Fjármálaráðuneyti

797/2000

Reglugerð um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum. - Brottfallin

Aðflutningsgjöld.
1. gr.

Með aðflutningsgjöldum er í reglugerð þessari átt við tolla svo og aðra skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru, þ.m.t. virðisaukaskatt.


Undanþága aðflutningsgjalda á grundvelli
alþjóða- og milliríkjasamninga og sérlaga.
2. gr.

Eftirtaldar vörur skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum við innflutning, enda sýni innflytjandi tollstjóra með fullnægjandi hætti fram á rétt til undanþágu:

1. Tilteknar vörur sem fluttar eru inn fyrir sendiráð, sendiræðismannaskrifstofur, sendierindreka og sendiræðismenn erlendra ríkja, í samræmi við 36. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband, sbr. fylgiskjal I við lög nr. 16/1978, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband.
2. Tilteknar vörur sem fluttar eru inn fyrir kjörræðismenn erlendra ríkja og ræðisskrifstofur, í samræmi við 50., sbr. 62. gr. Vínarsamningsins um ræðissamband, sbr. fylgiskjal I við lög nr. 4/1978, um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband.
3. Tilteknar vörur sem hervöld Bandaríkjanna svo og menn úr liði Bandaríkjanna og skyldulið þeirra flytja til landsins, í samræmi við 8. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og liðs þeirra, sem er fylgiskjal við varnarsamning milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins, sbr. lög nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra.
4. Efni og tæki sem flutt eru hingað til lands til varna gegn ofanflóðum, sbr. 15. gr. laga nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.
5. Vörur sem undanþegnar skulu aðflutningsgjöldum samkvæmt ákvæðum annarra sérlaga eða alþjóða- og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að.


Búferlaflutningar.
3. gr.

Heimilismunir manna sem flytja búferlum hingað til lands skulu undanþegnir aðflutningsgjöldum að uppfylltum neðangreindum skilyrðum:

1. Viðkomandi hafi átt lögheimili og haft fasta búsetu erlendis a.m.k. tólf síðustu mánuði áður en hann flytur til landsins.
2. Um sé að ræða notaða heimilismuni sem hafi verið í eigu hans í a.m.k. eitt ár. Þó mega heimilismunir sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma vera að heildarverðmæti allt að 100.000kr. að smásöluverði á innkaupsstað án nokkurs frádráttar á sköttum vegna útflutnings. Fjárhæð þessi gildir fyrir hvern fjölskyldumeðlim sautján ára og eldri en helmingi lægri fjárhæð fyrir þá sem yngri eru. Við ákvörðun verðmætis einstakra hluta skal leggja til grundvallar reikninga og kvittanir þar sem verð hluta er tilgreint. Séu slík gögn ekki tiltæk skal miðað við smásöluverð sams konar eða svipaðra hluta í verslun hér á landi.
3. Viðkomandi hafi muni þessa með sér er hann flytur búferlum eða flytji þá innan sex mánaða frá því hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlast hér lögheimili. Tollstjóri getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á, svo sem ef dvöl manns hér hefur upphaflega verið ákveðin einungis til skemmri tíma en framlengist síðan til varanlegrar búsetu.
4. Við tollafgreiðslu munanna gefi innflytjandi skriflega skýrslu, í því formi sem ríkistollstjóri ákveður, um að skilyrðum skv. 1.-3. tölul. sé fullnægt og munirnir séu fluttir inn eingöngu til nota á heimili hans hérlendis.

Tollstarfsmenn geta krafist skilríkja um þau atriði sem um ræðir í 1. mgr., búsetuheimild innflytjanda hér á landi, fjölskyldu hans, atvinnu og annað sem máli skiptir.

Eftirfarandi vörur teljast ekki til heimilismuna í skilningi þessarar greinar:

1. Búnaður, vélar eða tæki sem innflytjandi flytur með sér og notaður er við atvinnurekstur hans eða fjölskyldu hans.
2. Vélknúin ökutæki, svo sem bifreiðar, bifhjól, beltabifhjól, vélbátar, flugvélar og farartæki eins og seglbátar, svifflugur, svifdrekar o. þ. h.
3. Áfengi og tóbak.


Gjafir sendar af sérstöku tilefni.
4. gr.

Gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

1. Að verðmæti gjafar samkvæmt framlögðum reikningi sé ekki meira en 7.000 kr. Fylgi reikningur ekki vörusendingu skal tollstjóri áætla verðmæti með hliðsjón af líklegu smásöluverði hér á landi. Sé verðmæti gjafar meira en 7.000 kr. skal reikna aðflutningsgjöld að því marki sem verðmætið er umfram þá fjárhæð. Brúðkaupsgjafir skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum enda þótt þær séu meira en 7.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða.
2. Að viðtakandi sýni fram á að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast m.a. vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu sambandi.
3. Að sending beri með sér að um sé að ræða gjöf frá tilteknum aðila búsettum erlendis og að tengsl séu á milli þess aðila og gjafþega.

Sé ljóst af fylgiskjölum eða samsetningu gjafasendingar að hún sé ætluð tveimur eða fleiri aðilum og gjöfunum hafi eingöngu af hagkvæmnisástæðum eða vegna tilefnis sendingar verið pakkað saman til flutnings skal gjöf til hvers og eins talin sjálfstæð gjöf við mat á því hvort gjöfin teljist innan verðmætamarka skv. 1. tölul. 1. mgr.

Undanþága aðflutningsgjalda samkvæmt þessari grein tekur hvorki til áfengis- né tóbaksgjalds.


Gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi.
5. gr.
Tæki og búnaður sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf skulu undanþegin aðflutningsgjöldum. Jafnframt skulu gjafir, sem sendar eru hingað til lands og góðgerðarstofnanir og aðrir eiga að annast dreifingu á til bágstaddra, undanþegnar aðflutningsgjöldum.

Undanþága aðflutningsgjalda tekur til neðangreindra stofnana eða samtaka:

1. Rauða kross Íslands og einstakra deilda hans, slysavarnarfélaga og hjálpar- og björgunarsveita.
2. Sjúkrahúsa, hæla, elliheimila, endurhæfingar- og heilsugæslustöðva, skóla og heimila fyrir fatlaða og sjúka. Jafnframt félagasamtaka sem hafa með höndum sambærilega starfsemi.

Undanþága aðflutningsgjalda skal taka til neðangreindra tækja og búnaðar:

1. Tækja og áhalda sem notuð eru til lækninga og sjúkdómsgreininga.
2. Tækja sem notuð eru til endurhæfingar vegna sjúkdóma og slysa.
3. Annarra tækja sem notuð eru á stofnunum sem taldar eru upp í 2. tölul. 2. mgr. við endurhæfingu eða í þágu sjúklinga og vistmanna.
4. Bifreiða, sem eru fyrir 10 farþega eða fleiri að meðtöldum ökumanni og gefnar eru til sambýla fyrir fatlaða einstaklinga. Undanþága samkvæmt þessum tölulið nær þó einungis til virðisaukaskatts.

Skilyrði undanþágu samkvæmt þessari grein eru eftirfarandi:

1. Ef um endurgreiðslu aðflutningsgjalda er að ræða, að lögð sé fram sérstök beiðni um undanþágu frá aðflutningsgjöldum. Með beiðni skal fylgja skrifleg staðfesting viðkomandi mannúðar- eða líknarstofnunar um að viðkomandi hafi verið gefin gjöf sem undanþága tekur til og að henni hafi verið veitt móttaka.
2. Að ekki séu fjárhagsleg tengsl á milli gefanda og þiggjanda gjafar.
3. Þegar um er að ræða bifreiðar til sambýla fyrir fatlaða einstaklinga, sbr. 4. tölul. 3. mgr., að bifreið verði í eigu sambýlis í fimm ár. Ákvæði 20.-22. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, skulu gilda með samsvarandi hætti um brot gegn skilyrði þessa töluliðar fyrir niðurfellingu virðisaukaskatts, framkvæmd niðurfellingar og greiðslu eftirgefins virðisaukaskatts vegna breyttra nota.


Gjafir erlendis frá á grundvelli menningar- eða vináttutengsla við erlend ríki.
6. gr.
Gjafir sem ríki, sveitarfélögum eða stofnunum þeirra eru gefnar erlendis frá í vináttuskyni eða á grundvelli menningartengsla við erlend ríki skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum.

Skilyrði undanþágu frá aðflutningsgjöldum er að fylgiskjöl sendingar eða önnur gögn beri skýrt með sér að um sé að ræða gjöf og að fyrirsvarsmaður á vegum gjafþega staðfesti viðtöku gjafar.


Heiðursmerki og verðlaun.
7. gr.

Heiðursmerki og verðlaun sem innflytjandi hefur unnið til erlendis vegna vísindastarfa, íþróttaafreka o.þ.h., skulu undanþegin aðflutningsgjöldum, sem hér segir:

1. Sérstakir verðlaunagripir, s.s. styttur, verðlaunapeningar o.þ.u.l.
2. Önnur verðlaun, enda sé tollverð þeirra ekki meira en 100.000 kr.

Skilyrði undanþágu aðflutningsgjalda skv. 1. mgr. eru að innflytjandi sýni með fullnægjandi hætti fram á að um sé að ræða heiðursmerki eða verðlaun sem hann hefur unnið til erlendis vegna tiltekinna afreka eða frammistöðu. Undanþága nær ekki til verðlauna sem veitt eru í happdrættum, getraunum eða sem liður í söluátaki.


Arfur o.fl.
8. gr.
Notaðir munir sem fallið hafa í arf erlendis eru undanþegnir aðflutningsgjöldum. Undanþága aðflutningsgjalda tekur þó ekki til ökutækja eða annarra vélknúinna farartækja. Skilyrði undanþágu er að arfþegi sýni með fullnægjandi hætti fram á að honum hafi tæmst arfur erlendis, t.d. með framlagningu vottorðs skiptaráðanda þar um.

Ferðanauðsynjar hér búsettra manna sem látist hafa erlendis skulu jafnframt undanþegnar aðflutningsgjöldum.
Sýnishorn verslunarvara, hugbúnaðargögn og auglýsingaefni.
9. gr.

Eftirfarandi vörur eru undanþegnar aðflutningsgjöldum:

1. Sýnishorn verslunarvara, þó ekki áfengi eða tóbak, og auglýsingaefni, enda sé verðmæti vöru ekki meira en 5.000 kr. og sending beri með sér að um sé að ræða sýnishorn vöru. Þó skal slík vara undanþegin aðflutningsgjöldum þótt uppgefið verðmæti sé meira, hafi varan verið gerð ónothæf sem almenn verslunarvara.
2. Hugbúnaðargögn sem send eru án endurgjalds, ætluð til þróunar eða hönnunar hugbúnaðar, prófunar, leiðréttingar, uppfærslu eða eingöngu nothæf til kynningar.
3. Verðlaus bréf, bæklingar og prentuð gögn sem ekki hafa neitt viðskiptalegt gildi og ekki eru fallin til endurdreifingar.


Endursendar vörur og umbúðir.
10. gr.

Eftirfarandi vörur sem sendar hafa verið úr landi skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum ef þær eru fluttar á ný til landsins innan eins árs frá útflutningsdegi:

1. Vörur sem fluttar hafa verið héðan úr landi til sölu, en eru síðar endursendar til landsins vegna þess að þær seldust ekki erlendis eða af öðrum orsökum, enda leggi útflytjandi fram útflutningsskýrslu og önnur gögn sem beri með sér að vara hafi fengið tollafgreiðslu vegna útflutnings. Sama á við um endursendar tómar umbúðir eftir því sem við getur átt.
2. Vörur sem óskattskyldir aðilar hafa sent úr landi en fá endursendar frá útlöndum, enda hafi aðflutningsgjöld ekki verið endurgreidd af þeim við útflutning héðan.
3. Vörur sem sendar hafa verið tímabundið til sýningar erlendis, svo og tæki, verkfæri og annað þess háttar sem vísindamenn, björgunarleiðangrar og aðrir slíkir hafa meðferðis til útlanda til nota við athuganir sínar, rannsóknir og starfsemi, enda hafi þess verið getið í útflutningsskýrslu og beiðni um skoðun vörunnar við útflutning hver áætlaður endursendingartími þeirra væri.
4. Bifreiðar og bifhjól svo og önnur farartæki sem aðilar flytja með sér til útlanda til tímabundinna nota þar, enda hafi þeim verið framvísað við tollgæsluna til skoðunar við útflutning og jafnframt verið gerð grein fyrir þeim á þar til gerðu eyðublaði sem ríkistollstjóri lætur gera.


Vísindatæki og vísindabúnaður.
11. gr.
Vísindatæki og vísindabúnaður sem íslenskar vísindastofnanir eða vísindastofnanir sem Ísland er aðili að kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum.

Skilyrði undanþágu aðflutningsgjalda skv. 1. mgr. eru eftirfarandi:

1. Vísindastofnun skal leggja fram gögn um styrkveitingu, sé tæki keypt fyrir styrkfé.
2. Einungis skal fella niður aðflutningsgjöld að því marki sem tæki eða búnaður eru keypt fyrir styrk eða fengin að gjöf.
3. Séu kaup á tækjum eða búnaði fjármögnuð með styrk sem veittur hefur verið til ákveðins rannsóknarverkefnis, án þess að tilgreint sé að um sé að ræða styrk til kaupa á tilteknum tækjum eða búnaði, skal fella niður aðflutningsgjöld að því leyti sem kaupverð þeirra rúmast innan fjárhæðar styrksins, enda liggi fyrir staðfesting umsækjandaá að tækjakaupin séu þáttur í hinu tiltekna verkefni.
4. Sé um að ræða gjöf skulu ekki vera fjárhagsleg tengsl á milli gefanda og gjafþega.
5. Tæki eða búnaður nýtist með beinum hætti til rannsókna hjá vísindastofnun sem fær búnað að gjöf eða styrk til kaupa á búnaði. Ekki skal fella niður aðflutningsgjöld ef tæki eru einungis nýtt á óbeinan hátt við rannsóknir eða ef þau eru ætluð til almennra nota. Tölvur og hugbúnaður falla því aðeins undir heimildina ef búnaðurinn er nýttur til rannsóknaverkefna.

Undanþága frá aðflutningsgjöldum samkvæmt þessari grein nær einnig til vísindatækja og vísindabúnaðar sem íslenskar vísindastofnanir eða vísindastofnanir sem Ísland er aðili að eiga kost á að fá lánuð tímabundið án endurgjalds.


Búnaður björgunarsveita.
12. gr.
Björgunarbúnaður og björgunartæki sem flutt eru inn til starfsemi björgunarsveita hér á landi skulu undanþegin aðflutningsgjöldum.

Skilyrði undanþágu skv. 1. mgr. er að fyrir liggi staðfesting samstarfsnefndar um endurgreiðslu aðflutningsjalda á að hún hafi yfirfarið og fallist á beiðni um undanþágu aðflutningsgjalda.

Auk undanþágu frá aðflutningsgjöldum skal að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt vegna aðvinnslu sem framkvæmd er innan lands á ökutækjum björgunarsveita, svo og endurgreiða virðisaukaskatt vegna búnaðar sem fellur undir 1. mgr. og keyptur hefur verið hér á landi. Tollstjórinn í Reykjavík annast endurgreiðslu samkvæmt þessari málsgrein.

Skilyrði undanþágu og endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts við innflutning og vegna aðvinnslu af ökutækjum fyrir björgunarsveitir er að uppfyllt verði skilyrði 17. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, og eiga ákvæði 20.-22. gr. þeirrar reglugerðar við um niðurfellingu eða endurgreiðslu.


Vörur undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning.
13. gr.

Eftirfarandi vörur skulu undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning, en ekki öðrum aðflutningsgjöldum:

1. Loftför og skip. Þó ekki skip sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibátar eða einkaloftför.
2. Listaverk sem flokkast undir tollskrárnúmerin 9701.1000-9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn eða flutt eru inn á hans vegum.
3. Ritað mál sem sent er án endurgjalds til vísindastofnana, bókasafna og annarra opinberra stofnana, án tillits til í hvaða formi efnið er, sé innflutningurinn ekki í atvinnuskyni.
4. Vörur, þó ekki áfengi eða tóbak, sem fluttar eru til landsins af aðilum sem skráðir eru sem virðisaukaskattskyldir aðilar, enda sé fob-verð sendingar að hámarki 1.500 kr. Skilyrði undanþágu er að um sé að ræða vöru sem heimilt væri að innskatta virðisaukaskatt af, ef hann væri lagður á, skv. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.


Umsókn um undanþágu.
14. gr.
Umsókn um undanþágu aðflutningsgjalda samkvæmt reglugerð þessari skal beint til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem varan kemur til tollafgreiðslu.

Umsókn um niðurfellingu aðflutningsgjalda skal borin fram í aðflutningsskýrslu, ebl. E1, með því að rita viðeigandi undanþágutilvísun í reit 14 í skýrslunni. Með þessum hætti er innflytjandi að lýsa því yfir að hann sæki um undanþágu aðflutningsgjalda af tiltekinni vöru í vörusendingu samkvæmt þeim heimildum sem undanþágutilvísun nær til. Jafnframt felur slík umsókn í sér yfirlýsingu um að innflytjandi skuldbindi sig til að hlíta öllum þeim fyrirmælum, skilyrðum og takmörkunum sem er að finna í nefndum heimildum fyrir undanþágu gjaldanna og ráðstöfun vörunnar.

Undanþágutilvísanir vegna aðflutningsgjalda eru allt að sjö stafa lyklar sem vísa hver fyrir sig til tiltekinna heimilda. Ríkistollstjóri annast gerð og útgáfu undanþágutilvísana og leiðbeininga um notkun þeirra.


Kæra á úrskurði tollstjóra um undanþágu aðflutningsgjalda.
15. gr.
Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar undanþágu aðflutningsgjalda samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá því er ákvörðun tollstjóra lá fyrir. Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan 30 daga frá því er gagnaöflun er lokið. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurð til ríkistollstjóra, sbr. 2. mgr.

Úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr., verður skotið til ríkistollstjóra innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollstjóri skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollstjóra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.


Lagastoð.
16. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimildum í 5., 6. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, 2. mgr. 12. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, og 36. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 634/1983, um tollfrjálsan innflutning á verðlitlum sýnishornum, reglur nr. 272/1988, um tollmeðferð á heimilismunum manna sem flytja búferlum hingað til lands, með síðari breytingum, og reglur nr. 5/1990, um tollfrelsi samkvæmt 9. og 10. tölulið 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.


Fjármálaráðuneytinu, 30. október 2000.

F. h. r.
Árni Kolbeinsson.
Bergþór Magnússon.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica