Leita
Hreinsa Um leit

Fjármálaráðuneyti

858/2000

Reglugerð um SMT tollafgreiðslu. - Brottfallin

I. KAFLI
Orðaskýringar.
1. gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
Skjalasending milli tölva (SMT): Sendingar á gögnum milli gagnavinnslukerfa sem fylgja ákveðnum stöðlum.

Rammaskeyti: Safn samstæðra gagna sem raðað er saman samkvæmt ákveðnum stöðlum fyrir skeyti til flutnings með rafeindaboðum milli tölva og forsniðið er þannig að unnt sé að lesa það í tölvu og vinna sjálfvirkt á vélrænan og ótvíræðan hátt. Rammaskeytin skulu gerð samkvæmt viðurkenndum staðli sem samþykktur hefur verið til nota við tollafgreiðslu af ríkistollstjóra, sbr. staðal Sameinuðu þjóðanna (UN/EDIFACT) fyrir SÞ-rammaskeyti vegna tollafgreiðslu vara, og í þeim eiga að koma fram sömu upplýsingar og í þeim tollskjölum sem þau eiga að koma í staðinn fyrir og send eru á milli innflytjenda, útflytjenda, flutningsmiðlara, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra, auk annarra upplýsinga sem nefndar eru í reglugerðinni.

Tölvukerfi ríkistollstjóra: Tölvukerfi og hugbúnaður sem notaður er af tollyfirvöldum við tollafgreiðslu vara, álagningu gjalda og innheimtu þeirra og þar sem m.a. gögn og upplýsingar vegna tollafgreiðslu eru geymdar.

Vefsetur ríkistollstjóra: Vefsíða ríkistollstjóra á veraldarvefnum með veffanginu www.tollur.is og þar sem m.a. VEF-tollafgreiðsla fer fram.

SMT-tollafgreiðsla: Tollafgreiðsla sem fer fram með þeim hætti að innflytjandi, útflytjandi eða annar sendir viðkomandi tollstjóra með skjalasendingum milli tölva (SMT) þær upplýsingar sem láta ber honum í té við tollafgreiðslu vara.

VEF-tollafgreiðsla: SMT-tollafgreiðsla með veftengingu við vefsetur ríkistollstjóra þar sem VEF-tollskýrsla er gerð, rammaskeyti er sent í tölvukerfi ríkistollstjóra og VEF-tollafgreiðsluskjöl eru gerð aðgengileg.

Tollstjórar: Tollstjórinn í Reykjavík og sýslumenn í sýslum utan Reykjavíkur.

Tollskýrsla: Aðflutnings-, umflutnings- eða útflutningsskýrsla.

Gjöld: Gjöld og skattar hvers konar sem greiða ber við tollmeðferð vöru t.d. tollur, virðisaukaskattur og vörugjald (aðflutningsgjöld eða útflutningsgjöld).

Leyfishafi: Aðili sem fær leyfi til samskipta við tollstjóra með skjalasendingum milli tölva og getur með þeim hætti ráðstafað vöru til tollmeðferðar.

Gagnaflutningur: Sending rammaskeyta milli innflytjenda, útflytjenda, flutningsmiðlara, farmflytjenda, tollyfirvalda og annarra vegna tollafgreiðslu vara.

Gagnaflutningsnet: Almennt gagnaflutningsnet sem notar viðurkenndan alþjóðastaðal, t.d. X. 400, og fullnægir skilyrðum ríkistollstjóra að öðru leyti.

Gagnahólf leyfishafa: Gagnahólf í gagnaflutningsneti, skráð á nafn leyfishafa, þar sem unnt er að geyma rammaskeyti frá leyfishafa og tollyfirvöldum.

Lykilorð að gagnahólfi SMT-leyfishafa: Sérstakt stafrænt auðkenni sem gerir leyfishafa mögulegt að fá aðgang að gagnahólfi sínu í gagnaflutningsneti til að senda rammaskeyti eða veita þeim viðtöku.

Lykilorð vegna VEF-tollafgreiðslu: Sérstakt stafrænt auðkenni sem gerir leyfishafa mögulegt að fá aðgang að VEF-tollafgreiðslu til að senda VEF-tollskýrslu og veita VEF-tollafgreiðsluskjölum viðtöku.

Leyndarkóðun og stafræn undirskrift: Leyndarkóðun gagna kemur í veg fyrir að annar en viðtakandi, sem hefur til þess réttan lykil, geti lesið innihald gagnanna. Með stafrænni undirskrift er tryggt að gögn hafi borist frá tilgreindum sendanda og innihaldi þeirra hafi ekki verið breytt.


II. KAFLI
Gildissvið.
2. gr.

Með reglugerð þessari er kveðið á um að þeir aðilar, sem um ræðir í III. kafla og til þess fá tilskilin leyfi, láti tollyfirvöldum í té með skjalasendingum milli tölva þær upplýsingar sem afhenda ber við tollafgreiðslu. Upplýsingaskipti á milli tollyfirvalda og leyfishafa eða annarra fari þá fram með skjalasendingum milli tölva.

Þegar tollafgreiðsla fer fram skv. 1. mgr. skal viðkomandi leyfishafa, sem ráðstafar vöru eða sendingu til tollmeðferðar, veittur greiðslufrestur á gjöldum og skal hann skuldfærður fyrir þeim í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 390/1999 um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum.


III. KAFLI
Leyfishafar.
3. gr.

Leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu er veitt þeim aðilum sem stunda innflutnings- eða útflutningsverslun, framleiðslu eða viðgerðarþjónustu í atvinnuskyni, enda uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:


a.

Þeir hafi tilskilin leyfi til viðkomandi atvinnustarfsemi, svo sem verslunarleyfi, sbr. lög nr. 41/1968 um verslunaratvinnu, iðnaðarleyfi, sbr. iðnaðarlög nr. 42/1978, vinnsluleyfi, sbr. lög nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, eða önnur leyfi sem krafist er.

b.

Þeir hafi tilkynnt Hagstofu Íslands um atvinnustarfsemi sína og séu á fyrirtækjaskrá, sbr. lög nr. 62/1969, um fyrirtækjaskrá.

c.

Þeir hafi tilkynnt skattstjóra um starfsemi sína og verið skráðir skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og fyrirmælum settum samkvæmt þeim.

d.

Þeir séu ekki í vanskilum við ríkissjóð með greiðslu opinberra gjalda eða skatta.

e.

Ríkistollstjóri hafi samþykkt þann hugbúnað sem umsækjandi hyggst nota til samskipta við tollyfirvöld, nema þegar sótt er um VEF-tollafgreiðslu.

f.

Þeir hafi á að skipa starfsliði sem hefur til að bera fullnægjandi þekkingu á lögum og reglum um tollmeðferð vara.


4. gr.
Heimilt er að veita flutningsmiðlurum og þeim sem hafa leyfi til að reka frísvæði eða almennar tollvörugeymslur leyfi til að koma fram gagnvart tollyfirvöldum við SMT-tollafgreiðslu fyrir hönd innflytjenda eða útflytjenda vara eða sendinga.

Aðili, sem fengið hefur heimild skv. 1. mgr., getur að fenginni skriflegri heimild frá innflytjanda eða skriflegri staðfestingu hans á viðtöku vöru óskað þess að aðflutningsgjöld verði skuldfærð á innflytjanda, í samræmi við þær heimildir sem viðkomandi hefur til greiðslufrests á aðflutningsgjöldum.

Þegar tollmeðferð fer fram samkvæmt þessari grein ábyrgjast umboðsaðilar og innflytjendur eða útflytjendur vara eða sendinga greiðslu gjalda in solidum. Ábyrgð umboðsaðila eða rekstraraðila frísvæðis eða tollvörugeymslu fellur þó niður hafi aðflutningsgjöld verið skuldfærð á innflytjanda eða viðtakanda vöru hjá tollstjóra, nema umboðs- eða rekstraraðili hafi vitað eða mátt vita að upplýsingar sem veittar voru í tengslum við tollafgreiðslu væru rangar eða ófullnægjandi.


IV. KAFLI
Umsókn um leyfi og leyfisveiting.
5. gr.
Tollstjórar, hver í sínu umdæmi, veita leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu.

Umsókn um leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu skal skila til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem umsækjandi á lögheimili.

Í umsókn um leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu skal greina:


a.

Nafn umsækjanda (fyrirtækis), kennitölu, lögheimili, aðsetur og virðisaukaskattsnúmer.

b.

Hverjir hafi umboð til að skuldbinda hann samkvæmt reglugerð þessari.

c.

Aðrar þær upplýsingar sem eyðublaðið gefur tilefni til.

Umsókn skal undirrituð af forráðamanni fyrirtækis sem til þess hefur fullgilda heimild að lögum.

Tollstjóri getur krafist þess að umsækjandi sanni á sér deili og leggi fram skilríki sem viðurkennd eru að lögum sem fullgild persónuskilríki, þ.e. ökuskírteini, vegabréf eða staðfestingu frá þjóðskrá Hagstofu Íslands, með mynd af viðkomandi og sýni nafn, kennitölu og heimilisfangi hans. Sama gildir um þá sem umsækjandi veitir umboð til þess að koma fram fyrir hans hönd.

Verði breytingar síðar á þeim upplýsingum sem fram koma í umsókn, skal það þegar tilkynnt þeim tollstjóra sem veitti leyfið.

Ríkistollstjóri ákveður gerð eyðublaðs sem notað skal skv. 1. mgr. og þau atriði önnur sem hann telur þörf á að tilgreind séu af umsækjanda í umsókn.


6. gr.
Telji tollstjóri skilyrði samkvæmt 3. gr. uppfyllt gefur hann út staðfestingu til handa umsækjanda sem veitir honum leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu í öllum tollumdæmum landsins.

Hefja má tollmeðferð vara og sendinga með þessum hætti þegar leyfishafi hefur fengið lykilorð að gagnahólfi sem skráð er á hans nafn vegna SMT-tollafgreiðslu eða hann fengið lykilorð sem ríkistollstjóri úthlutar vegna VEF-tollafgreiðslu og ríkistollstjóri hefur veitt heimild til þess að gagnaflutningur milli tölvukerfis leyfishafa og tölvukerfis ríkistollstjóra fari fram.


V. KAFLI
Tollmeðferð.
7. gr.
Þegar SMT-tollafgreiðsla fer fram sendir leyfishafi tollskýrslu um viðkomandi vöru eða sendingu með rammaskeyti um gagnaflutningsnet til tollstjóra þar sem tollmeðferð á að fara fram. Hann skal nota gagnahólf sem skráð er á nafn hans.

Þegar VEF-tollafgreiðsla fer fram sendir leyfishafi tollskýrslu, hér á eftir nefnd VEF-tollskýrsla, um vefsetur ríkistollstjóra. Þaðan er rammaskeyti sent í tölvukerfi ríkistollstjóra til tollstjóra þar sem tollmeðferð á að fara fram. Sá sem leyfi hefur til VEF-tollafgreiðslu skal nota lykilorð sem ríkistollstjóri hefur úthlutað honum vegna VEF-tollafgreiðslu. VEF-tollskýrsla og VEF-tollafgreiðsluskjöl skulu vera leyndarkóðuð og með stafrænni undirskrift.

Auk leyfishafa mega þeir sem heimild hafa til að skuldbinda hann, sbr. b-lið 3. mgr. 5. gr., annast SMT- eða VEF-tollafgreiðslu fyrir hönd hans.

Í rammaskeyti tollskýrslu skulu koma fram þær upplýsingar sem veita ber í tollskýrslu samkvæmt ákvæðum tollalaga og fyrirmælum settum samkvæmt þeim, auk þess sem þar skal tilgreina einkvæmt tilvísunarnúmer leyfishafa og númer vörureikninga vegna vara í þeirri sendingu sem rammaskeytið tekur til. Tilvísunarnúmer skal gefið öllum tollskjölum sem eiga við um þá vöru eða sendingu sem tollskýrsla, sem send er tollstjóra með rammaskeyti, tekur til. Að öðru leyti ákveður viðkomandi leyfishafi sjálfur útfærslu númerakerfis í bókhaldi sínu.

Rammaskeyti samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við fyrirmynd að rammaskeyti fyrir tollskýrslu eins og ákveðið er af ríkistollstjóra skv. 18. gr.

Form VEF-tollskýrslu er birt á vefsetri ríkistollstjóra og ber að fylla það út samkvæmt leiðbeiningum sem ríkistollstjóri birtir m.a á vefsetrinu.


8. gr.
Tollskýrsla sem send er skv. 7. gr. telst vera móttekin hjá tollstjóra við skráningu í tölvukerfi ríkistollstjóra. Vara eða sending telst þá vera tekin til tollmeðferðar, enda fullnægi upplýsingarnar sem veittar eru með þessum hætti að öllu leyti þeim skilyrðum sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að heimila afhendingu vegna innflutnings vöru eða útflutning á vöru eða sendingar þegar í stað. Um ábyrgð leyfishafa á réttmæti þeirra upplýsinga sem koma fram í rammaskeyti og VEF-tollskýrslu fer eftir ákvæðum 16., sbr. 121. gr. tollalaga. Auk þess að bera ábyrgð á að upplýsingarnar séu réttar, ber leyfishafi ábyrgð á að um sé að ræða allar þær upplýsingar sem eiga að koma fram vegna tollafgreiðslunnar og að þær séu byggðar á þeim tollskjölum sem um ræðir m.a. í V. og XIII. kafla tollalaga.

Leyfishafi telst með skeyti skv. 7. gr. samþykkja að tollstjóri skuldfæri öll gjöld af þeirri vöru eða sendingu sem skeytið tekur til, án frekari beiðni þess efnis og jafnframt felst í því skuldbinding af hans hálfu um greiðslu gjalda samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 390/1999 um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, sbr. 2. gr. þessarar reglugerðar.


9. gr.
Tollstjóri sendir viðkomandi leyfishafa, heimild til að veita vöru eða sendingu viðtöku frá vörsluhafa vegna innflutnings og tilkynningu um skuldfærslu gjalda sé um það að ræða,með rammaskeyti í gagnahólf hans eða leyfishafi móttekur VEF-tollafgreiðsluskjöl á vefsetri. Ef um útflutning er að ræða sendir tollstjóri útflytjanda útflutningsheimild og kvittun vegna útflutningstollafgreiðslu og tilkynningu um skuldfærslu gjalda sé um það að ræða. Enn fremur sendir tollstjóri farmflytjanda eða öðrum vörsluhafa vöru tilkynningu um leyfi til afhendingar vegna innflutnings vöru eða útflutnings vöru (afhendingarheimild/útflutningsheimild).

Rammaskeyti samkvæmt þessari grein skulu vera í samræmi við fyrirmynd slíkra skeyta eins og ákveðið er af ríkistollstjóra skv. 18. gr.


10. gr.
Vara eða sending sem fær tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari telst tollafgreidd þegar tollstjóri hefur heimilað afhendingu eða útflutning skv. 9. gr.


11. gr.
Leyfishafar skulu einungis ráðstafa þeim vörum eða sendingum til tollmeðferðar sem þeir hafa vissu fyrir að séu rétt tollflokkaðar samkvæmt tollskrá, sbr. viðauka I við tollalög, með áorðnum breytingum, og að aðrar tilskildar upplýsingar um þá vöru eða sendingu séu réttar, svo sem um verðmæti við ákvörðun tollverðs, sbr. 8.-10. gr. tollalaga og reglugerð nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun. Enn fremur þurfa leyfishafar að hafa vissu fyrir því að öllum innflutnings- eða útflutningsskilyrðum sé fullnægt hverju sinni, t.d. að fyrir liggi tilskilin innflutnings- eða útflutningsleyfi og að vottorð séu til staðar sé þeirra krafist við tollmeðferð viðkomandi vöru eða sendingar.

Ef leyfishafar eru í vafa um að öllum skilyrðum skv. 1. mgr. sé fullnægt, skulu þeir hafa samráð við viðkomandi tollstjóra áður en vöru eða sendingu er ráðstafað til tollmeðferðar.


12. gr.
Þeim sem leyfi fá til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu er heimilt að senda tollskýrslur hvenær sem er, enda hafi ríkistollstjóri ekki stöðvað móttöku skeyta, sbr. 3. mgr. 18. gr.

Ríkistollstjóri rekur upplýsinga- og gagnamiðlun úr tölvukerfi ríkistollstjóra, nefnd tollalína, gegn greiðslu þjónustugjalda. Tollalínan er ætluð inn- og útflytjendum til þess að þeir geti aflað sér þar upplýsinga um tollafgreiðslu vara sem eru skráðar á þeirra nafn í tölvukerfi ríkistollstjóra auk annarra upplýsinga vegna tollafgreiðslu. Ráðherra mælir fyrir um gjaldtökuna í gjaldskrá sem birt skal í Stjórnartíðindum. Með sama hætti mælir ráðherra fyrir um gjaldtöku vegna stofnunar og viðhalds leyndarkóðunar og stafrænnar undirskriftar SMT- og VEF-leyfishafa. Gjaldskráin skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu m.a. úrvinnslu gagna og flutning þeirra um upplýsingaveitur. Ríkistollstjóri innheimtir slík þjónustugjöld og getur ákveðið að þau skuli innheimt með aðflutningsgjöldum sem greiðslufrestur er veittur á samkvæmt reglugerð þessari.


VI. KAFLI
Bókhald, varðveisla og aðgangur að gögnum.
13. gr.
Þeir sem koma fram gagnvart tollyfirvöldum vegna SMT- eða VEF-tollafgreiðslu skulu varðveita í bókhaldi sínu á aðgengilegan og tryggilegan hátt öll gögn sem snerta tollmeðferð vara og sendinga, hvort sem þau eru skrifleg eða rafræn.

SMT-leyfishafar skulu halda fullkomna skrá eða gagnadagbók í réttri tímaröð og geyma óbreytt öll rammaskeyti sem þeir senda tollstjórum eða móttaka frá þeim. Þegar gagnadagbók er haldin á tölvutæku formi skal á auðveldan hátt vera unnt að nálgast rammaskeyti og endurmynda þau á læsilegan hátt og prenta þau, ef þess er óskað.

Þegar um VEF-tollafgreiðslu er að ræða ber leyfishafa að prenta á pappír tollskýrslu sem tollafgreiðslan er byggð á ásamt skuldfærsluskjölum vegna aðflutningsgjalda og varðveita ásamt öðrum bókhaldsgögnum. Ríkistollstjóri heldur skrá eða gagnadagbók yfir VEF-tollskýrslu og VEF-tollafgreiðsluskjöl sem aðgengileg eru leyfishafa á vefsetri ríkistollstjóra, sbr. þó 12. gr.

Varðveita ber bókhaldsgögn í samræmi við lög nr. 145/1994, um bókhald, með áorðnum breytingum, og reglugerð nr. 598/1999, um rafrænt bókhald, geymslu rafrænna gagna og lágmarkskröfur til rafrænna bókhaldskerfa svo og önnur fyrirmæli sett samkvæmt þeim.


14. gr.
Leyfishafar skulu að kröfu tollyfirvalda leggja fram og veita aðgang að bókhaldi sínu og bókhaldsgögnum og öðrum gögnum sem varða innflutning eða útflutning vara sem tollmeðferð fá og veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru að mati tollyfirvalda til að ganga úr skugga um að upplýsingar sem veittar eru með þessum hætti séu réttar.


15. gr.
Ákvæði 13. og 14. gr. um varðveislu og aðgang að gögnum skulu enn fremur eiga við, eftir því sem við getur átt, um varðveislu gagna af hálfu flutningsmiðlara, farmflytjenda og rekstraraðila tollvörugeymslna og frísvæða, varðandi gögn og upplýsingar sem þessir aðilar hafa sent tollyfirvöldum eða móttekið frá þeim vegna SMT- eða VEF-tollafgreiðslu. Skrifleg tollskjöl, sem inn- og útflytjendur afhenda flutningsmiðlurum og rekstraraðilum tollvörugeymslna og frísvæða vegna SMT-tollafgreiðslu, skulu afhent bókhaldsskyldum aðilum þegar tollafgreiðslu er lokið með dagsettri undirskrift og áritun um SMT-tollafgreiðslu. Tollstjóra skulu hins vegar afhent slík skjöl árituð sé ekki um bókhaldsskyldan aðila að ræða.


VII. KAFLI
Endurskoðun gjalda og ákvörðun gjalda að nýju.
16. gr.
Endurskoðun vegna SMT- eða VEF-tollafgreiðslu skal fara fram eftir á, nema gild rök réttlæti annað. Tollstjóri sem leyfi veitti til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu og þar sem leyfishafi á lögheimili skal sjá um endurskoðun eftir á án tillits til þess hvar vara var tollafgreidd. Ríkistollstjóri getur sett nánari framkvæmdareglur um endurskoðun tollstjóra.

Komi í ljós við tollmeðferð vöru annmarki á upplýsingagjöf innflytjanda eða útflytjanda eða að frekari skýringa sé þörf á einhverju atriði, skal fara að fyrirmælum 98., sbr. 149. gr., tollalaga. Tollstjóri skal þá ekki heimila afhendingu vöru fyrr en bætt hefur verið úr annmörkum eða fullnægjandi skýringar hafa verið látnar í té.

Um heimild tollstjóra til að endurákvarða gjöld eftir afhendingu vöru fer eftir 99., sbr. 149. gr. tollalaga. Um heimild ríkistollstjóra til endurákvörðunar gjalda fer eftir 35. gr. tollalaga.


VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
17. gr.
Ákvæði tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, svo og fyrirmæli sett samkvæmt þeim, skulu gilda um tollmeðferð og tolleftirlit eftir því sem við getur átt.


18. gr.
Ríkistollstjóri sér um þróun og rekstur tölvukerfis sem notað er af hálfu tollyfirvalda við tollafgreiðslu. Hann getur sett nánari fyrirmæli um framkvæmd SMT- eða VEF-tollafgreiðslu og m.a. ákveðið gerð þeirra rammaskeyta sem nota ber af hálfu tollstjóra, innflytjenda, útflytjenda og annarra.

Ríkistollstjóri getur ákveðið til hvers konar tollafgreiðslna reglugerð þessi tekur.

Ríkistollstjóri getur ákveðið að stöðva móttöku skeyta sem send eru í eða úr tölvukerfi ríkistollstjóra vegna breytinga á gjöldum, tollskrá, tollgengi eða af öðrum ástæðum sem gera það nauðsynlegt að hans mati.


19. gr.
Leyfi til SMT- eða VEF-tollafgreiðslu fellur úr gildi, ef skilyrði a- til c-liðar 3. gr. reglugerðar eru ekki lengur uppfyllt.


20. gr.
Misnotkun leyfis sem veitt hefur verið samkvæmt reglugerð þessari getur m.a. varðað við XIV. kafla tollalaga nr. 55/1987.

Um meðferð mála vegna brota á reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála.


21. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 14., 109., 121. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. janúar 2001. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 722/1997 um SMT-tollafgreiðslu og reglur nr. 510/1990, um einfaldari tollmeðferð á vörum, með síðari breytingum. Frá og með birtingu reglugerðar þessarar geta þeir sem óska eftir VEF-tollafgreiðslu sent umsókn þar um til tollstjóra þar sem þeir eiga lögheimili.


Fjármálaráðuneytinu, 1. desember 2000.

F. h. r
Baldur Guðlaugsson.
Tómas N. Möller.Þetta vefsvæði byggir á Eplica