Fjármálaráðuneyti

564/1989

Reglugerð um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi. - Brottfallin

Reglugerð um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðarstarfsemi.

1. gr.

Góðgerðarstarfsemi er eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð þessari undanþegin virðisaukaskatti þegar hagnaður af henni rennur að öllu leyti til líknarmála.

Til líknarmála í skilningi reglugerðar þessarar telst m.a. bygging og rekstur sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva, elliheimila, vöggustofa, barnaheimila, stofnana fyrir drykkjusjúklinga og lamaða og fatlaða og annarra hliðstæðra stofnana.

2. gr.

Eftirtalin starfsemi getur fengið undanþágu samkvæmt reglugerð þessari:

1. Basarsala (flóamarkaður), merkjasala og önnur slík sala góðgerðarfélaga. Sami aðili getur einungis fengið undanþágu vegna einnar sölstarfsemi af áður nefndu tagi í hverjum mánuði, enda vari hún ekki nema þrjá daga í hvert sinn. Sé um að ræða árlegan atburð má starfsemi vara allt að 15 daga. Skilyrði er að starfsemi sé á ábyrgð og fjárhagslega áhættu aðila og að hann hafi að öðru leyti ekki með höndum sölu á skattskyldri vöru og þjónustu.

2. Söfnun og sala verðlítila notaðra muna, svo sem fatnaðar, pappírs og umbúnað utan af drykkjarvöru. Skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt þessum tölulið er að aðili hafi að öðru leyti ekki með höndum skattskylda starfsemi og að eingöngu sé selt til skattskyldra aðila.

3. gr.

Sækja skal um undanþágu samkvæmt reglugerð þessari til skattstjóra í því umdæmi þar sem aðili á lögheimili. Umsókn skal hafa borist skattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst. Ákvörðun skattstjóra um undanþágu getur verið tímabundin og háð öðrum skilyrðum sem hann setur. Kæra má ákvörðun skattstjóra til ríkisskattstjóra.

Aðili sem fær undanþágu má hvorki tilgreina ásölureikningum sínum né gefa á annan hátt til kynna á þeim að virðisaukaskattur sé innifalinn í reikningsfjárhæð.

Undanþága nær aðeins til sölu eða afhendingar vöru en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til starfseminnar.

4. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu skv. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og öðlast gildi 1. janúar 1990.

Fjármálaráðuneytið, 4. desember 1989.
Ólafur Ragnar Grímsson
Snorri Olsen


Þetta vefsvæði byggir á Eplica