Leita
Hreinsa Um leit

Fjármálaráðuneyti

719/2000

Reglugerð um undanþágu aðflutningsgjalda af aðföngum til ýmissar atvinnustarfsemi. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
Upphafsákvæði.
1. gr.

Tollstjóri skal fella niður eða endurgreiða toll og vörugjald, eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari, af aðföngum sem notuð eru við atvinnustarfsemi á eftirtöldum sviðum:

1. Við framleiðslu iðnaðarvara.
2. Við framleiðslu garðyrkjuafurða.
3. Við kvikmyndagerð, framleiðslu myndbanda og starfsemi hljóðvera.
4. Til flugrekstrar.


Almenn skilyrði fyrir undanþágu gjalda.
2. gr.

Almenn skilyrði fyrir undanþágu gjalda samkvæmt reglugerð þessari eru:

1. Að aðföngin falli undir vörusvið viðkomandi atvinnustarfsemi eins og því er lýst í reglugerðinni.
2. Að aðföngin séu ætluð aðilum sem:
a. stunda atvinnurekstur sem veitir rétt til undanþágu samkvæmt reglugerðinni,
b. hafa tilskilin starfs- og rekstrarleyfi, t.d. iðnaðarleyfi, flugrekstrarleyfi eða leyfi til útvarps og
c. hafa tilkynnt atvinnureksturinn til skráningar hjá skattstjóra, sé það áskilið skv. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
3. Að aðföngin verði eingöngu notuð í viðkomandi atvinnustarfsemi.


II. KAFLI
Framleiðsla iðnaðarvara.
Framleiðsla sem veitir rétt til undanþágu.
3. gr.
Tollur skal felldur niður eða endurgreiddur af aðföngum til framleiðslu iðnaðarvara, í samræmi við ákvæði þessa kafla.

Til iðnaðar telst vera framleiðsla í atvinnuskyni sem fellur undir iðnaðarlög nr. 42/1978, með síðari breytingum. Þyki vafi leika á því hvort starfsemi teljist vera framleiðsla iðnaðarvöru, skal leita álits iðnaðarráðuneytisins.


Vörusvið.
4. gr.

Undanþága tolls skv. 3. gr. nær til eftirtalinna aðfanga til framleiðslu iðnaðarvara:

1. Hráefna, efnivara og hluta í iðnaðarvörur.
2. Umbúða fyrir framleiðsluvörur.
3. Véla, vélarhluta og varahluta til vinnslu á framleiðsluvörum.


Undantekningar.
5. gr.

Undanþága tolls skv. 3. gr. nær ekki til eftirfarandi tilvika:

1. Ef starfsemi telst ekki vera framleiðsla innlendrar iðnaðarvöru.
2. Ef um er að ræða aðföng til skipasmíða. Um endurgreiðslu tolls af slíkum aðföngum fer eftir ákvæðum reglna nr. 172/1985, um endurgreiðslur tolla vegna skipasmíða og skipaviðgerða.
3. Ef um er að ræða óverulega aðvinnslu aðfanga. Pökkun, umbúðaskipti, átöppun, blöndun, flokkun, einföld samsetning vöruhluta, festing merkja eða annarra auðkenna á vörur og sambærilegar einfaldar aðgerðir teljast vera óveruleg aðvinnsla í þessu sambandi.
4. Ef hráefni ber magntoll (A1-toll) samkvæmt viðauka I í tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum.
5. Ef hráefni, efnivara eða hlutur eru nýtt við framleiðslu innlendra iðnaðarvara sem eiga að njóta tollfríðinda í öðrum EES-ríkjum, enda falli hráefnið undir ákvæði 14. gr. bókunar 4 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (upprunareglur) um bann við endurgreiðslu eða undanþágu tolla. Sama undantekning gildir vegna hliðstæðra ákvæða í öðrum fríverslunarsamningum.


6. gr.
Um úthlutun tollkvóta vegna landbúnaðarvara sem lúta reglum um tollkvóta, sbr. 6. gr. A í tollalögum (t.d. kjöt og kjötvörur, mjólkurafurðir, egg og grænmeti), og fluttar eru inn sem aðföng í iðnaðarvörur, fer skv. 53. gr. og 53. gr. A í lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


Undanþágur vegna vörugjalds á aðföng til iðnaðarframleiðslu.
7. gr.
Um undanþágur vegna vörugjalds á aðföng til iðnaðarframleiðslu fer eftir ákvæðum laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, svo og reglugerðar nr. 436/1998, um vörugjald.


III. KAFLI
Önnur atvinnustarfsemi.
Framleiðsla garðyrkjuafurða.
8. gr.
Tollur og vörugjald skulu felld niður eða endurgreidd af hráefni, efnivörum og hlutum til framleiðslu garðyrkjuafurða.

Aðföng sem undanþága gjalda skv. 1. mgr. nær til eru eftirfarandi:

1. Græðlingar og gróðurkvistir, án róta (tollskr.nr. 0602.1000).
2. Rósir, einnig ágræddar, sem ætlaðar eru til framhaldsræktunar í gróðurhúsi til afskurðar(úr tollskr.nr. 0602.4000).
3. Sáðplöntur, græðlingar og smáplöntur pottlausar eða í pottum eða bakkahólfum sem eru 6,5 sm í þvermál eða minni sem ætlaðar eru til framhaldsræktunar í gróðurhúsi í a.m.k. tvo mánuði fyrir sölu, þó ekki stórar úrslegnar plöntur og rótarþvegnar plöntur. Hámarkspottastærð á ekki við um smávaxin afbrigði (mini-plöntur), kaktusa eða þykkblöðunga þar sem miða skal við ungplöntur. Hámarkspottastærð á ekki við um tegundina Nertera granadensis. Hámarkspottastærð á ennfremur ekki við um alparósir (Azela, Rhododendron) sem fluttar eru inn á tímabilinu 1. september til 31. október (úr eftirtöldum tollskr.nr.: 0602.3000, 0602.4000, 0602.9020, 0602.9030, 0602.9059, 0602.9070, 0602.9091 og 0602.9092).
4. Smáplöntur af garðplöntum (1/0, 0/1) sem ætlaðar eru til framhaldsræktunar á garðplöntustöð í a.m.k. eitt sumar fyrir sölu (úr eftirtöldum tollskr.nr.: 0602.2000, 0602.3000, 0602.4000, 0602.9045 og 0602.9051).
5. Kartöfluútsæði flutt inn á tímabilinu 1. mars til 30. apríl (úr tollskr.nr. 0701.1000).
6. Steinull, sérstaklega gerð til framleiðslu garðyrkjuafurða (úr tollskr.nr. 6806.1009).
7. Háþrýstiperur til lýsingar í gróðurhúsum (úr tollskr.nr. 8539.3900).
8. Háþrýstilampar til lýsingar í gróðurhúsum (úr tollskr.nr. 9405.1009).
9. Forsmíðuð gróðurhús (úr tollskr.nr. 9406.0009).


Réttur til undanþágu gjalda er bundinn því skilyrði að rétthafi hafi aflað staðfestingar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á því að vörur sem undanþága nær til séu ætlaðar eða hafi verið notaðar til framleiðslu garðyrkjuafurða.


Kvikmyndagerð, myndbandaframleiðsla og önnur mynd- eða hljóðvinnsla.
9. gr.
Tollur og vörugjald skulu falla niður eða endurgreidd af tækjabúnaði og miðlum til kvikmyndagerðar myndbandaframleiðslu og annarrar mynd- og hljóðvinnslu.

Aðföng sem undanþága gjalda skv. 1. mgr. nær til eru m.a. eftirfarandi:

1. Hljóðnemar, hátalarar og magnarar (úr vörul. 8518).
2. Hljóðflutnings- og hljóðupptökutæki o.þ.h. (úr vörul. 8519 og 8520).
3. Myndflutnings- og myndupptökutæki o.þ.h. (úr vörul. 8521).
4. Óáteknir miðlar til hljóðupptöku og kvikmyndafilmur (úr vörul. 8523 og 3702).
5. Sjónvarpsviðtæki og myndskjáir (úr vörul. 8528).
6. Loftnet, myndlyklar o.fl. (úr vörul. 8529).
7. Kvikmyndavélar (úr vörul. 9007).
8. Lampar og ljósabúnaður (úr vörul. 9405).


Flugrekstur.
10. gr.
Tollur og vörugjald skulu falla niður eða endurgreidd af aðföngum til flugrekstrar.

Undanþága gjalda skv. 1. mgr. nær til vara og búnaðar sem ætlaður er til nota um borð í flugvélum og í beinum tengslum við rekstur þeirra. Eftirfarandi vörur falla m.a. hér undir:

1. Varahlutir, dekk, rafmagnsvörur til nota um borð í flugvélum, hvers kyns fylgifé og búnaður sem nýttur er um borð í flugvélum, þ.m.t. björgunarbúnaður.
2. Verkfæri og annar búnaður sem nýttur er við viðgerðir og viðhald flugvéla.
3. Smurolía, bón- og hreinsiefni, þéttiefni og málning á flugvélar.
4. Bréfsefni sem nýtt er í tengslum við flug, s.s. flugvéladagbækur og merkimiðar.


IV. KAFLI
Framkvæmd niðurfellingar eða endurgreiðslu.
Skráning rétthafa til niðurfellingar eða endurgreiðslu.
11. gr.
Aðili sem hyggst flytja til landsins vörur fyrir sig eða aðra skráða rétthafa, til nýtingar samkvæmt reglugerð þessari, og njóta við það réttar til niðurfellingar eða endurgreiðslu gjalda vegna innflutningsins, skal tilkynna það til tollstjóra í tollumdæmi þar sem aðili á lögheimili. Tilkynningin skal vera á sérstöku eyðublaði sem ríkistollstjóri útbýr í því skyni, og skal m.a. greina frá starfsemi aðila svo og til hvaða vörutegunda undanþága tekur.

Sé tilkynning skv. 1. mgr. ófullnægjandi að mati tollstjóra, s.s. ef upplýsingagjöf er ónæg eða ekki verði ráðið af umsókn að viðkomandi eigi rétt til niðurfellingar eða endurgreiðslu, skal tollstjóri eftir atvikum kalla eftir frekari skýringum eða hafna skráningu. Að öðrum kosti staðfestir tollstjóri rétt umsækjanda til niðurfellingar eða endurgreiðslu á gjöldum með áritun sinni á tilkynninguna. Afrit staðfestrar tilkynningar skal sent aðila.

Staðfest tilkynning, sbr. 2. mgr., heimilar rétthafa að flytja aðföng til landsins án greiðslu gjalda eða fá gjöldin endurgreidd eftirá, í samræmi við efni tilkynningar og ákvæði II. og III. kafla, með þeim hætti sem kveðið er á um í 12. og 13. gr.


Framkvæmd niðurfellingar.
12. gr.
Skráður rétthafi skv. 11. gr. skal beina ósk um niðurfellingu gjalda hverju sinni til tollstjóra í því tollumdæmi þar sem varan kemur til tollafgreiðslu.

Umsókn skal borin fram í aðflutningsskýrslu, ebl. E1, með því að rita viðeigandi undanþágutilvísun í reit 14 í skýrslunni. Með þessum hætti er innflytjandi að lýsa því yfir að hann sæki um undanþágu aðflutningsgjalda af tiltekinni vöru í vörusendingu samkvæmt þeim heimildum sem undanþágutilvísun nær til. Jafnframt felur slík umsókn í sér yfirlýsingu um að innflytjandi skuldbindi sig til að hlíta öllum þeim fyrirmælum, skilyrðum og takmörkunum sem í nefndum heimildum er að finna fyrir undanþágu gjaldanna og ráðstöfun vörunnar.

Undanþágutilvísanir vegna aðflutningsgjalda eru allt að sjö stafa lyklar sem vísa hver fyrir sig til tiltekinna heimilda. Ríkistollstjóri annast gerð og útgáfu undanþágutilvísana og leiðbeininga um notkun þeirra.


Framkvæmd endurgreiðslu.
13. gr.
Skráður rétthafi skv. 11. gr. getur á tveggja mánaða fresti fengið endurgreidd gjöld af vöru sem hann hefur flutt til landsins án þess að nýta rétt til niðurfellingar skv. 12. gr., en hefur á tímabilinu verið nýtt eða seld í samræmi við efni heimildar hans.

Sækja skal um endurgreiðslu í sérstakri skýrslu, í því formi sem ríkistollstjóri ákveður, til tollstjóra þar sem vara var tollafgreidd. Í endurgreiðsluskýrslu skulu m.a. koma fram upplýsingar um sölu eða nýtingu þess hráefnis eða efnivöru sem endurgreiðslubeiðnin snertir, þar með talið heiti kaupenda, heiti vöru, heildarmagn hennar og fjárhæð gjalda sem óskað er endurgreiðslu á. Innflytjanda er heimilt að láta tollstjóra í té yfirlit yfir þá viðskiptavini sem kaupa af honum hráefni eða efnivöru án gjalda á grundvelli heimildar tollstjóra skv. 11. gr. og þarf þá ekki að tilgreina nöfn kaupenda á skýrslu hverju sinni.

Endurgreiðsla samkvæmt þessari grein skal miða við tveggja mánaða uppgjörstímabil, janúar og febrúar, mars og apríl o.s. frv. Endurgreiðslubeiðni vegna hvers uppgjörstímabils skal senda til tollstjórans í Reykjavík eigi síðar en 15. dag annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils og skal endurgreiðsla fara fram eigi síðar en 28. dag annars mánaðar frá lokum uppgjörstímabils.

Sé endurgreiðsluskýrslu ekki skilað fyrr en að loknum tilgreindum tímafresti skal endurgreiðsla fara fram að liðnum 15 dögum frá skilum hennar.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
Bókhald.
14. gr.
Rétthöfum samkvæmt reglugerð þessari ber að haga bókhaldi sínu með þeim hætti að aðgengilegt sé fyrir tollyfirvöld að staðreyna að sala eða nýting vöru, sem gjöld hafa verið felld niður eða endurgreidd af, sé í samræmi við heimildir rétthafa.


Refsiákvæði.
15. gr.
Misnotkun á gjaldfríðindum samkvæmt reglugerð þessari getur varðað refsingu skv. m.a. 130. gr. tollalaga.


Kæra á úrskurði tollstjóra um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda.
16. gr.
Telji innflytjandi ákvörðun tollstjóra, er varðar rétt til niðurfellingar eða endurgreiðslu gjalda samkvæmt reglugerð þessari, eigi rétta, getur hann óskað eftir úrskurði tollstjóra með því að senda honum skriflega kæru, studda nauðsynlegum rökum og gögnum, innan 60 daga frá tollafgreiðsludegi eða synjun tollstjóra um tollmeðferð samkvæmt reglugerð þessari. Tollstjóri skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan 30 daga frá því er gagnaöflun er lokið. Innflytjanda skal sendur úrskurður í ábyrgðarbréfi og honum bent á heimild til að kæra úrskurð til ríkistollstjóra, sbr. 2. mgr.

Úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. verður skotið til ríkistollstjóra innan 60 daga frá dagsetningu eða póstlagningu úrskurðar. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum. Ríkistollstjóri skal úrskurða um kæru innan 30 daga frá því er hún barst honum. Úrskurður ríkistollstjóra er fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi.


Lagastoð.
17. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimildum í 6. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. nóvember 2000. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 310/1994, um endurgreiðslu eða niðurfellingu tolls og vörugjalds af kartöfluútsæði, græðlingum og öðrum efnivörum, hráefni og hlutum til framleiðslu garðyrkjuafurða, með síðari breytingum, auglýsing nr. 8/1982, um niðurfellingu aðflutningsgjalda af ýmsum vörum til nota í flugvélum eða í beinum tengslum við þær, með síðari breytingum, og auglýsing nr. 617/1989, um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar, með síðari breytingum.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
Leyfisbréf sem gefin hafa verið út fyrir gildistöku reglugerðar þessarar til framleiðenda hér á landi til undanþágu á tolli af hráefni, efnivöru og hlutum í framleiðslu þeirra, sbr. II. kafli reglugerðarinnar, skulu falla úr gildi við gildistöku reglugerðarinnar.

Aðilar sem fyrir gildistöku reglugerðarinnar hafa notið undanþágu gjalda af búnaði til mynd- og hljóðvinnslu, af vörum til nota við framleiðslu garðyrkjuafurða og af búnaði til nota í flugvélum, sbr. III. kafli reglugerðarinnar, skulu halda rétti til niðurfellingar eða endurgreiðslu gjalda í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar án sérstakrar umsóknar. Ríkistollstjóri skal skrá heimild þessara aðila til notkunar viðkomandi undanþágutilvísunar í tölvukerfi tollyfirvalda.


Fjármálaráðuneytinu, 11. október 2000.

F. h. r.
Árni Kolbeinsson.
Maríanna Jónasdóttir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica