Fjármálaráðuneyti

559/1983

Reglugerð um gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda - Brottfallin

REGLUGERÐ

um gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda.

1. gr.

Aðflutningsgjöld falla í gjalddaga þegar far, sem flytur vöru til landsins, tekur höfn þar sem vara verður affermd. Greiða skal í einu lagi aðflutningsgjöld af vörum sem skráðar eru í sama farmskrárnúmeri, nema skipting farmskrárnúmers hafi verið heimiluð eða vörur hafi verið látnar í tollvörugeymslu.

Af vöru sem er í vörslu farmflytjanda skulu aðflutningsgjöld greidd innan tólf mánaða, talið frá gjalddaga. Af vöru sem hefur verið látin í tollvörugeymslu skulu aðflutningsgjöld greidd innan þriggja ára, talið frá gjalddaga, nema fjármálaráðherra hafi heimilað lengri greiðslufrest.

2. gr..

Aðflutningsgjöld skulu greidd tollstjóra þar sem vara er flutt úr fari því sem hana flytur til landsins. Sé vara framsend ótollafgreidd samkvæmt ákvæðum V. kafla laga nr. 59/1969 um tollheimtu og tolleftirlit með áorðnum breytingum skal þó greiða gjöldin í því umdæmi sem varan er send til.

3. gr.

Tollstjóri getur stöðvað tollafgreiðslu á öðrum vörum til þess sem er í vanskilum með aðflutningsgjöld þar til greiðsla á eindöguðum aðflutningsgjöldum ásamt dráttarvöxtum og öðrum kostnaði hefur farið fram.

4. gr.

Aðflutningsgjaldsskyld vara er að veði fyrir aðflutningsgjöldum, sektum, dráttarvöxtum og kostnaði, og hefur eigandi ekki rétt til að ráða yfir henni fyrr en búið er að greiða gjöld þessi, sektir, dráttarvexti og kostnað. Helst veðrétturinn eins, þótt varan hafi verið afhent viðtakanda.

5. gr.

Sé vara tekin úr vörslu farmflytjanda eða tollvörugeymslu eða til notkunar án þess að skriflegt leyfi tollstjóra liggi fyrir eru aðflutningsgjöld þegar fallin í eindaga. Telst hann í því tilviki hinn sami og gjalddagi skv. 1. mgr. 1. gr. hafi vara verið í vörslu farmflytjanda, en hafi hún verið sett í tollvörugeymslu telst hann sá dagur þegar tollstjóri veitti leyfi til flutnings vöru þangað, nema sannað sé á fullnægjandi hátt að mati tollstjóra að atvik þessi séu síðar til komin.

Þegar atvik eru eins og um ræðir í 1. mgr. þessarar greinar skulu aðflutningsgjöld af viðkomandi vöru reiknuð út samkvæmt tollafgreiðslugengi sem í gildi er þegar vara er tekin til tollmeðferðar, sbr. 11. og 14. gr. laga nr. 120/1976 um tollskrá o. fl., og dráttarvextir jafnframt innheimtir. Dráttarvextir skulu vera hinir sömu og hámarksvanskilavextir í skuldaskiptum þegar gengistrygging helst á gjaldfallinni fjárhæð, til viðbótar vöxtum af innlendum gjaldeyrisreikningum fyrir hlutaðeigandi gjaldeyri eins og vextir þessir ásamt hámarksvanskilavöxtum eru ákveðnir skv. 13. gr. laga nr. 10/1961 og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Sé hlutaðeigandi gjaldeyrir ekki skráður í vaxtatilkynningu Seðlabankans skal miða við almenna sparisjóðsvexti í viðkomandi landi eins og Seðlabankinn gefur þá upp samkvæmt beiðni hverju sinni. Dráttarvextirnir skulu reiknaðir af aðflutningsgjöldunum eins og þau eru ákveðin samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, talið frá eindaga til þess dags er varan er tekin til tollmeðferðar. Séu aðflutningsgjöld ásamt dráttarvöxtum eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt framansögðu ekki greidd um leið og vara er tekin til tollmeðferðar skal innheimta af skuldinni, frá þeim tíma og þar til aðflutningsgjöld eru að fullu greidd, sömu dráttarvexti og innlánsstofnunum er heimilt að áskilja sér skv. 13. gr. laga nr. 10/1961 og ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma.

6. gr.

Séu aðflutningsgjöld sem á vöru hvíla ekki greidd á eindaga eins og hann er ákveðinn skv. 1. og 5. gr. má tollstjóri láta selja vöruna á uppboði, án undanfarandi lögtaks eða fjárnáms, til lúkningar gjöldum, sektum, dráttarvöxtum og kostnaði. Skal uppboð vöru boðað með minnst viku fyrirvara.

Náist ekki til vöru sem greiða átti af aðflutningsgjöld má án undanfarandi birtingar gera lögtak fyrir aðflutningsgjöldunum, sektum, dráttarvöxtum og kostnaði í öðrum eignum viðtakanda og selja hið lögtekna á uppboði á sama hátt og að framan greinir um gjaldskylda vöru skv. 1. mgr.

Aðflutningsgjöld greiðast af uppboðsandvirði með forgangsrétti næst á eftir uppboðskostnaði og getur tollstjóri eða umboðsmaður hans krafist borgunar við hamarshögg. Sé uppboðsandvirði vörunnar hærra en nemur aðflutningsgjöldum ásamt sektum, dráttarvöxtum og áföllnum kostnaði skal greiða vörueigandanum afganginn, ef hann gefur sig fram innan árs frá uppboðsdegi. Að þeim tíma liðnum fellur fjárhæðin til ríkissjóðs.

7 . gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 59/1969 um tollheimtu og tolleftirlit og lögum nr. 47/1960 um tollvörugeymslur o. fl. og öðlast þegar gildi. Jafnframt er frá sama tíma felld úr gildi 68. og 69. gr. reglugerðar nr. 41/1957 um tollheimtu og tolleftirlit svo og önnur fyrirmæli sem ekki samrýmast ákvæðum þessarar reglugerðar.

Fjármálaráðuneytið. 21. júlí 1983.

Albert Guðmundsson.

Höskuldur Jónsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica