargjalds vegna alþjónustu á árinu 2003.

1. gr.

Jöfnunargjald vegna alþjónustu skal greitt á tíu gjalddögum á árinu 2003. Gjalddagar eru fyrsti dagur hvers mánaðar nema í janúar og í þeim mánuði sem álagningu þinggjalda lýkur samkvæmt ákvörðun fjármálaráðherra. Eindagi er einum mánuði síðar. Við skiptingu fyrirframgreiðslu og eftirstöðvar álagningar skal við það miðað að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð jöfnunargjalds vegna alþjónustu að viðbættum öðrum þinggjöldum en kr. 2.000. á hverjum gjalddaga.

Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga hafi ekki verið greitt á eindaga.


2. gr.

Þar til álagning ársins 2003 liggur fyrir skal hver gjaldandi greiða fyrirfram upp í álagningu ársins. Greiðslan á hverjum gjalddaga skal nema 10% af jöfnunargjaldi vegna alþjónustu, sbr. 1. gr., er greiða bar á árinu 2002.


3. gr.

Heimilt er gjaldanda að sækja um lækkun á þeirri fjárhæð jöfnunargjalds vegna alþjónustu sem honum hefur verið gert að greiða fram að álagningu 2003 skv. 2. gr.

Umsókn um slíka lækkun skal senda skattstjóra er úrskurðar um lækkun greiðsluskyldunnar. Heimilt er að kæra úrskurð skattstjóra til ríkisskattstjóra. Er úrskurður hans endanleg úrlausn málsins á stjórnsýslustigi.


4. gr.

Skattstjóri skal að jafnaði ekki taka til greina umsókn gjaldanda, sbr. 3. gr., nema skattstofn hafi lækkað svo mjög milli áranna 2001 og 2002 að hann sé meira en 25% lægri en hann var á tekjuárinu 2001. Frá þessari reglu má þó víkja ef sérstaklega stendur á að mati skattstjóra.

Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um ákvörðun á takmörkun greiðsluskyldu og önnur atriði varðandi framkvæmd þessarar greinar.


5. gr.

Ákvörðun varðandi umsókn skal skattstjóri tilkynna gjaldanda eins fljótt og unnt er. Ef fallist er á umsókn skal niðurstaða einnig tilkynnt innheimtuaðila.


6. gr.

Um greiðslur jöfnunargjalds vegna alþjónustu á árinu 2003 fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum XIII. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


7. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 15. gr. laga nr. 107/1999, um fjarskipti, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.


Fjármálaráðuneytinu, 23. janúar 2003.

F. h. r.
Maríanna Jónasdóttir.
Ragnheiður Snorradóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica