Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

8/1996

Reglugerð um ökurita sem notaðir eru sem þungaskattsmælar í ökutækjum sem skylt er að vera búin ökuritum samkvæmt reglugerð nr. 136/1995.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. reglugerð nr. 62/1977, um ökumæla, skal nota innsiglaða ökumæla til ákvörðunar þungaskatts.

Sé ökuriti notaður til ákvörðunar þungaskatts í ökutækjum sem skylt er að búa ökurita samkvæmt reglugerð nr. 136/1995, um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. innan Evrópska efnahagssvæðisins, er ekki skylt að innsigla mælishús ökuritans, að því tilskildu að farið sé eftir ákvæðum þessarar reglugerðar.

2. gr.

Sé ökuriti notaður sem ökumælir skv. 1. gr., er skylt við lok hvers dags, sem ökutæki er ekið, að lesa kílómetrastöðu af ökurita og skrá hana í akstursbók. Ökumaður skal athuga hvort ökuriti hafi talið rétt og að kílómetrastöðu beri saman við akstur dagsins. Jafnframt er skylt að hafa skráningarblað (skífu) í ökuritanum, þar sem skráðar eru upplýsingar um akstur ökutækisins. Um notkun ökuritans og skráningarblaða hans skulu að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar nr. 136/1995 með síðari breytingum og ákvæði þeirra EBE gerða sem þar er vísað til.

3. gr.

Nú uppfyllir ökumaður ekki skyldur sínar skv. 2. gr. með því að skrá ekki akstur í akstursbók eða hafa ekki skráningarblað í ökurita. Skal þá litið svo á að innsigli ökuritans hafi verið rofið án heimildar og því heimilt skv. 5. mgr. 9. gr. laga nr. 3/1987, að ákvarða eiganda og/eða umráðamanni viðurlög er samsvara allt að 10.000 km akstri á mánuði.

4. gr.

Eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar og innheimtumönnum ríkissjóðs er heimilt að krefja eiganda eða umráðamann ökutækis, sem nýtur undanþáguheimildar þessarar reglugerðar, um að afhenda sér til skoðunar skráningarblöð (skífur) ökuritans frá 15. janúar 1996.

5. gr.

Óheimilt er öðrum verkstæðum en þeim, sem eru viðurkennd af ráðuneytinu, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 62/1977, um ökumæla, að rjúfa innsigli á mælishúsum ökurita sem notaðir eru til ákvörðunar þungaskatts, samkvæmt þessari reglugerð.

Skylt er að senda Vegagerðinni tilkynningu um að innsigli ökurita hafi verið rofið. Vegagerðin annast eftirlit með ökuritum.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, öðlast þegar gildi.

Um þau atriði sem ekki eru sérstök ákvæði í reglugerð þessari og lúta að notkun og búnaði ökurita fer samkvæmt reglugerð nr. 62/1977, um ökumæla, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 136/1995, um aksturs- og hvíldartíma ökumanna o.fl. innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum.

Fjármálaráðuneytinu, 15. janúar 1995.

F. h. r.
Indriði H. Þorláksson.

Hermann Jónasson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.