Fjármálaráðuneyti

593/2002

Reglugerð um löggildingu endurskoðenda með próf frá öðrum háskólum en Háskóla Íslands. - Brottfallin

593/2002

REGLUGERÐ
um löggildingu endurskoðenda með próf frá öðrum háskólum
en Háskóla Íslands.

1. gr.

Leggja má að jöfnu við próf það, sem um getur í 4. tl. 1. mgr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, sambærilegt próf frá öðrum háskóla ef prófnefnd, skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 18/1997, telur sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á þeim málefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra. Prófnefndin skal leita umsagnar viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands um hvort próf frá öðrum háskólum séu sambærileg og próf frá deildinni og þá hvaða próf umsækjandi þyrfti að taka til þess að fullnægja skilyrðum laganna að þessu leyti.


2. gr.

Til að öðlast löggildingu sem endurskoðandi þarf viðkomandi, skv. 5. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 18/1997, að hafa unnið að alhliða endurskoðunarstörfum undir stjórn endurskoðanda samtals í þrjú ár. Heimilt er að allt að tvö ár af þriggja ára lágmarksstarfstíma hafi verið unninn undir stjórn erlendra endurskoðenda, enda séu að mati prófnefndar gerðar sambærilegar kröfur og hér á landi um þjálfun og starfsreynslu.


3. gr.

Umsækjandi um löggildingu til endurskoðunarstarfa á Íslandi, sem hefur fengið löggildingu til endurskoðunarstarfa erlendis, getur fengið undanþágu frá ákvæðum 6. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 18/1997, enda standist hann próf í skattarétti og skattskilum, sem prófnefnd skv. 3. gr. annast og löggilding hans til endurskoðunarstarfa sé að öðru leyti talin sambærileg við kröfur hér á landi að mati prófnefndar. Einnig sýni viðkomandi fram á að hann uppfylli skilyrði um endurmenntun skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 18/1997.


4. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 6. mgr. 2. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, öðlast þegar gildi.


Fjármálaráðuneytinu, 26. júlí 2002.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.
Telma Halldórsdóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica