Leita
Hreinsa Um leit

Fjármálaráðuneyti

121/1991

Reglugerð um breyting á reglugerð nr.327/1990 um tollafgreiðslu hraðsendinga. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um breyting á reglugerð nr. 327/1990,

um tollafgreiðslu hraðsendinga.

1. gr.

2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Flutningsmiðlari ákveður fjárhæð ábyrgðar sem jafnframt er hámark þeirrar fjárhæðar aðflutningsgjalda sem gjaldfrestur er veittur á innan hvers uppgjörstímabils, sbr. 9. gr. Telji tollstjóri ábyrgðarfjárhæð ófullnægjandi má hann ákveða lágmark hennar. Ábyrgð skal vera ótímabundin og uppsegjanleg af hálfu ábyrgðaraðila með ábyrgðarbréfi til viðkomandi tollstjóra. Uppsögn ábyrgðar tekur ekki gildi fyrr en tollstjóri hefur staðfest skriflega að henni hafi verið veitt viðtaka. Uppsögn breytir hvorki ábyrgð varðandi aðflutningsgjöld sem greiðslufrestur hefur verið veittur á fyrir gildistöku ábyrgðar né ábyrgð á greiðslu dráttarvaxta viðurlaga eða annars kostnaðar. Eftir gildistöku uppsagnar ábyrgðar er tollstjóra óheimilt að tollafgreiða hraðsendingar til viðkomandi flutningsmiðlara samkvæmt reglugerð þessari.

2. gr.

Í stað 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar komi:

Við afhendingu hraðsendinga skal flutningsmiðlari afhenda tollgæslunni flugfarmbréf svo og undirfarmskrá þar sem m.a. skal veita upplýsingar um verðmæti, tegund og þyngd vöru. Ríkistollstjóri getur sett nánari fyrirmæli um gerð eyðublaðs fyrir undirfarmskrá og frekari upplýsingar sem þar skulu veittar. Ákvæði tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, m.a. um aðflutnigsskýrslur og aðrar skýrslugjafir gilda eftir því sem við getur átt um eyðublaðið og upplýsingar sem þar eru veittar.

3. gr.

1. málsl. 4. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Vanti ofangreind tollskjöl eða þeim er í einhverju ábótavant með tilliti til hraðsendingarinnar í heild eða að hluta getur tollgæslan neitað um afhendingu á þeim hluta sendingarinnar sem ábótavant er þar til úr hefur verið bætt, enda sé það gert innan viðkomandi uppgjörstímabils, sbr. 9. gr. Að uppgjörstíma liðnum verður viðkomandi sending að hafa hlotið fullnaðarafgreiðslu áður en afhending er heimiluð.

4. gr.

1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Flutningsmiðlari skal við fullnaðartollafgreiðslu skila þeim tollstjóra, sem leyfi veitti samkvæmt 3. gr., aðflutningsskýrslu ásamt viðkomandi vörureikningum og öðrum tollskjölum innan 16 daga frá lokum uppgjörstímabils, sbr. 9. gr., og standa honum skil á álögðum aðflutningsgjöldum, sbr. 9. gr.

5. gr.

9. gr. reglugerðarinnar orðist svo:

Uppgjörstímabil vegna hraðsendinga skal vera einn mánuður. Gjalddagi vegna hraðsendinga sem afhentar hafa verið innan hvers uppgjörstímabils skal vera síðasti dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils eða næsti virki dagur þar á eftir beri hann upp á helgidag eða almennan frídag.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 6, og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987 til að öðlast gildi þegar í stað.

Fjármálaráðuneytið, 15. mars 1991.

F. h. r.

Snorri Olsen.

Guðrún Ásta Sigurðardóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica