Fjármála- og efnahagsráðuneyti

1237/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 192/1993, um innskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

Á eftir orðunum "fyrir skráningardag" í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur: sbr. þó ákvæði 13. gr.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6. tölul. 2. gr. reglugerðarinnar:

  1. Orðin "hópbifreiða og" í 1. málsl. falla brott.
  2. Í stað orðanna "og vörubifreiðir" í 2. málsl. kemur: vöru- og torfærubifreiðir.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á eftir 1. tölul. 1. mgr. kemur nýr töluliður er verður 2. tölul., svohljóðandi: Torfærubifreiða með leyfða heildarþyngd 5.000 kg eða minna.
  2. Í stað orðanna "skv. 1. tölul." í 1. málsl. 4. mgr. kemur: skv. 1. og 2. tölul.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað orðanna "forsendum fyrir frádrætti" í 1. málsl. 1. mgr. kemur: forsendu fyrir færslu.
  2. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Lausafjármuna, svo sem farartækja, véla, tækja, áhalda og innréttinga sem rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, enda nemi kaupverð (stofnverð) einstakrar eignar eða eignasamstæðu a.m.k. 250.000 kr. (án virðisaukaskatts).
  3. 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Mannvirkja, svo sem verslunar-, skrifstofu-, verksmiðju-, verk­stæðis- og vörugeymslubygginga, gisti- og veitingahúsa, úthúsa og ræktunar á bújörðum, gróðurhúsa, bryggja, dráttarbrauta, tanka, borhola, raflína og lagnamannvirkja. Leið­rétt­ingar­­skyldan tekur til innskatts af efni, vinnu, tækjanotkun o.fl. vegna nýbyggingar, endur­­bygg­ingar, endurbóta, breytinga, viðgerða og viðhalds mannvirkja, enda sé samtals verð­­mæti þessara framkvæmda a.m.k. 500.000 kr. (án virðisaukaskatts).
  4. 2. mgr. orðast svo:
    Það telst breyting á forsendu fyrir færslu innskatts samkvæmt þessari grein þegar skattaðili naut fulls frádráttarréttar eða frádráttar að hluta þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið, en eignin er síðar seld, leigð eða tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber enginn frádráttarréttur eða minni frádráttarréttur. Það telst einnig breyting á forsendu ef eignar var aflað fyrir starfsemi sem var virðisaukaskattsskyld við öflun eignarinnar en er síðar undanþegin virðisaukaskatti með lögum, enda þótt ekki sé um breytta notkun eignar­innar að ræða. Enn fremur telst það breyting á forsendu fyrir innskatti þegar ökutæki skv. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. er breytt þannig að ökutækið uppfylli ekki skilyrði þau sem tilgreind eru í 1. tölul. 1. mgr. þótt ekki sé um breytta notkun ökutækis að ræða.
  5. 3. mgr. orðast svo:
    Leiðrétta skal innskatt vegna öflunar eigna, sem notaðar eru við blandaða starfsemi, ef hlutfallstala skv. 5. gr. lækkar um 10 prósentur eða meira frá því ári þegar eignar var aflað, eða frá fyrri leiðréttingu samkvæmt ákvæði þessu eða ákvæði 3. mgr. 13. gr.
  6. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir breytingu á forsendu skal ekki leiðrétta (bakfæra) innskatt í eftirfarandi tilvikum:
    1. Þegar sala eða afhending rekstrarfjármuna telst til skattskyldrar veltu skattaðila, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, og 11. gr. reglugerðar þessarar.
    2. Þegar sala eða afhending rekstrarfjármunar telst til undanþeginnar veltu samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/1988.
    3. Þegar eign er seld nauðungarsölu eða ráðstafað skv. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með síðari breytingum.
    4. Þegar fasteign er leigð út og leigusali er skráður frjálsri skráningu, sbr. reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign.

5. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. reglugerðarinnar:

  1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, er verður 1. mgr., svohljóðandi:
    Heimilt er skattaðila að leiðrétta til hækkunar innskatt vegna öflunar eigna skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. verði breyting á forsendu fyrir færslu innskatts.
  2. 1. mgr. er verður 2. mgr. orðast svo:
    Það telst breyting á forsendu fyrir færslu innskatts samkvæmt þessari grein þegar skattaðili naut einskis eða hlutfallslegs innskattsréttar þegar eign var keypt eða þegar verk var unnið, en eignin er síðar tekin til annarrar notkunar þar sem skattaðila ber meiri innskattsréttur. Það telst einnig breyting á forsendu ef eignar var aflað fyrir starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti við öflun eignarinnar en er síðar felld undir skattskyldusvið virðisaukaskatts með lögum, enda þótt ekki sé um breytta notkun eignarinnar að ræða.
  3. 2. mgr. fellur brott.
  4. Á eftir orðunum "þegar eignar var aflað" í 3. mgr. kemur: eða frá fyrri leiðréttingu samkvæmt þessu ákvæði eða ákvæði 3. mgr. 12. gr.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. mgr. orðast svo:
    Leiðrétting innskatts vegna öflunar lausafjármuna verður virk við forsendubreytingu, skv. 2. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 13. gr., á næstu fimm árum talið frá og með lokum yfirstandandi almenns tveggja mánaða uppgjörstímabils virðisaukaskatts, skv. 24. gr. laga nr. 50/1988, þegar eignanna var aflað. Ekki skal koma til leiðréttingar vegna forsendubreytingar sem verður eftir að þau fimm ár eru liðin.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, er verður 2. mgr., svohljóðandi:
    Skylda skattaðila til leiðréttingar innskatts vegna framkvæmda við mannvirki verður virk við forsendubreytingu, sbr. 2. mgr. 12., gr. á næstu tuttugu árum frá því að innskatturinn var færður, þ.m.t. innskattur sem kaupandi hefur yfirtekið leiðréttingarskyldu á skv. 1. mgr. 15. gr. Heimild skattaðila til leiðréttingar innskatts vegna framkvæmda við mannvirki verður virk við forsendubreytingu, sbr. 2. mgr. 13. gr. á næstu sex árum frá því að réttur til færslu innskatts stofnaðist, sbr. 16. gr. laga nr. 50/1988 og 1. gr. þessarar reglugerðar.
  3. 2. mgr. er verður 3. mgr. orðast svo:
    Verði forsendubreyting innan yfirstandandi uppgjörstímabils viðkomandi skattaðila þegar eignar er aflað eða framkvæmd við mannvirki á sér stað, skal innskattur færður í uppgjör fyrir það tímabil miðað við hina breyttu forsendu. Verði forsendubreyting síðar skal virðisaukaskattsfjárhæð sú sem leiðrétting er reiknuð af framreiknuð miðað við breytingar á byggingarvísitölu. Í tilviki leiðréttingarskyldu (bakfærslu) skal framreikningur miðast annars vegar við byggingarvísitölu í lok þess uppgjörstímabils virðisaukaskatts viðkomandi skatt­aðila þegar innskattur var færður, þ.m.t. innskattur sem lýtur yfirtekinni leiðrétt­ingar­skyldu skv. 1. mgr. 15. gr., og hins vegar við byggingarvísitölu í lok þess uppgjörs­tímabils viðkomandi skattaðila sem leiðrétting skal færð á. Í tilviki heimildar til færslu aukins innskatts skal framreikningur miðast annars vegar við bygg­ingar­vísitölu í lok yfir­stand­andi almenns tveggja mánaða uppgjörstímabils virðisaukaskatts skv. 24. gr. laga nr. 50/1988, þegar eign var keypt eða þegar framkvæmd við mannvirki fór fram og hins vegar við byggingarvísitölu í lok yfirstandandi uppgjörstímabils viðkomandi skattaðila þegar honum heimilast aukinn innskattur. Framreiknaða fjárhæð innskatts skal leiðrétta til lækkunar eða er heimilt að leiðrétta til hækkunar sem hér segir:
    1. Vegna lausafjármuna, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr., um 80% á næsta ári eftir því ári þegar eignar var aflað, um 60% á þarnæsta ári og lækkar síðan um 20 prósentur árlega. Verði forsendubreyting á fyrsta almanaksári, um 96,67% á næsta tveggja mánaða almenna uppgjörstímabili eftir að eignar var aflað, um 93,34% á þarnæsta almenna tveggja mánaða uppgjörstímabili og lækkar síðan um 3,33% fyrir hvert almennt tveggja mánaða uppgjörstímabil til loka almanaksársins.
    2. Vegna mannvirkja, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr., um 95% á næsta ári eftir því ári þegar framkvæmd við mannvirki fór fram, um 90% á þarnæsta ári og lækkar síðan um 5 prósentur árlega. Verði forsendubreyting á fyrsta almanaksári, um 99,17% á næsta tveggja mánaða almenna uppgjörstímabili eftir að framkvæmd við mannvirki fór fram, um 98,34% á þarnæsta almenna tveggja mánaða uppgjörstímabili og lækkar síðan um 0,83% fyrir hvert almennt tveggja mánaða uppgjörstímabil til loka almanaksársins.
  4. 3. mgr. er verður 4. mgr. orðast svo:
    Við breytingu á hlutfallstölu skv. 5. gr. skal leiðrétting vegna hvers einstaks almanaksárs nema 1/5 að því er varðar lausafjármuni, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. en 1/20 að því er varðar mannvirki, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr., af framreiknaðri fjárhæð virðisaukaskatts til leiðréttingar, sbr. 3. mgr.
  5. 4. mgr. er verður 5. mgr. orðast svo:
    Leiðréttingarfjárhæð skal færa á innskattsreikning á því uppgjörstímabili virðisaukaskatts þegar leiðrétting á sér stað.

7. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað orðanna "fasteignar", "frádráttarrétt" og "frádráttarréttur" í 1. mgr. kemur: mann­virkis, innskattsrétt og innskattsréttur.
  2. 3. mgr. orðast svo:
    Yfirtaki kaupandi leiðréttingarskyldu skulu seljandi og kaupandi sameiginlega tilkynna ríkis­skattstjóra um yfirtökuna innan átta daga frá því að viðskiptin áttu sér stað. Í til­kynn­ingu skal tilgreina fjárhæð þess innskatts sem leiðréttingarskyldan tekur til, greinda niður á þau ár og uppgjörstímabil virðisaukaskatts þegar innskatturinn var færður. Jafnframt skal til­greina í hvaða hlutfalli kaupandi yfirtekur leiðréttingarskylduna og í hvaða hlutfalli hún kemur til leiðréttingar hjá seljanda. Tilkynningu skal fylgja yfirlýsing kaupanda um yfir­töku leiðrétt­inga­rskyldu.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 16. gr., sbr. 49. gr., laga nr. 50/1988, um virðis­auka­skatt, með síðari breytingum, og öðlast gildi 1. janúar 2016.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Við leiðréttingu innskatts, hvort heldur er til lækkunar eða hækkunar, þeirra skattaðila sem nutu endurgreiðslu á 2/3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa hópbifreiða eða almenningsvagna, skv. ákvæði X til bráðabirgða við lög nr. 50/1988, um virðisaukaskatt með síðari breytingum, reiknast leiðrétting af þeim hluta virðisaukaskatts vegna kaupanna sem ekki fékkst endurgreiddur, fram­reiknaður skv. 3. mgr. 14. gr.

II.

Hafi skattaðili er stundar fólksflutninga, sem fram til loka árs 2015 falla utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts, en eru virðisaukaskattsskyldir frá upphafi árs 2016, keypt á árunum 2012, 2013, 2014 eða 2015 notaða hópbifreið til þess rekstrar, án þess að hafa sætt innheimtu virðisaukaskatts við kaupin, skal skattaðilanum heimilt að færa sem innskatt fjárhæð reiknaða með eftirgreindum hætti:

  1. Vegna kaupa á árinu 2012 fjárhæð sem nemur 1,35% af kaupverði.
  2. Vegna kaupa á árinu 2013 fjárhæð sem nemur 2,71% af kaupverði.
  3. Vegna kaupa á árinu 2014 fjárhæð sem nemur 4,06% af kaupverði.
  4. Vegna kaupa á árinu 2015 fjárhæð sem nemur 5,41% af kaupverði, hafi keypt hópbifreið verið nýskráð á árunum 2012-2014, en 15,48% af kaupverði hafi hópbifreiðin verið nýskráð á árinu 2015.

Ákvæði þetta tekur aðeins til hópbifreiða sem nýskráðar hafa verið í ökutækjaskrá 1. janúar 2012 eða síðar og er bundið því skilyrði að skattaðili noti bifreiðina til virðisaukaskattsskyldra fólks­flutninga allt sitt fyrsta uppgjörstímabil virðisaukaskatts á árinu 2016.

Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, 21. desember 2015. 

F. h. r.

Ingibjörg Helga Helgadóttir.

Hlynur Ingason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica