Fjármálaráðuneyti

709/2000

Reglugerð um tollmeðferð póstsendinga - Brottfallin

Upphafsákvæði.
1. gr.

Reglugerð þessi gildir um tollmeðferð vara sem koma í pósti erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi og vara sem fluttar eru í pósti og ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum.

Um atriði sem varða tollmeðferð póstsendinga og eigi er kveðið á um í reglugerðinni skulu gilda ákvæði tollalaga nr. 55/1987 og reglna settra samkvæmt þeim, eftir því sem við getur átt.

Það er markmið tollmeðferðar póstsendinga að fullnægja skilyrðum laga og stjórnvaldsreglna sem tollyfirvöld bera ábyrgð á að framfylgja varðandi inn- og útflutning.


Tollstjóri sem annast tollafgreiðslu póstsendinga.
2. gr.

Tollstjóri í því tollumdæmi, þar sem varsla og flokkun póstsendinga fer fram, sbr. 2. mgr. 4. gr., annast tollafgreiðslu póstsendinga.


Póstflytjandi.
3. gr.

Póstflytjandi samkvæmt reglugerð þessari er aðili sem veitir hvers kyns póstþjónustu og hefur leyfi til að annast grunnpóstþjónustu, sbr. lög nr. 142/1996, um póstþjónustu.


Flokkun póstsendinga vegna tollmeðferðar.
4. gr.

Póstflytjandi skal annast flokkun aðfluttra póstsendinga vegna tollmeðferðar. Hann skal greina að póstsendingar sem taka ber til tollmeðferðar og póstsendingar sem heimilt er að afhenda án tollmeðferðar.

Það er háð samþykki ríkistollstjóra á hvaða starfsstöð póstflytjanda flokkun pósts samkvæmt þessari grein fer fram.

Taka skal til tollmeðferðar póstsendingar sem hér segir:

1. Eftirtaldar póstsendingar sem koma erlendis frá og eiga að fara til viðtakenda hér á landi:
a. Bréfapóstsendingar og verðpóstsendingar með grænum tollmiða (C1).
b. Bréfapóstsendingar og verðpóstsendingar sem ætla má að hafi að geyma vörur sem háðar eru greiðslu aðflutningsgjalda, vörur sem háðar eru sérstökum innflutningstakmörkunum eða vörur sem háðar eru innflutningsbanni.
c. Póstböggla, nema böggla sem eiga að fara til aðila sem eru undanþegnir tollskyldu samkvæmt tollalögum eða öðrum lögum, enda liggi fyrir við afhendingu skrifleg yfirlýsing viðkomandi um að vörurnar séu undanþegnar tollskyldu samkvæmt tiltekinni lagaheimild.
2. Póstsendingar sem ætlaðar eru viðtakendum í útlöndum og hafa að geyma vörur sem fluttar eru út í atvinnuskyni.

Ef póststarfsmenn eru í vafa um hvort póstsendingu skuli taka til tollmeðferðar, skulu þeir bera málið undir tollstjóra.

Tollstjóri hefur eftirlit með flokkun póstsendinga vegna tollmeðferðar og getur jafnan ákveðið að sending skuli tekin til tollmeðferðar.


Smásendingar.
5. gr.

Smásendingar samkvæmt reglugerð þessari eru póstsendingar sem hafa einungis að geyma vörur sem falla undir eina af þeim vörulýsingum sem eru á fylgiskjali I við reglugerð þessa og eru að tollverði eigi yfir kr. 25.000 og ekki eru fluttar inn í atvinnuskyni.

Vörur í smásendingum má flokka saman í tollskrárnúmerin 9801.1001 til 9801.1033 þegar um innflutning er að ræða en í tollskrárnúmerin 9901.1001 til 9901.1033 þegar um útflutning er að ræða.

Aðflutningsgjöld af smásendingum skulu ákveðin samkvæmt fylgiskjali I.


Skráning upplýsinga varðandi póstsendingar sem teknar eru til tollmeðferðar.
6. gr.

Póstflytjandi skal færa skrá í tölvukerfi með upplýsingum um póstsendingar.

Tollstjóri skal hafa aðgang að tölvukerfi póstflytjanda, eftir því sem þörf er á vegna tolleftirlits.

Ríkistollstjóri setur nánari reglur um skráningu upplýsinga samkvæmt þessari grein og um skil póstflytjanda á upplýsingum úr tölvukerfi sínu til tollyfirvalda og til Hagstofu Íslands.


Tollskýrslur og önnur tollskjöl.
7. gr.

Afhenda ber tollstjóra tollskýrslur ásamt vörureikningum og öðrum tollskjölum yfir póstsendingar sem teknar eru til tollmeðferðar, sbr. þó 8. gr. svo og ákvæði reglugerðar nr. 228/1993 um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra.


8. gr.

Póstsendingar sem koma erlendis frá og hafa einungis að geyma neðangreindar vörur er heimilt að afhenda viðtakendum án þess að tollskýrslur séu gerðar:

1. Vörur sem eru undanþegnar aðflutningsgjöldum og hvorki háðar sérstökum innflutningsskilyrðum né innflutningsbanni, t.d. tollfrjálsar gjafir, sýnishorn og annað sem hefur ekki viðskiptalegt gildi;
2. blöð og tímarit sem falla undir reglugerð nr. 336/1993, um innheimtu virðisaukaskatts af blöðum og tímaritum sem send eru í áskrift erlendis frá í pósti;
3. gagnamiðlar, sendir samkvæmt þjónustusamningi eða án endurgjalds, sem ætlaðir eru til þróunar, hönnunar, prófunar, leiðréttingar eða uppfærslu hugbúnaðar eða eru eingöngu hæfir til kynningar;
4. gagnamiðlar, sendir í tengslum við kaup viðtakanda á rétti til að nota stöðluð tölvuforrit fyrir fleiri notendur eða kaupa á hugbúnaði sem sérstaklega er framleiddur og aðlagaður að séróskum kaupanda, enda sé um að ræða hugbúnaðarþjónustu sem talin er upp í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, viðtakandi hafi verið skráður skv. 5. gr. laganna og gæti talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts skv. 3. og 4. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laganna.

Gagnamiðlar, sem hafa að geyma hugbúnað sem 3. og 4. tölul. 1. mgr. taka til, teljast vera nauðsynlegur og óaðskiljanlegur hluti af hugbúnaðarþjónustunni.


Álagning, greiðsla og skuldfærsla aðflutningsgjalda o.fl.
9. gr.

Póstsendingu má ekki afhenda viðtakanda fyrr en aðflutningsskýrsla hefur verið gerð, aðflutningsgjöld útreiknuð og aðrar tilskildar upplýsingar liggja fyrir þannig að tollafgreiðsla póstsendingar geti þegar farið fram, sbr. þó 8. gr.

Áður en aðfluttar póstsendingar sem taka ber til tollmeðferðar eru afhentar viðtakendum, skal greiða aðflutningsgjöld, nema þau verði skuldfærð í samræmi við reglur settar skv. 107. gr. tollalaga, og fullnægja öðrum skilyrðum um innflutning, eftir því sem við getur átt.

Fullnægja skal skilyrðum um útflutning, áður en útflutningspóstsendingar eru fluttar úr landi.


10. gr.

Til hagræðis fyrir viðtakendur póstsendinga og þá sem senda vörur í pósti til útlanda, getur ríkistollstjóri falið póstflytjanda eftirtalin störf í tengslum við tollmeðferð:

1. Að taka við skriflegum tollskýrslum.
2. Að taka við greiðslu aðflutningsgjalda þegar um er að ræða staðgreiðslu aðflutningsgjalda. Þegar um staðgreiðslu er að ræða, skal greiða gjöldin í því pósthúsi eða á þeim stað þar sem póstsendingar skal vitjað samkvæmt ákvörðun póstflytjanda.

Póstflytjanda er heimilt að flytja póstsendingu á ákvörðunarstað sem sendandi tilgreinir og afhenda viðtakanda gegn útgáfu aðflutningsskýrslu og greiðslu aðflutningsgjalda. Fari afhending fram samkvæmt þessari málsgrein skulu aðflutningsgjöld álögð miðað við þann dag sem skilyrðum 1. mgr. 9. gr. er fullnægt.

Um skil póstflytjanda á aðflutningsgjöldum í ríkissjóð skal fara eftir fyrirmælum sem fjármálaráðuneytið setur um skil aðflutningsgjalda, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 530/1975, um reikningsskil innheimtumanna ríkissjóðs.


11. gr.

Póstflytjandi getur komið fram gagnvart tollstjóra fyrir hönd viðskiptamanna sinna við SMT-tollafgreiðslu póstsendinga. Getur hann, að fenginni skriflegri heimild viðtakenda, óskað þess að aðflutningsgjöld af póstsendingum verði skuldfærð á þá í samræmi við heimildir sem þeir hafa til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum. Um ábyrgð á upplýsingum sem gefnar eru með tollskýrslum fer skv. 16. gr. tollalaga og um ábyrgð á aðflutningsgjöldum fer skv. 2. mgr. 111. gr. tollalaga. Grein þessi skal jafnframt taka til flutningsmiðlara.


12. gr.

Heimilt skal að skuldfæra aðflutningsgjöld á póstflytjanda, ef hann veitir viðskiptamönnum sínum þá þjónustu að standa tollstjóra skil á aðflutningsgjöldum af póstsendingum fyrir þeirra hönd. Um uppgjör aðflutningsgjalda fer samkvæmt reglugerð nr. 390/1999, um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum.


Opnun póstsendinga til að afla vörureikninga.
13. gr.

Póststarfsmaður getur, í viðurvist tollvarðar, opnað póstböggla sem koma erlendis frá ef það er til að afla vörureikninga til að byggja á útreikning aðflutningsgjalda, sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 142/1996 um póstþjónustu, en um þagnarskyldu póststarfsmanna fer samkvæmt þeim lögum.

Póstsending sem póststarfsmaður opnar skv. 1. mgr. skal sérstaklega auðkennd þannig að viðtakanda megi vera ljóst að hún hafi verið opnuð til að afla vörureiknings og að það hafi verið gert undir tolleftirliti.

Ef ástæða er til að ætla að aðrar lokaðar póstsendingarinnihaldi vörur sem taka skal til tollmeðferðar, skal skora á viðtakendur að opna þær í viðurvist póststarfsmanns eða fá málið tollstjóra til ákvörðunar um málsmeðferð.


Varðveisla póstflytjanda á gögnum sem varða tollafgreiðslu póstsendinga.
14. gr.

Um varðveislu póstflytjanda á gögnum sem varða SMT-tollafgreiðslu póstsendinga fer skv. VIII. kafla reglugerðar nr. 722/1997, um SMT-tollafgreiðslu, og skulu sömu reglur gilda um varðveislu skriflegra gagna, eftir því sem við getur átt.


Safnsendingar.
15. gr.

Ríkistollstjóri getur heimilað póstflytjanda að annast skiptingu safnsendinga, þ.e. sendinga sem fluttar eru til landsins í einni póstsendingu en ætlaðar eru fleiri viðtakendum, með sömu skilyrðum og um ræðir í 4. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 61/1989 um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum, með síðari breytingum, eftir því sem við getur átt.


Hraðsendingar.
16. gr.

Póstflytjandi hefur heimild til að annast tollafgreiðslu á hraðsendingum og skulu gilda um tollafgreiðslu þeirra ákvæði reglugerðar nr. 445/1997, um tollafgreiðslu hraðsendinga, með síðari breytingum, eftir því sem við getur átt.


Þjálfun og aðstoð.
17. gr.

Ríkistollstjóri skal aðstoða póstflytjanda við þjálfun starfsmanna eftir nánara samkomulagi.

Tollstjóri skal, eftir því sem þörf er á, aðstoða og leiðbeina póststarfsmönnum við framkvæmd starfa er lúta að tollmeðferð og tollafgreiðslu póstsendinga.


Ábyrgð póstflytjanda.
18. gr.

Póstflytjandi ber ábyrgð á öruggri vörslu ótollafgreiddra póstsendinga og að póstsendingar sem taka ber til tollmeðferðar séu ekki afhentar viðtakendum án þess að leyfi tollstjóra liggi fyrir. Ákvæði 67. gr. tollalaga tekur til póstflytjanda.


Tolleftirlit.
19. gr.

Póstflytjandi skal leggja tollstjóra endurgjaldslaust til aðstöðu fyrir tollstarfsmenn vegna tolleftirlits, sbr. 3. mgr. 64. gr. tollalaga.

Tollverðir skulu hafa óhindraðan aðgang til tolleftirlits á starfsstöð póstflytjanda og póststarfsmenn skulu leggja til þá aðstoð sem þörf er á. Tollstjóri skal hafa þá aðstöðu til fíkniefnaeftirlits, m.a. með notkun leitarhunds, sem hann metur fullnægjandi.

Póstsendingar sem tollverðir opna vegna eftirlits skulu sérstaklega auðkenndar þannig að viðtakanda megi vera ljóst að þær hafi verið opnaðar vegna tolleftirlits.

Ef tollyfirvöld leggja hald á vörur í pósti vegna ætlaðra tollalagabrota, ber að tilkynna póstflytjandaum það.

Póstflytjanda ber að tilkynna tollyfirvöldum tafarlaust frá því ef rökstuddur grunur vaknar um tollalagabrot.

Tollyfirvöld hafa eftirlit með flutningi ótollafgreidds pósts innanlands og geta sett sérstök skilyrði um slíkan flutning, m.a. hvað varðar innsiglun flutningatækis.

Almennur tollafgreiðslutími póstsendinga skal vera hinn sami og almennur tollafgreiðslutími á skrifstofu tollstjóra. Ef póstflytjandi óskar eftir aðstoð tollstarfsmanna utan þess tíma, skal hann greiða kostnað sem því er samfara. Að öðru leyti fer um greiðslu kostnaðar samkvæmt reglugerð nr. 107/1997, um greiðslu kostnaðar vegna tollafgreiðslu utan almenns afgreiðslutíma eða utan aðaltollhafna og vegna sérstakrar tollmeðferðar vöru, með síðari breytingum, eftir því sem við getur átt.


Verklagsreglur ríkistollstjóra.
20. gr.

Ríkistollstjóri getur sett nánari reglur um framkvæmd samkvæmt þessari reglugerð.


Gildistaka.
21. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 107. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, og öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma er úr gildi felld reglugerð nr. 310/1992, um tollmeðferð póstsendinga, með síðari breytingum.


Fjármálaráðuneytinu, 29. september 2000.

Geir H. Haarde.
Maríanna Jónasdóttir.



Fylgiskjal I.
Tollflokkun og sundurliðun aðflutningsgjalda af smásendingum,
sbr. 5. gr. reglugerðarinnar.
Tollskrár-
númer
Vöruheiti
Tollur
Gjöld
A
E
%
%
9801.1001 Bækur á íslensku, dagblöð, tímarit og landsmála- og héraðsfréttablöð
0
Ö1
9801.1002 Bækur á öðru tungumáli en íslensku, bæklingar; hljóðfæranótur
0
Ö2
9801.1003 Fatnaður, þ.m.t. skór
15
0
Ö2
9801.1004 Sængurlín, borðlín o.þ.h.; hárþvottalögur, ilmvötn, snyrtivörur, skrautvörur, skartgripir; búsáhöld, ekki rafknúin; húsgögn; ljósmyndir; hljómplötur, segulbönd, tölvuleikir o.þ.h; töskur og veski
10
0
Ö2
9801.1005 Tollfrjálsar vörur til manneldis, þ.e. vörur undanþegnar öllum öðrum aðflutningsgjöldum en virðisaukaskatti
0
Ö1
9801.1009 Aðrar tollfrjálsar vörur, þ.e. vörur undanþegnar öllum öðrum aðflutningsgjöldum en virðisaukaskatti
0
Ö2
9801.1031 Öl, sem flokkast í vörulið 2203 í tollskrá, svo og vörur sem innihalda blöndur af öli og óáfengum drykk og flokkast í vörulið 2206
0
Ö2,VX,GC
9801.1032 Vín, sem flokkast undir vöruliði 2204 og 2205 í tollskrá, svo og gerjaðar drykkjarvörur í vörulið 2206, sem ekki hafa verið blandaðar annarri gerjaðri drykkjarvöru eða óáfengri drykkjarvöru, enda sé varan að hámarki 15% að styrkleika og innihaldi eingöngu vínanda sem myndast við gerjun, án hvers kyns eimingar
0
Ö2,VY,GD
9801.1033 Annað áfengi
0
Ö2,VZ,GD


Tolldálkur merktur A sýnir tolltaxta sem gildir fyrir allar innfluttar vörur, nema annað komi fram í dálki merktum E. Dálkur merktur E sýnir tolltaxta sem gildir fyrir vörur sem fluttar eru til landsins samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið svo og vörur sem njóta tollfrelsis samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamninga sem Ísland er aðili að.

Önnur gjöld eru sem hér segir:

1. Af vörum í tollskrárnúmeri 9801.1003 og 9801.1005 sem merktar eru með lyklinum Ö1 skal greiða 14% virðisaukaskatt en af vörum sem merktar eru með lyklinum Ö2 skal greiða 24,5% virðisaukaskatt.
2. Af öli í tollskrárnúmeri 9801.1031, sem merktar eru með lyklinum VX, skal greiða áfengisgjald 58,70 kr. á hvern sentilítra af vínanda umfram 2,25 sentilítra, sbr. lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum og skilagjald 6,43 kr/kg, sbr. lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.
3. Af víni sem flokkast í tollskrárnúmer 9801.1032 sem merktar eru með lyklinum VY skal greiða áfengisgjald 52,80 kr. á hvern sentilítra af vínanda umfram 2,25 sentilítra, sbr. lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum og skilagjald 8,63 kr/kg, sbr. lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.
4. Af öðru áfengi sem flokkast í tollskrárnúmer 9801.1032 sem merkt er með lyklinum VZ skal greiða áfengisgjald 57,50 kr. á hvern sentilítra af vínanda umfram 0,0 sentilítra, sbr. lög nr. 96/1995, um gjald af áfengi, með síðari breytingum og skilagjald 8,63 kr/kg, sbr. lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum.

Við útflutning skal vöruliður framangreindra tollskrárnúmera byrja á 9901 í stað 9801.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica