Fjármálaráðuneyti

922/2002

Reglugerð um breyting á reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum.

1. gr.

3. tölul. 2. mgr. 14. gr. orðast svo:
Bifreið skal að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka, svo sem vegna ferðalaga eða tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar. Bílaleigu er óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort heldur sem um sömu bifreið er að ræða eða aðra bifreið, nema í eftirtöldum tilvikum:

a) þegar leigutaki er vátryggingafélag, sem hefur starfsleyfi hér á landi og bifreið er tekin á leigu vegna tímabundins afnotamissis vátryggingataka af eigin bifreið.
b) þegar leigutaki er lögaðili og bifreið er tekin á leigu vegna ferðalaga starfsmanna hans.

Í þeim tilvikum sem um getur í a- og b-lið hér að framan skal tekið fram í leigusamningi að hann sé gerður í þágu tiltekins vátryggingartaka vegna tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar eða tiltekins starfsmanns lögaðila vegna ferðalaga hans. Notkun hvers ökumanns skal háð skilyrðum 2. málsl. þessa töluliðs.


2. gr.

Á eftir 2. mgr. 14. gr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að flytja bílaleigubifreið, sem uppfyllir skilyrði fyrir lækkun vörugjalds skv. 1. mgr., varanlega úr landi innan 6 mánaða frá nýskráningu bifreiðar, án greiðslu eftirgefins vörugjalds. Sé bifreið flutt aftur til landsins skal greiða af henni vörugjald að nýju.


3. gr.

3. tölul. 15. gr. orðast svo:
Rétthafi skal hafa í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, annað af næstu tveimur heilu almanaksárum eftir að eftirgjöf var veitt. Að loknum þremur árum frá eftirgjöf ber rétthafa að senda viðkomandi tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt, til sönnunar á tekjum rétthafa. Berist tollstjóra ekki framangreind skattframtöl skal hann innheimta eftirgefið vörugjald að fullu.


4. gr.

Á eftir orðunum "heildartíma kvaðar" í 2. mgr. 22. gr. kemur: , sbr. þó 3. mgr. 14. gr.


5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 28. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi 1. janúar 2003.


Fjármálaráðuneytinu, 23. desember 2002.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Lilja Sturludóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica