Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

119/2002

Reglugerð um tollfríðindi við innflutning vara sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims.

Tollfríðindi fyrir fátækustu ríki heims. 1. gr.

Tollar á vörur sem upprunnar eru í fátækustu þróunarríkjum heims (GSP-ríkjum) skulu falla niður til samræmis við niðurfellingu tolla á vörum sem upprunnar eru á Evrópska efnahagssvæðinu.

Tollfríðindanna njóta þau ríki sem talin eru upp í viðauka nr. V við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum. Þau ríki eru: Afganistan, Angóla, Bangladess, Benín, Burma, Búrkína Fasó, Búrúndí, Bútan, Djíbútí, Erítrea, Eþíópía, Gambía, Gínea, Gínea-Bissá, Grænhöfðaeyjar, Haítí, Jemen, Kambódía, Kíribatí, Kongó, Kómoreyjar, Laos, Lesótó, Líbería, Madagaskar, Malaví, Maldíveyjar, Malí, Máritanía, Mið-Afríkulýðveldið, Miðbaugs-Gínea, Mósambík, Nepal, Níger, Rúanda, Salómonseyjar, Sambía, Samóa, Saó Tóme og Prinsípe, Síerra Leóne, Sómalía, Súdan, Tansanía, Tógó, Tsjad, Túvalú, Úganda og Vanúatú.

Vörusvið. 2. gr.

Tollfríðindi samkvæmt reglugerð þessari taka til eftirtalinna vara í tollskrá, sbr. viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum, að uppfylltum öðrum skilyrðum reglugerðarinnar:
1. Vörur sem falla undir tollskrárnúmer í köflum 25 til og með 97 í tollskrá að frátöldum vörum sem taldar eru upp í viðauka 1 við reglugerð þessa.
2. Vörur sem unnar eru úr landbúnaðarhráefni, enda falli þær undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka 2 við reglugerð þessa.
3. Fiskur og aðrar sjávarafurðir, enda falli þær undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka 3 við reglugerð þessa.

Upprunareglur. 3. gr.

Tollfríðindi samkvæmt reglugerð þessari eru bundin því skilyrði að vörurnar séu upprunnar í GSP-ríki í skilningi upprunareglna í viðauka 4 við reglugerð þessa. Öðrum skilyrðum upprunareglnanna um flutning vöru, sönnun uppruna og fleira þarf einnig að vera fullnægt eigi vara, sem upprunninn er í GSP-ríki, að njóta tollfríðinda við innflutning hennar til Íslands.

Gildistaka o.fl. 4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. mgr. 6. gr. sbr. 1. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað.

Fjármálaráðuneytinu, 29. janúar 2002.

F. h. r.
Baldur Guðlaugsson.

Jóna Björk Guðnadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.