Fjármálaráðuneyti

310/1994

Reglugerð um endurgreiðslu eða niðurfellingu tolls og vörugjalds af kartöfluútsæði, græðlingum og öðrum efnivörum, hráefni og hlutum til framleiðslu garðyrkjuafurða.

Gildissvið.

1. gr.

Heimilt er samkvæmt reglugerð þessari að fella niður eða endurgreiða toll og vörugjald, eftir því sem við á, af kartöfluútsæði og efnivörum, hráefni og hlutum til nota við framleiðslu garðyrkjuafurða í atvinnuskyni.

2. gr.

Niðurfelling eða endurgreiðsla gjalda samkvæmt reglugerð þessari er bundin við vörur sem tilgreindar eru hér að neðan og flokkast í eftirtalin tollskrárnúmer, sbr. viðauka I við tollalög nr. 55/1987, með síðari breytingum:

Úr 0602.3000: Alparósir og glóðarrósir, einnig ágræddar, sem tilbúnar eru til kuldameðferðar eða fluttar inna á tímabilinu 1. september til 31. október.

Úr 0602.40000: Rósir, einnig ágræddar, sem ætlaðar eru til framhaldsræktunar í gróðurhúsum.

Úr 0602.9900: Plöntur sem ætlaðar eru til framhaldsræktunar í a.m.k. 2 mánuði og eru í pottum sem eru 6,5 cm í þvermál eða minni.
0701.1000 Kartöfluútsæði.
8539.3900Úrhleðslulampar, ót.a.
9405.4009Rafmagnslampar og ljósabúnaður, ót.a.
9406.0009Forsmíðaðar byggingar, ót.a.

Niðurfelling gjalda.

3. gr.

Niðurfelling eða endurgreiðsla gjalda samkvæmt reglugerð þessari er bundin þeim skilyrðum að sá sem nytur niðurfellingar eða endurgreiðslu gjalda hafi:

a. Tilkynnt skattstjóra um starfsemi sína samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

b. Aflað staðfestingar Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins á því að vörur sem um ræðir í 2. gr. séu ætlaðar eða hafi verið notaðar til framleiðslu garðyrkjuafurða.

4. gr.

Við tollafgreiðslu skal fella niður toll og vörugjald af vörum sem um ræðir í 2. gr. að uppfylltum skilyrðum 3. gr. Tollmeðferð þessi er bundin þeim skilyrðum að innflutningur sé allur á nafni framleiðanda sem á rétt á niðurfellingu og því sé lyst yfir í reit 14 í aðflutningsskýrslu, með vísan til reglugerðar þessarar, að viðkomandi vörusending sé öll eða að hluta, sem þá skal sérstaklega reiknaður út í aðflutningsskýrslu, ætluð nánar tilgreindum framleiðanda. Vísan til reglugerðar þessarar felur jafnframt í sér yfirlýsingu um að vara sem óskað er undanþágu fyrir sé eingöngu flutt inn til eigin nota viðkomandi framleiðanda.

Við frágang aðflutningsskýrslu skulu niðurfelld gjöld ekki reiknuð en að öðru leyti skal farið eftir ákvæðum tollalaga nr. 55/1987, svo og reglugerðum og öðrum fyrirmælum settum samkvæmt þeim.

Endurgreiðsla gjalda.

5. gr.

Nú er vara sem um ræðir í 2. gr., flutt inn til endursölu, eða um er að ræða slíka vöru framleidda hér á landi, og skulu þá gjöld innheimt að fullu við sölu en endurgreidd eftir á, enda sæki endanlegur kaupandi vörunnar um endurgreiðslu til tollstjóra í því umdæmi sem lögheimili hans er.

Umsókn um endurgreiðslu gjalda skal leggja fram í þríriti á sérstöku eyðublaði sem ríkistollstjóri lætur gera í þessu skyni. Í umsókninni skulu eftirfarandi atriði koma fram:

a. Tollskrárnúmer hverrar vöru og vörulýsing.

b. Kaupverð hverrar vöru fyrir sig og upphæð greiddra gjalda.

c. Fjárhæð umbeðinnar endurgreiðslu af hverri vöru fyrir sig.

d. Heildarfjárhæð endurgreiðslubeiðni.

e. Yfirlýsing umsækjanda um að varan sé ætluð til eigin nota við framleiðslu garðyrkjuafurða og nánari tilgreiningu á því til hvaða framleiðslu varan fari.

Umsókn skal fylgja frumrit og eitt afrit af reikningi yfir hina keyptu vöru sem beri greinilega með sér hvaða gjöld hafi verið greidd og sundurliðuð upphæð þeirra, eða reikningi fylgi sérstök útskrift frá seljanda er sýni sundurliðun gjalda.

Umsókn um endurgreiðslu skal auk þess fylgja staðfesting Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins sbr. b-lið 3. gr.

6. gr.

Umsókn um endurgreiðslu skv. 5. gr. skal hafa borist tollstjóra innan 12 mánaða frá sölu til þess aðila sem sækir um endurgreiðslu og nema minnst 20 þúsund krónum til að vera endurgreiðsluhæf. Heimilt er að leggja saman reikninga til þess að lágmarksfjárhæð náist.

Endurgreiðslan kemur því aðeins til greina að allar upplýsingar séu skilmerkilega færðar og umsókn undirrituð af umsækjanda.

7. gr.

Tollstjóri skal við endurgreiðslu gjalda halda eftir kvittuðu frumriti umsóknar um endurgreiðslu, sem gefið skal afgreiðslunúmer í hlaupandi töluröð miðað við almanaksár, ásamt afriti reiknings. Skjöl þessi skulu send ríkisbókhaldi með mánaðarskilagrein. Fyrsta afrit umsóknar skal senda skattstofu í því umdæmi þar sem umsækjandi hefur aðsetur, en annað afrit umsóknar ásamt frumriti reiknings með áritun um endurgreiðslu skal afhenda viðkomandi umsækjanda.

8. gr.

Fjármálaráðherra getur ákveðið að fjölga tollskrárnúmerum í 2. gr. enda skal beina skriflegri umsókn þar að lútandi til ráðuneytisins. Í umsókninni skal gerð grein fyrir því hvaða vörur óskað er eftir að njóti ívilnana og hvaða þyðingu það hafi fyrir framleiðslu garðyrkjuafurða.

Ýmis ákvæði.

9. gr.

Aðili sem fær endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal tilgreina endurgreidd gjöld í skattframtali eða í skýringum með því. Ennfremur skulu aðilar halda reikningum og öðrum gögnum varðandi vörur sem njóta eftirgjafar aðgreindum í bókhaldi sínu.

10. gr.

Tollyfirvöld skulu jafnan hafa aðgang að þessum gögnum telji þau ástæðu til eftirlits eða rannsóknar á þeim. Tollyfirvöldum skulu ennfremur veittar upplýsingar um notkun varanna sé þess óskað.

11. gr.

Komi í ljós við rannsókn tollyfirvalda á bókhaldi að misnotaðar hafi verið ívilnanir sem hafa verið veittar samkvæmt þessari reglugerð eða rökstuddur grunur er um misnotkun geta tollyfirvöld hafnað beiðni um niðurfellingu eða endurgreiðslu gjalda á meðan málið er í athugun.

Jafnframt skal aðili að kröfu tollyfirvalda þegar greiða að fullu aðflutningsgjöld af þeim vörum sem misnotaðar hafa verið ásamt dráttarvöxtum, eins og þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, og skulu þeir reiknaðir frá tollafgreiðsludegi.

12. gr.

Röng skýrslugjöf, framlagning rangra eða villandi gagna og rangar eða villandi upplýsingar látnar í té í því skyni að fá ívilnun á tolli eða öðrum gjöldum samkvæmt reglugerð þessari getur varðað refsingu og öðrum viðurlögum samkvæmt XIV. kafla tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

13. gr.

Af vörum sem undanþegnar eru aðflutningsgjöldum samkvæmt reglugerð þessari skal greiða virðisaukaskatt eins og kveðið er á um í lögum nr. 50/1988, með síðari breytingum, svo og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

14. gr.

Fjármálaráðuneytið sker úr ágreiningi sem rísa kann um framkvæmd og túlkun reglugerðar þessarar.

15. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 22. tölul. 6. gr. og 148. gr. tollalaga laga nr. 55/1987, og 2. mgr. 11. gr. laga um vörugjald nr. 97/1987, með síðari breytingum, og tekur til innfluttra vara sem tollafgreiddar hafa verið frá 1. janúar 1994 og innlendra vara sem seldar hafa verið frá sama tíma.

Fjármálaráðuneytið, 31. maí 1994.

F.h.r.
Indriði H. Þorláksson

Ingibjörg Þorsteinsdóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica